Spurt og svarað um réttindi vegna COVID-19 faraldursins

Spurt og svarað um COVID-19

Mikilvægt er að gæta að réttindum launafólks á meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. BSRB hefur tekið saman algengar spurningar sem hafa borist frá aðildarfélögum og félagsmönnum aðildarfélaga. Við munum bæta við spurningum eftir því sem tilefni er til.

Á vef landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, covid.is, er að finna ýmsar upplýsingar sem tengjast heimsfaraldrinum. Þar má til dæmis finna upplýsingar um hvernig skal haga sér í sóttkví og samkomubanni, hvernig forðast má smit og fleira. 

Algengar spurningar um réttindi félagsmanna í aðildarfélögum BSRB tengd COVID-19 faraldrinum

  • Eiga starfsmenn rétt á launum í sóttkví?

    Já, þurfi starfsmenn að sæta sóttkví eiga þeir rétt á launum. Réttindi til launa eru mismunandi eftir því hvar fólk vinnur eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan. Hægt er að smella á myndirnar til að stækka þær.

    Réttindi starfsfólks hjá ríkinu

    Réttindi hjá ríkinu 

     

    Réttindi starfsfólks sveitarfélaga

    Réttindi hjá sveitarfélögum

     

    Réttindi starfsfólks á almennum vinnumarkaði

    Réttindi geta verið mismunandi eftir vinnustöðum en lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví tryggja lágmarksréttindi launafólks. Starfsmaður á rétt á að fá greitt fyrir þá daga sem hann sætir sóttkví. Greiðslan miðast við meðaltal heildarlauna þann mánuð sem starfsmaður var í sóttkví.

    Lögin fela í sér að atvinnurekandi á rétt á endurgreiðslu vegna slíkra laungreiðslna frá Vinnumálastofnun en hámarksfjárhæð greiðslnanna er 633.000 kr. fyrir hvern starfsmann miðað við heilan almanaksmánuð. Hámarksgreiðslur fyrir hvern dag nema 21.100 kr.

    Starfsmaður nýtur sömu réttinda vegna barna sinna yngri en 13 ára eða barna yngri en 18 ára sem þiggja þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eiga einnig rétt á greiðslum vegna sóttkvíar sem sótt er um í gegnum heimasíðu Vinnumálastofnunar.

  • Get ég sjálf/ur tilkynnt atvinnurekanda um sóttkví að eigin ákvörðun?

    Það eru heilbrigðisyfirvöld sem taka ákvörðun um að einstaklingur þurfi að sæta sóttkví. Almennt er skylt að framvísa læknisvottorði til að eiga rétt til launagreiðslna undir þessum kringumstæðum. Mögulegt er að álag verði svo mikið á heilsugæslu að ekki gefist tími til að veita öllum sem þurfa slíkt læknisvottorð á ákveðnum tíma, en við þær aðstæður gætu atvinnurekendur þurft að víkja frá kröfu um vottorð í ljósi aðstæðna. 

  • Ef starfsmaður er með undirliggjandi sjúkdóm og þar af leiðandi í áhættuhóp, á hann rétt á launum í sóttkví?

    Ef starfsmaður fer í fyrirbyggjandi sóttkví vegna fyrirmæla læknis verður að telja að hann eigi rétt á veikindalaunum í sóttkví. Ef starfsmaður kýs sjálfur að vera heima ætti hann ekki rétt á launum. Hér ræður læknisfræðilegt mat.

  • Ef starfsmaður er kvíðinn vegna ástandsins og kýs að vera heima, á hann þá rétt á launum?

    Andlegir sjúkdómar skapa rétt til greiðslna í veikindaforföllum. Ef læknisvottorð liggur fyrir sem staðfestir kvíða eða annan andlegan kvilla teljast það sem veikindi og eru greiðsluskyld forföll. Starfsfólk er þó hvatt til að ræða við sinn yfirmann og finna hentugustu lausnina í þessum krefjandi aðstæðum. 

  • Getur atvinnurekandi breytt starfsskyldum mínum eða fært mig yfir í annað starf?

    Atvinnurekandi getur ekki einhliða breytt starfsskyldum þínum umfram það sem rúmast innan ráðningarsamnings.  

