Orlof og uppsagnarfrestur

Stundum koma upp þær aðstæður að eftir að orlofstími starfsmanns hefur verið ákveðinn kemur það upp að orlofið sé á sama tíma og uppsagnarfrestur. Allur gangur er á ástæðum starfsloka, þ.e. starfsmaður hefur sagt upp eða honum hefur verið sagt upp. Hið sama má segja um hvort starfsmaður vilji ljúka störfum sem fyrst eða vinna eins lengi og hann getur en nánar má lesa um réttindi og skyldur á upsagnarfresti hér.

Hvaða samkomulagi sem atvinnurekandi og starfsmaður komast að er í öllu falli ljóst að atvinnurekandi getur ekki ákveðið að starsfmaður skuli taka orlof í uppsagnarfresti sínum nema með samþykki starfsmanns. Regla þessi kemur hvergi fram í lögum né í kjarasamningum heldur er hún leidd af dómaframkvæmd en í því tilliti má m.a. nefna Hæstaréttardóm nr. 187/1992 (1994:329).

Í málinu var deilt um hvort heimilt hefði verið að senda starfsmann í orlof á meðan uppsagnarfrestur hans var að líða. Ákveðið hafði verið í maí mánuði að hvenær starfsmaðurinn færi í sumarfrí og var samkomulag um að hann yrði í fríi frá miðjum júlí fram í miðjan ágúst. Í lok júní er starfsmanninum svo tilkynnt um uppsögn sína með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þrátt fyrir að starfsmaðurinn væri búinn að skipuleggja fríið á framangreindum tíma þá fannst honum ósanngjarnt að orlofið ætti að falla inn í uppsagnarfrestinn. Gerði hann því athugasemd og taldi sig eiga rétt til að vinna út október. Hæstiréttur sagði í niðurstöðu sinni að réttindi til orlofs og uppsagnarfrests væru starfskjör sem tryggð væru með lögum og kjarasamningum. Orlof sem tekið væri á uppsagnarfresti sem væri ekki lengra en þetta væri almennt íþyngjandi fyrir starfsmann. Því hefði atvinnurekandinn ekki getað skipað uppsagnarfresti með þessum hætti án samþykkis starfsmanns.

Af þessum dómi og öðrum um sama álitaefni má því leiða að ef sumarorlof sé tekið sama tímabili og uppsagnarfrestur skuli uppsagnarfresturinn lengjast sem sumarorlofinu nemur. Ef starfsmaður á ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn er hins vegar algengt í framkvæmd að atvinnurekandi og starfsmaður semji um að starfsmaður taki laun út uppsagnarfrest sinn og fái svo uppgert áunnið orlof við starfslok.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?