Samstarf grundvallað á trausti

Skoðun

Formaður BSRB skorar á nýjan fjármálaráðherra að koma í gegn breytingum á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna þannig að lögin verði í samræmi við samkomulag sem bandalög opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög á síðasta ári.

Í aðsendri grein eftir Elínu Björgu Jónsdóttur, formann BSRB, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, segir hún gott til þess að vita að ríkisstjórnin ætli sér að styðja við aðila vinnumarkaðarins í vinnu við umbætur á íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Það séu því miður innihaldslaus orð þar sem öll slík vinna sé á ís um fyrirsjáanlega framtíð.

Elín Björg bendir á að traust sé grundvöllur slíks samstarfs og að stjórnvöld hafi rofið það traust með því að skerða lífeyrisréttindi hluta opinberra starfsmanna, þvert á fyrirheit.

„Það tekur langan tíma og mikla vinnu að byggja upp traust en aðeins eitt augnablik að glata því niður. Hafi ný ríkisstjórn einhvern áhuga á því að auka efnahagslegan og félagslegan stöðugleika með því að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga er ljóst hvert fyrsta skrefið þarf að vera,“ segir Elín Björg í grein sinni.

„Nýr fjármálaráðherra þarf að koma í gegn breytingum á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna þannig að þær skerðingar á áunnum réttindum sem Alþingi samþykkti fyrir jól verði leiðréttar og að staðið verði að fullu við samkomulagið frá 19. september,“ segir hún.

Elín Björg bendir á að það eitt og sér vinni ekki upp glatað traust, en gott skref í þeirri vinnu að byggja upp traust á nýjan leik sé að bæta fyrir skaðann og standa við samkomulagið sem gert hafi verið við opinbera starfsmenn.

Grein Elínar Bjargar má lesa í heild sinni á Vísi, auk þess sem hún birtist hér að neðan.

 

Traust er forsenda góðs samstarfs

Ástæða er til að óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í þeim mörgu mikilvægu verkefnum sem framundan eru á þessu kjörtímabili. Það er gott til þess að vita að stjórnin ætli sér að styðja aðila vinnumarkaðarins í vinnu við umbætur á íslenska vinnumarkaðslíkaninu.

Því miður verðum við hjá BSRB að líta svo á að það séu orðin tóm, enda öll slík vinna á ís um fyrirsjáanlega framtíð. Lykilforsendan fyrir því að hægt sé að gera slíkar breytingar er að traust ríki milli þeirra sem að þeim vinna. Stjórnvöld brugðust því trausti gagnvart opinberum starfsmönnum þegar þau ákváðu að fara ekki að samkomulagi sem gert var við bandalög opinberra starfsmanna um lífeyrismál.

BSRB tók fullan þátt í þeirri vinnu, en ávallt á þeim forsendum að áunnin réttindi sjóðfélaga yrðu jafn verðmæt fyrir og eftir breytingarnar. Í samkomulagi sem undirritað var þann 19. september síðastliðinn var skýrt kveðið á um að svo ætti að vera. Þrátt fyrir það samþykkti Alþingi frumvarp fjármálaráðherra þar sem ekki var staðið við þau fyrirheit.

Það tekur langan tíma og mikla vinnu að byggja upp traust en aðeins eitt augnablik að glata því niður. Hafi ný ríkisstjórn einhvern áhuga á því að auka efnahagslegan og félagslegan stöðugleika með því að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga er ljóst hvert fyrsta skrefið þarf að vera.

Nýr fjármálaráðherra þarf að koma í gegn breytingum á lögum um lífeyrismál opinberra starfsmanna þannig að þær skerðingar á áunnum réttindum sem Alþingi samþykkti fyrir jól verði leiðréttar og að staðið verði að fullu við samkomulagið frá 19. september. Það þarf ekki að vera flókið og ætti ekki að taka langan tíma.

Það eitt og sér að gera þessa breytingu vinnur ekki upp það traust sem glataðist þegar stjórnvöld og Alþingi ákváðu að hafa að engu skýr ákvæði í samkomulagi sem þáverandi fjármálaráðherra, nú forsætisráðherra, undirritaði. En það væri gott fyrsta skref að bæta fyrir skaðann. Þegar það er komið má skoða framhaldið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?