Beint á efnisyfirlit síðunnar

Um BSRB

BSRB eru stærstu samtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Öll stéttarfélög starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði geta orðið aðilar að BSRB. BSRB var stofnað 14. febrúar 1942 og í dag eru aðildarfélög BSRB 25 talsins og er fjöldi félagsmanna tæplega 22.000. Um tveir þriðju félagsmanna eru konur.

Á skrifstofu BSRB starfa 10 starfsmenn sem annast ýmis störf fyrir samtökin og aðildarfélög þess. Meðal þess sem skrifstofan annast er hagfræðiþjónusta og lögfræðiþjónusta við félögin. Þá gefur bandalagið út BSRB-tíðindi og miðlar upplýsingum í formi upplýsingablaða til félaganna.

 Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum og stuðla að bættu velferðarsamfélagi. Bandalagið fer með samningsrétt í sameiginlegum málum félaganna og þeim sem því er falið hverju sinni.

BSRB styður og eflir aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og hagmunagæslu félagsmanna. Þá vinnur bandalagið að samstöðu meðal aðildarfélaga og stuðlar að jafnræði þeirra í framkvæmd þjónustu til félagsmanna. Bandalagið vinnur jafnframt að fræðslu- upplýsinga- og menningarstarfsemi og jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.

Þá vinnur BSRB að aukinni samstöðu, samstarfi og tengslum í stéttarfélagsmálefnum innanlands og erlendis.