Uppsagnir

Þær reglur sem gilda um uppsagnir opinberra starfsmanna, þ.e. starfsmanna ríkis og sveitarfélags, eru nokkuð frábrugðnar reglum sem gilda um uppsagnir starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Sambærilegar reglur gilda um starfsmenn ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar.

Uppsögn tekur gildi næstu mánaðamót frá móttöku tilkynningar þar um. Berist starfsmanni ekki uppsagnarbréf fyrir mánaðamót miðast uppsögnin við næstu mánaðarmót á eftir og starfslok frestast því um einn mánuð. Uppsagnir starfsmanna ríkis og sveitarfélaga skulu ávallt byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en ólíkar málsmeðferðarreglur gilda eftir því hvort ástæða uppsagnar er að rekja til starfsmannsins sjálfs eða atvinnurekanda. Þannig er áminning nauðsynlegur undanfari lögmætrar uppsagnar af ástæðum sem rekja má til starfsmannsins. Sé ástæða uppsagnar hins vegar að rekja til atvinnurekanda, s.s. vegna skipulagsbreytinga eða hagræðingar í rekstri ber atvinnurekanda skylda til að gæta að málefnalegum sjónarmiðum.

Til einföldunar er hér að neðan aðgreindir hinir mismunandi hópar launafólks í umfjöllun um réttindi og skyldur í tengslum við uppsögn úr starfi.

 

Ríkisstarfsmenn

Um starfsmenn ríkisins gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög). Samkvæmt lögunum skipast heimildir atvinnurekanda til uppsagna úr starfi í tvennt; vegna ástæðna sem rekja má til starfsmannsins sjálfs og vegna aðstæðna sem varða atvinnurekandann.

 Uppsagnir úr starfi vegna ástæðna sem varða starfsmanninn

Í 44. gr. starfsmannalaga er fjallað um heimildir atvinnurekanda til að segja upp ríkisstarfsmanni vegna ástæðna er varða hann sjálfan. Ástæðurnar eru þá vegna brota í starfi en nauðsynlegur undanfari slíkrar uppsagnar er áminning. Í lagaákvæðinu segir:

„Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar."

Áminningu má veita starfsmanni ef hann hefur í starfi sínu sýnt „óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“, sbr. 21. gr. starfsmannalaga. Nánar er fjallað um réttindi og skyldur vegna áminninga hér.

Algengur misskilningur er að veita verði þrjár áminningar áður en til uppsagnar kemur. Hins vegar er það svo að nægilegt er að veita eina áminningu og er þá heimilt að segja starfsmanni upp á grundvelli samkynjaðs starfsbrots. Ekki hefur verið slegið föstu hve langur tími má líða frá því starfsmaður fékk áminningu og honum er tilkynnt um uppsögn vegna ítrekaðs samkynja starfsbrots. Í þeim efnum er vísað til eðlilegs tímalegs samhengis og miðað við 1-2 ár eftir alvarleika brotsins.

Uppsagnir úr starfi vegna ástæðna sem varða atvinnurekandann

Að baki hverri ákvörðun um uppsögn á opinberum vinnumarkaði verða að ríkja málefnaleg sjónarmið. Málefnaleg sjónarmið eru til dæmis talin vera fyrir hendi þegar ákvörðun um uppsögn er byggð á skipulagsbreytingum eða vegna hagræðingar. Því er heimilt að segja starfsmönnum upp á þeim grundvelli.

Engar skráðar reglur eru fyrir hendi um hverjum beri að segja upp þegar fækka þarf starfsmönnum en leiða má af reglum stjórnsýsluréttar að svonefnt öfugt hæfnismat eigi að fara fram á starfsmönnum áður en til uppsagna kemur. Í því felst að þeim starfsmönnum verði sagt upp sem hafa minnstu hæfnina til að gegna störfunum.

 

Starfsmenn sveitarfélaga

Sambærilegar reglur gilda um áminningarskyldu sem nauðsynlegan undanfara lögmætrar uppsagnar samkvæmt kjarasamningum varðandi starfsmenn sveitarfélaga og að ofan greindir varðandi starfsmenn ríkisins. Munurinn er sá að reglur varðandi starfsmenn ríkisins þar um er að finna í lögum um starfsmenn ríkisins en kjarasamninga varðandi starfsmenn sveitarfélaga.

Almennt er orðalag kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við sveitarfélögin sambærileg þar um þar sem flest þeirra semja við Samband íslenskra sveitarfélaga sem fer með fyrirsvar til kjarasamningsgerðar fyrir hönd allra sveitarfélaga annarra en Reykjavíkurborgar.

