Engar skyndilausnir í heilbrigðiskerfinu

Skoðun

Nú þegar heilbrigðiskerfið er komið að fótum fram af fjárskorti er enginn skortur á fólki sem vill einkavæða kerfið að verulegum hluta. Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, fer yfir stöðuna í heilbrigðiskerfinu í grein sem birtist á vefmiðlinum Kjarnanum í gær.

Í grein sinni rekur Elín Björg vandann við að auka einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og vísar til orða landlæknis og sérfræðings í opinberri stjórnsýslu. Bæði hafa þau bent á að með aukinni einkavæðingu minnka möguleikar ríkisins á því að taka stefnumótandi ákvarðanir um heilbrigðiskerfið.

„Stefna BSRB er skýr þegar kemur að heilbrigðismálum. Bandalagið leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum,“ skrifar Elín Björg.

„Þörfin á enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins ætti að vera öllum ljós en það verður að gæta að því hvernig uppbyggingin fer fram. Samkvæmt nýlegri rannsókn vilja rúmlega 80 prósent landsmanna að rekstur heilbrigðiskerfisins sé fyrst og fremst í höndum hins opinbera. Virðum þann þjóðarvilja og byggjum upp heilbrigðiskerfið til framtíðar á þeim grundvelli,“ segir Elín Björg í grein sinni, sem lesa má á vef Kjarnans.

Grein Elínar Bjargar má lesa í heild sinni hér að neðan.

Bætum heilbrigðiskerfið en forðumst skyndilausnir


Það gæti ráðist á næstu árum hvernig íslensku heilbrigðiskerfi reiðir af eftir stanslausan niðurskurð og fórnir síðustu ára og áratuga. Fara þarf í stórfellda uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu, en það er ekki sama hvernig það er gert.

Stjórnmálamenn virðast búnir að átta sig á því að ekki er hægt að reka kerfið með þeim hætti sem gert hefur verið undanfarið. Vandi heilbrigðisstofnanna er öllum kunnur. Fréttir hafa ítrekað borist af því að öryggi sjúklinga sé lagt í hættu. Biðlistar eftir aðgerðum eru allt of langir.

Það er í þessu umhverfi sem stjórnvöld verða að hafa varan á. Í dag starfa fjölmörg einkafyrirtæki í heilbrigðisgeiranum á Íslandi, bæði litlar einkareknar læknastofur og stærri fyrirtæki sem ætla sér stóra hluti. Í einhverjum tilvikum geta Íslendingar ekki leitað annað en til einkaaðila þar sem ríkið er hætt að sinna verkefninu. Það á til dæmis við um frjósemismeðferðir sem áður voru veittar á Landspítalanum en eru í dag aðeins veittar hjá einu einkareknu fyrirtæki með ærnum tilkostnaði fyrir þá sem þangað leita.

Hagnast á skattgreiðslum almennings

Flestir virðast sammála um að ríkið eigi að fjármagna heilbrigðiskerfið og enginn sem talar fyrir því að fara sömu leið og í Bandaríkjunum, þar sem tryggingarfélögin maka krókinn með því að selja tryggingar sem veita aðgang að heilbrigðisþjónustu sem Íslendingum þykir sjálfsagt að njóta.

Þannig sagðist framkvæmdastjóri einkarekins heilbrigðisfyrirtækis í viðtali við Fréttatímann nýverið að hann væri að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að heilbrigðiskerfið eigi að vera fjármagnað af ríkinu. Hann sagði svo í beinu framhaldi að fái fyrirtæki hans leyfi til að gera mjaðma- og hnjáskiptaaðgerðir megi stytta biðlista verulega.

Hér er að ýmsu að hyggja. Í fyrsta lagi er það athyglisvert að einkaaðilum finnist það ekki tiltökumál að hagnast persónulega á skattgreiðslum almennings. Einkarekin fyrirtæki eru ekki góðgerðarsamtök. Það kostar að koma upp aðstöðu og vera með starfsfólk á launum. Fjármagna þarf fyrirtækin. Þeir sem það gera vilja ávaxta sitt fé og fá arð á móti fjárfestingunni.

Við þessu er ekkert að segja í hefðbundnum fyrirtækjarekstri, en þegar kemur að heilbrigðisþjónustu sem hefur aðeins einn viðskiptavin, ríkið, verður að nota skattgreiðslur almennings til að greiða eigendum þessara fyrirtækja arð. Stefna BSRB er skýr þegar kemur að heilbrigðismálum. Bandalagið leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum.

Aðeins skorið niður í opinbera kerfinu

Þá má líta til þess að þegar heilbrigðisþjónustan er rekin af hinu opinbera verður til þekking og reynsla innan kerfisins sem er svo miðlað áfram. Gott dæmi um þetta er Landspítalinn, sem er háskólasjúkrahús, en það sama á við svo víða.

Það hljómar auðvitað vel að hægt sé að stytta biðlista með því að kaupa þjónustu af einkareknu heilbrigðisfyrirtæki en málið er fráleitt svo einfalt. Eins og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur benti á í erindi á málþingi BSRB og ASÍ fyrr á árinu er mun erfiðara fyrir stjórnvöld að móta stefnu fyrir heilbrigðiskerfi sem er að miklum hluta einkavætt.

Það þýðir að með aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, þar sem einkarekstur er ekkert annað en einkavæðing á þjónustu, minnka möguleikar stjórnvalda til að taka stefnumarkandi ákvarðanir um forgangsröðun og skipulag kerfisins í þágu almannahagsmuna.

Hvaða afleiðingar hefur þetta haft? Birgir Jakobsson landlæknir benti á það á fundi heilbrigðisnefndar BSRB að sá mikli niðurskurður sem heilbrigðiskerfið hefur mátt þola á undanförnum árum hafi ekki náð nema að óverulegu leiti til þjónustu sérfræðilækna. Þeir hafa gert samning við Sjúkratryggingar og fá sínar greiðslur samkvæmt þeim samningi. Á sama tíma hefur þurft að skera þjónustu opinberra heilbrigðisstofnanna inn að beini.

Hjá því verður ekki litið að einkavæðing þjónustunnar hefur í vaxandi mæli leitt til einkavæðingar á fjármögnun, eins og Sigurbjörg benti á í áður nefndu erindi. Það getur gerst með hærri þjónustugjöldum sjúklinga, einkafjármögnun í formi fjárfestinga í tækjum og búnaði og endurskilgreiningu á þjónustu þannig að hún sé ekki lengur greidd úr opinberum sjóðum.

Sigurbjörg benti einnig á að nánast ómögulegt sé að breyta kerfi þegar það er einu sinni komið á. Það er því mikilvægt fyrir stjórnvöld að láta ekki freistast til að taka gylliboðum einkaaðila og láta þannig skammtímahagsmuni ráða í stað þess að byggja upp heilbrigðiskerfi til framtíðar.

Virðum þjóðarviljann

Þörfin á enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins ætti að vera öllum ljós en það verður að gæta að því hvernig uppbyggingin fer fram. Samkvæmt nýlegri rannsókn vilja rúmlega 80 prósent landsmanna að rekstur heilbrigðiskerfisins sé fyrst og fremst í höndum hins opinbera. Virðum þann þjóðarvilja og byggjum upp heilbrigðiskerfið til framtíðar á þeim grundvelli.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?