Fæðingarorlof

Fæðingarorlof - fæðingarstyrkur

Allir foreldrar á vinnumarkaði eiga rétt til fæðingar- og foreldraorlofs. Það á jafnt við foreldra sem eru starfsmenn eða þá sem eru sjálfstætt starfandi. Foreldrar utan vinnumarkaðar og foreldrar í námi eiga rétt til fæðingarstyrks, sbr. 1. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarorlofslög).

Helstu markmið laganna er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu-og atvinnulíf, sbr. 2. gr. fæðingarorlofslaga.

Fæðingarorlofssjóður annast greiðslur til foreldra sem njóta réttinda til greiðslna í fæðingarorlofi en á vefsíðu sjóðsins má nálgast upplýsingar um fæðingarorlof, s.s. reiknivél fyrir útreikning á greiðslum frá sjóðnum. 

 Réttur til fæðingarorlofs

Fæðingar- og foreldraorlof samkvæmt fæðingarorlofslögum er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast til við fæðingu, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur.

Tímalengd fæðingarorlofs fyrir báða foreldra er samtals 9 mánuðir og byggir á 3+3+3 mánaða reglu. Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs. Sá réttur er ekki framseljanlegur. Þá eiga foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér. Fæðingarorlof vegna fæðingar barns er hægt að taka upp að 24 mánaða aldri barns en réttur vegna ættleiðingar eða varanlegs fóstur fellur niður 24 mánuðum eftir að barnið kom inn á heimilið.

Þegar foreldri fer í fæðingarorlof fellur það af launaskrá hjá atvinnurekanda og fær greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði, að uppfylltum skilyrðum fæðingarorlofslaga. Mánaðarleg greiðsla til foreldris frá sjóðnum er 80% af meðaltali heildarlauna en hámarksgreiðslur frá sjóðnum eru 500.000 kr. Réttur til greiðslna hjá sjóðnum er því eftirfarandi.

  • Foreldrar sem eru með lægri mánaðarleg meðallaun en 625.000 kr. eiga rétt á 80% af meðaltali heildarlauna. Þetta er fjárhæð fæðingarorlofs fyrir lögbundinn frádrátt s.s. skattgreiðslur, framlag til lífeyrissjóðs og iðgjald til stéttarfélags.
  • Foreldrar sem er með hærri meðallaun en 625.000 kr. á mánuði lenda í þakinu svonefnda þar sem 80% af þeirri tölu eru 500.000 kr. og fá ekki hærri greiðslur en sem því nemur. Þetta er fjárhæð fæðingarorlofs fyrir lögbundinn frádrátt s.s. skattgreiðslur, framlag til lífeyrissjóðs og iðgjald til stéttarfélags.

Rétturinn til að taka fæðingarorlof stofnast við fæðingu barns en foreldri er heimilt að hefja töku þess allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Móðir skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Réttur til fæðingarorlofs er bundinn því að foreldri fari sjálft með forsjá barnsins eða hafi sameiginlega forsjá ásamt hinu foreldri þess þegar fæðingarorlof er tekið. Forsjálaust foreldri á rétt til fæðingarorlofs ef fyrir liggur samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem fæðingarorlof stendur yfir.
 

Framsal réttinda

Foreldri öðlast rétt til fæðingarorlofs í allt að níu mánuði hafi hitt foreldrið andast á meðgöngu barns og barnið fæðist lifandi. Hið sama gildir um einhleypa móður sem hefur gengist undir tæknifrjóvgun eða einhleypt foreldri sem hefur ættleitt barn eða tekið barn í varanlegt fóstur. Ef annað foreldrið andast áður en barn nær 24 mánaða aldri færist sá réttur fæðingarorlofs sem hinn látni hefur ekki nýtt sér yfir til eftirlifandi foreldris. Foreldri sem er ófært vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar um að annast barn sitt á fyrstu 24 mánuðum eftir fæðingu þess er heimilt að framselja rétt sinn til fæðingarorlofs sem það hefur ekki nýtt sér til hins foreldrisins að hluta eða öllu leyti.

 

Uppsöfnun og vernd réttinda

Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður að lágmarki 8%. Foreldri er að auki heimilt að greiða í séreignarsjóð.

Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.

Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?