Fjárfestum í fólki og friði

Skoðun
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023 er teiknuð upp mynd af hagkerfi á blússandi siglingu og helsta áskorunin virðist vera að halda aftur af almenningi í neyslugleðinni. Fjallað er um kröftugan hagvöxt, lágt stig atvinnuleysis, skort á starfsfólki og kaupmáttaraukningu síðustu ára. Hins vegar er litið fram hjá þeirri staðreynd að kaupmáttaraukninguna má að miklu leyti rekja til endurheimtar launafólks á hlutdeild sinni í verðmætasköpuninni sem lækkaði um nær fjórðung í efnahagshruninu milli áranna 2007 og 2009. Sú kaupmáttaraukning hefur nú gengið til baka að hluta vegna vaxandi verðbólgu á þessu ári og hefur kaupmáttur rýrnað um 4,2 prósentustig frá janúar 2022. Til að sporna gegn verðbólgunni hefur Seðlabankinn hækkað stýrivexti um 4,75 prósentustig sem hefur rýrt kaupmátt enn frekar vegna aukinnar greiðslubyrði lána.

Hagvöxtur er mælikvarði á vöxt hagkerfisins í heild sinni en sýnir hvorki stöðu né mælir ávinning einstakra hópa. Í nýlegri greiningu ASÍ kemur fram að tekjuójöfnuður óx árið 2021 því ráðstöfunartekjur fólksins í hæstu tekjutíund hækkuðu hlutfallslega langmest milli áranna 2020 til 2021. Hækkun fjármagnstekna er þar helsta skýringin. Greiningin sýnir einnig að frá 2010 hefur skattbyrði allra hópa aukist nema hjá þeim sem eru í efstu tekjutíundinni. Aukningin er langmest í lægstu sex tekjutíundunum. Skattbyrði efstu tíundarinnar lækkaði því þar eru fjármagnstekjurnar mestar. Þá hefur verið mikill uppgangur í mörgum atvinnugreinum sem endurspeglast í afkomu- og hagtölum, ekki síst í stærstu útflutningsgreinunum; sjávarútvegi, álframleiðslu og ferðaþjónustu.

Vaxandi ójöfnuður

Hér má því segja að mætist tveir veruleikar; þrengri fjárhagsleg staða launafólks vegna sviptinga sem átt hafa sér stað það sem af er ári 2022 og rýmri staða þeirra sem eru með hæstu launin og eiga fjármagnið. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bregðast við þessum aðstöðumun? Líklegt verður að teljast að hún bendi á að hér á landi ríki hvað mestur jöfnuður á heimsvísu til að rökstyðja aðgerðaleysi sitt.

BSRB telur að þau takmörkuðu viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðbólgunni og áhrifum hennar á almenning dugi ekki til og það mun að óbreyttu hafa veruleg áhrif við kjarasamningaborðið á komandi vetri. Ofan á það bætist að búið er veikja mikilvæga tekjustofna ríkissjóðs sem standa undir velferðarkröfum okkar án þess að ný tekjuöflun komi á móti. Koma mætti á hvalrekaskatti á fyrirtæki sem hafa hagnast á heimsfaraldrinum og stríðsátökunum, hækka fjármagnstekjuskatt, bankaskatt og veiðigjöld.

Fjársvelt heilbrigðiskerfi

Styrking heilbrigðisþjónustunnar er lykillinn að bættum lífskjörum almennings og því að veita megi öllum viðeigandi þjónustu óháð efnahag eða búsetu. Veikleikar á tekjuhlið ríkissjóðs valda því hins vegar að aðhaldi er beitt á mikilvægar stofnanir þessara málaflokka þrátt fyrir ítrekuð neyðarköll frá heilbrigðiskerfinu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem tekur til áranna 2023-2027, og frumvarp þetta byggir á, er mönnun sögð ein stærsta áskorun heilbrigðiskerfisins. Þar segir enn fremur að efling mönnunar feli bæði í sér fjölgun heilbrigðisstarfsfólks og bætta nýtingu þekkingar. Í frumvarpinu er fjárveiting til reksturs sjúkrahúsþjónustu lækkuð um rúmlega 700 milljónir króna að raunvirði. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bæta mönnun og starfsaðstæður á t.d. Landspítala með lægri fjárveitingum til sjúkrahúsþjónustu? Það er skortur á starfsfólki miðað við óbreyttar fjárveitingar, halli á rekstri og álag alltof mikið. Þá eru einnig lagðar til 800 m.kr. í lægri greiðsluþátttöku notenda þjónustunnar en samtímis eru rekstrartekjur stofnana, sem er hlutdeild notenda, hækkaðar um 700 m.kr. Það er því í reynd engin heildarlækkun á greiðsluþátttöku almennings. Á sama tíma boðar fjármála- og efnahagsráðherra aukna einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu þrátt fyrir að allar kannanir sýni skýran vilja almennings um að heilbrigðisþjónusta sé rekin af hinu opinbera og aukinni einkavæðingu er hafnað. Enda veit fólk sem er, að aukin einkavæðing mun veikja opinberar heilbrigðisstofnanir enn frekar þegar þörf er á að styrkja þær.

