Breytingar á skattkerfi óheillaskref

Skoðun
Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB

Breytingar á skattkerfinu sem tóku gildi um áramót voru óheillaskref sem mun annað hvort leiða til skertrar þjónustu eða aukinna álagna á tekjulægri hópa skrifar Árni Stefán Jónsson, 1. varaformaður BSRB og formaður nefndar um vinnumarkað, kjaramál og lífeyrismál í aðsendri grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Í grein sinni fer Árni Stefán yfir áherslur BSRB í skattamálum og fækkun á skattþrepum í tekjuskattskerfinu úr þremur í tvö. „Allt tal um einföldun á kerfinu og „lækkun á flækjustigi“ er aðeins yfirvarp fyrir lækkun á álögum á hina tekjumeiri. Það sem gerist með fækkun skattþrepa er að skattbyrðin er færð á milli hópa. Hærra hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti kemur frá þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við það er ekki hægt að búa,“ skrifar Árni Stefán.

„Einnig er augljóst að breytingarnar hafa það í för með sér að tekjur ríkissjóðs lækka á tímum þegar almenningur kallar eftir því að velferðarkerfið sé byggt upp að nýju. Það á enn frekar við nú um áramótin þegar skatthlutfallið var lækkað samhliða því að miðjuskattþrepið var fellt út. Þetta er augljóslega röng forgangsröðun,“ skrifar hann ennfremur.

Grein Árna Stefáns má lesa á vef Vísis, en hún er einnig birt í heild sinni hér að neðan.

 

Álögur á hátekjufólk lækkaðar

Um síðustu áramót fækkaði skattþrepum í tekjuskattskerfinu úr þremur í tvö þegar miðþrepið var fellt út. Það var óheillaskref og mun annað hvort leiða til skertrar þjónustu eða leiða til þess að álögur á tekjulægri hópa aukast.

Skattkerfið á ekki eingöngu að hugsa sem tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð, það á einnig að virka sem tekjujöfnunartæki. Kerfið á að spila saman með velferðarkerfinu þannig að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Aðeins þannig getum við kallað okkur norrænt velferðarsamfélag. Þess vegna þarf skattkerfið að virka þannig að þeir sem hafa hærri tekjur greiði meira.

BSRB er fylgjandi þrepaskiptingu í skattkerfinu, gefið að slík skipting taki mið af skerðingum bótamegin, eins og segir í stefnu bandalagsins. Það var því heillaskref þegar ákveðið var taka upp þrjú skattþrep hér á landi í stað eins áður og reynslan af því kerfi hefur verið góð. Það er því óskiljanlegt að ákveðið hafi verið að breyta kerfinu aftur með því að fækka skattþrepunum, sér í lagi eftir svo stuttan tíma.

Rökin sem notuð eru fyrir því að fækka skattþrepunum virðast aðallega vera þau að það þurfi að einfalda kerfið. Það er einkennilegt að okkur Íslendingum sé ekki treyst til að skilja kerfi með nokkrum skattþrepum þegar allar aðrar vestrænar þjóðir eru með slík fjölþrepa kerfi.

Allt tal um einföldun á kerfinu og „lækkun á flækjustigi“ er aðeins yfirvarp fyrir lækkun á álögum á hina tekjumeiri. Það sem gerist með fækkun skattþrepa er að skattbyrðin er færð á milli hópa. Hærra hlutfall af tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti kemur frá þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við það er ekki hægt að búa.

Einnig er augljóst að breytingarnar hafa það í för með sér að tekjur ríkissjóðs lækka á tímum þegar almenningur kallar eftir því að velferðarkerfið sé byggt upp að nýju. Það á enn frekar við nú um áramótin þegar skatthlutfallið var lækkað samhliða því að miðjuskattþrepið var fellt út. Þetta er augljóslega röng forgangsröðun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?