Uppsagnir vegna ástæðna sem má rekja til starfsmanns

Sem dæmi um heimild til uppsagna í tengslum við ástæður sem rekja má til starfsmannsins sjálfs má nefna gr. 11.1.6.2 í kjarasamningi Kjalar við Samband íslenskra sveitarfélaga:

"Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða afhafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal vinnuveitandi veita honum skriflega áminningu."

Uppsagnir vegna ástæðna sem varða atvinnurekanda

Sem dæmi um reglur kjarasamninga um heimild til uppsagna í tengslum við ástæður sem varða atvinnurekanda má nefna gr. 11.1.6.2 í kjarasamningi Kjalar við Samband íslenskra sveitarfélaga:

"Óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Uppsögn skal vera skrifleg og miðast við mánaðarmót. Óski starfsmaður þess skal veita honum skriflegan rökstuðning."

 

Rökstuðningur fyrir uppsögn

Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga hafa samkvæmt stjórnsýslulögum rétt til að krefjast skriflegss rökstuðnings fyrir uppsögn. Samkvæmt athugasemdum með 1. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er uppsögn stjórnvaldsákvörðun. Þar af leiðandi gilda stjórnsýslulög um töku ákvörðunar um uppsögn hjá ríki og sveitarfélögum. Í 21. gr. stjórnsýslulaga er svo fjallað um heimild til að óska eftir rökstuðningi fyrir stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt lagaákvæðinu skal bera fram beiðni um rökstuðning fyrir uppsögn innan 14 daga frá því að tilkynning um uppsögn barst og skal atvinnurekandi svara henni innan 14 daga frá því að beiðnin barst.

Samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Ef ákvörðunin byggist að hluta til á mati skal koma fram í rökstuðningnum þau meginsjónarmið sem voru ráðandi við matið. Ef ástæða er til skal svo í rökstuðningi rekja í stuttu máli rekja þær upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Sem dæmi um þær upplýsingar sem starfsmaður getur sérstaklega óskað eftir í beiðni um rökstuðningi fyrir uppsögn úr starfi má nefna eftirfarandi. Ef ástæða uppsagnar er að rekja til skipulagsbreytinga eða hagræðingar eða ef um niðurlagningu stöðu er að ræða, má t.d. óska eftir upplýsingum um hvort þau verkefni sem starfsmaður hafi sinnt hafi dregist saman eða lagst af. Jafnframt hvort farið hafi fram mat á hæfni starfsmanns samanborið við aðra starfsmenn sem eftir eru á vinnustaðnum og sinna þeim verkefnum sem umræddur starfsmaður sinnti áður. Einnig er hægt að óska eftir afriti af þeim gögnum sem urðu til við undirbúning og töku ákvörðunar um uppsögn.

 

Endurskoðun lögmætis uppsagna

Algengt er að álitaefni um hvort uppsögn starfsmanns ríkis eða sveitarfélaga séu lögð fyrir dómstóla til endurskoðunar. Samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar verður þar til bær aðili að hafa tekið ákvörðun um og tilkynnt um uppsögn en almennt má segja að sá sem hefur heimild til að ráða viðkomandi starfsmann í starfið hefur einnig heimild til að segja honum upp. Í grunninn er það svo að æðsti yfirmaður viðkomandi stofnunar eða stjórnvalds hafi einn heimild til ráðningar og uppsagna starfsmanna. Hins vegar er honum heimilt að framselja það vald sitt til undirmanna sinna. Misjafnt er hvernig þessu er háttað hjá hinum ólíku og fjölmörgu stjórnvaldsstofnunum en þó mikilvægt að gengið sé úr skugga um að sá sem tilkynnti um uppsögn hafi almennt heimild til að fara með slíkt vald.

Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins skal ákvörðun um uppsögn jafnframt byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Sem dæmi um það sem hefur talist til málefnalegra sjónarmiða samkvæmt dómaframkvæmd er að atvinnurekandi hafi tekið ákvörðun um skipulagsbreytingar eða að hann sæti hagræðingarkröfu og þar af leiðandi þurfi að fækka fólki.

Ef að ástæður uppsagnar er að rekja til starfsmanns sjálfs er algengt að álitaefni um hvort gætt hafi verið að málsmeðferðarreglum sem gilda þar um.

 

Tímabundnar ráðningar

Tímabundnum ráðningarsamningum verður ekki sagt upp á samningstímabilinu nema sérstaklega hafi verið um það samið. Tímabundnir ráðningarsamningar eru þess eðlis að þeir hafa ákveðinn gildistíma og líður þá starfið undir lok við lok samningstímans án þess að atvinnurekandi þurfi að tilkynna sérstaklega um starfslok. Ef ekki er hefur með sannanlegum hætti verið samið um að heimilt sé að segja tímabundinni ráðningu upp er það óheimilt.