Sá niðurskurður sem nú er boðaður kemur í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru þegar um helmingur launafólks innan BSRB og ASÍ fann fyrir auknu álagi í starfi vegna faraldursins en álagið jókst mest hjá konum sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum, þ.e. um 70 prósent samkvæmt könnun Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins árið 2021. Niðurskurðurinn mun hafa enn alvarlegri afleiðingar fyrir þessa hópa en snertir líka samfélagið allt. Erfitt er að manna störfin því launakjörin eru ekki samkeppnishæf og skortur á starfsfólki veldur gríðarlegu álagi á þau sem fyrir eru sem eykur líkur á alvarlegum veikindum og enn frekari flótta úr mikilvægum stéttum almannaþjónustunnar. Almenningur þarf að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu eða fær ekki viðunandi þjónustu og álagið sem af þessu hlýst bitnar fyrst á fremst á konum og tekjulægri hópum.

Launafólk í fjárhagsvanda

Rannsókn Vörðu leiddi líka í ljós að um þriðjungur launafólks í aðildarfélögum BSRB og ASÍ átti erfitt með að ná endum saman í árslok 2021. Tæplega tíundi hluti launafólks býr við skort á efnislegum gæðum og fjórir af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 króna útgjöldum án þess að stofna til skuldar. Andlegri heilsu hafði líka hrakað milli ára en í árslok 2021 töldu þrír af hverjum tíu andlega heilsu sína slæma. Í annarri rannsókn Vörðu um áhrif heimfaraldursins á andlega heilsu kom í ljós að sterk tengsl eru á milli efnislegs skorts og aukinnar tíðni þunglyndiseinkenna. Sú niðurstaða samræmist erlendum rannsóknum.

Í frumvarpinu er boðuð hækkun barnabóta en svo virðist sem sú hækkun sé óveruleg. BSRB hefur kallað eftir grundvallarbreytingu á barnabótakerfinu svo stuðningurinn verði almennur og að heimili upp að meðaltekjum sæti ekki skerðingum. Þá hefur stuðningur húsnæðisbóta við leigjendur og vaxtabóta við eigendur rýrnað að raungildi á síðustu árum. Ófullnægjandi húsnæðisstuðningur veldur því að tæpur þriðjungur leigjenda býr við íþyngjandi byrði húsnæðiskostnaðar, eða húsnæðiskostnað umfram 40 prósent af ráðstöfunartekjum. Um 10 prósent heimila í eigin húsnæði eru í þessari stöðu. Ríkisstjórnin skilar auðu þegar kemur að fyrirheitum um aukna uppbyggingu húsnæðis með óljósum fyrirheitum um að efna gefin loforð.

BSRB leggur ríka áherslu á aukinn húsnæðisstuðning nú í aðdraganda kjarasamninga og fjölgun almennra íbúða til að tryggja húsnæðisöryggi.

BSRB krefst alvöru aðgerða fyrir launafólk

BSRB hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að styrkja almannaþjónustuna og tekjutilfærslukerfin til að efla velferð hér á landi. Fjárlagfrumvarpið svarar ekki þessu ákalli heldur boðar þvert á móti niðurskurð í opinberri þjónustu og stefnuleysi í tekjutilfærslukerfunum. Þetta eru kerfin sem eiga að tryggja viðunandi lífskjör og velferð fyrir öll.

Styrkur hvers samfélags birtist í stöðu viðkvæmustu hópa þess. BSRB kallar eftir því að almannaþjónustan verði styrkt og tryggt verði aukið fjármagn til barnabóta og húsnæðismála í þinglegri meðferð frumvarpsins. Það fæli í sér raunverulega stefnumörkun um fjárfestingu í fólki og friði.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?