Um þetta var fjallað í dómi Hæstaréttar nr. 483/1998. Málið varðaði starfsmann sem hóf störf í apríl 1997 en hætti störfum fyrirvaralaust samkvæmt ákvörðun atvinnurekanda í október sama ár. Hann fékk eingöngu greiddan einn mánuð í uppsagnarfrest. Starfsmaðurinn byggði á því að hann hefði verið ráðinn tímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests og hann ætti þar af leiðandi rétt til launa út samningstímann sem var 1. febrúar 1998. Hæstiréttur taldi að þar sem atvinnurekandi hefði gert ráðningarsamninginn yrði hann að bera hallann af óskýrri framsetningu sem fólst í því að bæði var merkt við fastráðningu og lokadagsetning ráðningar var tilgreind. Taldi Hæstiréttur þar af leiðandi að atvinnurekanda hefði verið óheimilt að segja upp ráðningarsamningnum fyrir lok ráðningartímans, 1. febrúar 1998.

Dómur varðandi starfslokasamning ríkisstarfsmanns

Þann 20. september 2011 féll dómur við héraðsdóm Reykjavíkur í máli félagsmanns Félags flugmálastarfsmanna ríkisins gegn íslenska ríkinu. Í málinu greindi aðila á um hvort samningur V og Lögreglustjórans á Suðurnesjum um uppgjör vegna áunnins leyfis frá störfum og starfslok hafi verið skuldbindandi fyrir íslenska ríkið og hvort kröfum samkvæmt samkomulaginu hafi verið beint að réttum aðila. Niðurstaðan var að íslenska ríkið var dæmt til að greiða eftirstöðvar greiðslna samkvæmt samkomulaginu.

Málsatvik voru þau að V hóf störf hjá Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli árið 1991 og starfaði við öryggisgæslu. Sætti starf hans á starfsævinni nokkrum breytingum en síðasta breytingin fól í sér að hann var starfsmaður Lögreglustjórans á Suðurnesjum frá árinu 2007. Í september 2008 gerði V og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum með sér samning um uppgjör vegna áunnins leyfis og starfslok V. Samningurinn fól í sér að V skyldi taka áunnið orlof, helgidagafrí og hvíldartíma og halda óbreyttum launum þar til leyfisréttindin væru fullnýtt. Að því loknu kæmi hann ekki aftur til starfa en héldi launum sínum (biðlaunum) ásamt vaktaálagi óskertum til 31. desember 2009. Starfsemi öryggisdeildar Lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem V hafði starfaði við, varð frá 1. janúar 2009 hluti af starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf.

V fékk greidd laun frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum til ársloka 2008 og greidd 6 mánaða biðlaun frá samgönguráðuneytinu. Í júlí 2009 var V tilkynnt að látið yrði af greiðslunum þar sem ráðuneytið teldi sig fyrir misskilning hafa tekist þær á hendur. Fyrir dómnum var deilt var um hvort samningur V og Lögreglustjórans á Suðurnesjum hafi verið skuldbindandi fyrir íslenska ríkið og hvort kröfum samkvæmt samkomulaginu hafi verið beint að réttum aðila.

Í forsendum að niðurstöðu dómsins segir að V hafi verið ríkisstarfsmaður og fóru réttindi hans og skyldur eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, ráðningarsamnings og kjarasamnings Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR). Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sé ekki ákvæði um starfslokasamninga og ekki hafi verið sýnt fram á að neitt standi í vegi fyrir að slíkur starfslokasamningur sé gerður enda eru þeir nokkuð algengir. Jafnframt var ekki fallist á málsástæðu íslenska ríkisins um að greiðslur samkvæmt samkomulaginu hafi ekki rúmast innan þeirra fjárheimilda sem Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafði samkvæmt fjárlögum eða að V ætti að bera hallann af því að slík heimild hafi ekki verið til staðar eða henni ekki aflað enda var enginn fyrirvari um slíkt í samkomulagi hans um starfslok. Loks hefði ekki verið sýnt fram á að samkomulagið þyrfti staðfestingu dómsmála- eða fjármálaráðuneytis til að fá staðfestingu.

V lét af störfum hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum áður en Keflavíkurflugvöllur ohf. tók yfir umrædda öryggisgæslu. Íslenska ríkið þótti ekki hafa sýnt fram að skuldbindingar Lögreglustjórans á Suðurnesjum samkvæmt starfslokasamningum hefði færst yfir til Keflavíkurflugvallar ohf. á grundvelli aðilaskipta í skilningi laga nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Var íslenska ríkið dæmt til að greiða V sem nam eftirstöðvum greiðslum starfslokasamnings ásamt dráttarvöxtum.

Dóminn má sjá hér.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?