  • Á ég rétt á launum ef ég smitast af COVID-19?

    Já, þá áttu rétt á launum í veikindum rétt eins og í öðrum veikindum. 

  • Eiga starfsmenn að fara til læknis til að fá vottorð um veikindi?

    Nei, það eru tilmæli frá yfirvöldum um að leita einungis til læknis þegar nauðsyn krefur, vegna álags sem nú er á starfseminni. Til þess að óska eftir læknisvottorði ætti að hafa samband við heilsugæslu í síma. Þar sem mikið álag er á heilsugæslu og annarri heilbrigðisþjónustu gæti útgáfa vottorða tafist og þurfa atvinnurekendur að sýna því skilning. 

  • Hvernig á að haga öryggi á vinnustað á tímum samkomubanns?

    Allir vinnustaðir þurfa að tryggja öryggi sinna starfsmanna. Það þarf að tryggja að sóttvarnir séu í lagi, að ekki séu fleiri en 20 í sama rými á hverjum tíma og að hægt sé að hafa 2 metra á milli þeirra einstaklinga sem eru í vinnu. Mikilvægt er að leitast við að takmarka samneyti á vinnustöðum og nýta fjarvinnu eins og kostur er þar sem því verður við komið. Hver vinnustaður þarf svo að útfæra nánar starfsemi sína miðað við reglur í samkomubanni og aðstæður hverju sinni.

  • Eiga starfsmenn rétt á launum ef barn þeirra er í sóttkví?

    Fram kemur í leiðbeiningum smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnarlæknis að ef um ungt barn er að ræða sem fer í sóttkví þá sé nauðsynlegt að fullorðinn einstaklingur fari í sóttkví með barninu. Það felur það í sér að velja þarf einn fullorðinn einstakling sem lendir þá einnig í sóttkví og mun sjá um og annast barnið á meðan það er í sóttkví. Mikilvægt er að skipuleggja umgengni á heimilinu þannig að þeir sem eru í sóttkví og hinir séu sem allra minnst á sömu svæðum íbúðarinnar. Í sameiginlegum rýmum eins og á salerni og í eldhúsi þarf að gæta sérstaks hreinlætis.

    Um þann eina einstakling sem mun sinna barninu á meðan það er í sóttkví gildir að hann lendir í sóttkví og á því rétt til fastra launa á meðan hann er í sóttkví. Vinnuveitandi getur farið fram á að starfsmaðurinn vinni í fjarvinnu eins og aðstæður leyfa.

    Að því er varðar aðra heimilismenn sem ekki eru í sóttkví t.d. hitt foreldrið þá þurfa þeir að mæta til vinnu nema vinnuveitandi samþykki annað.

    Alþingi samþykkti nýlega lög vegna greiðslu launa til einstaklinga í sóttkví. Starfsmenn eiga einnig rétt til launa ef barn þeirra undir undir 13 ára aldri eða undir 18 ára aldri ef þau þiggja þjónustu á grundvelli laga um fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þarf að fara í sóttkví. Atvinnurekandi á svo rétt á endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna þessara launa.

  • Eiga starfsmenn rétt á launum vegna fjarveru frá vinnu vegna skerts skólastarfs eða frístundaheimila?

    Sumir starfsmenn geta sinnt vinnu sinni heiman frá sér og eiga þeir þá rétt á launum þó þeir þurfi að vinna heima á meðan skóla- og frístundastarf er skert. Hins vegar eru ekki allir starfsmenn í þeirri stöðu. Þeir starfsmenn sem þurfa að vera frá vinnu vegna þessa eiga almennt ekki rétt á launum. BSRB hefur þó hvatt atvinnurekendur til þess að veita starfsfólki sveigjanleika þar sem um fordæmalausar ástæður er að ræða. Samfélagsleg ábyrgð okkar allra er mikil og mikilvægt að allir leggist á eitt til þess að virða fyrirmæli yfirvalda. BSRB hefur einnig bent Alþingi á vandamálið en ekki er ljóst hvort stjórnvöld munu bregðast við með einhverjum hætti.  

  • Eiga starfsmenn í heilbrigðisgeiranum og öðrum mikilvægum störfum forgang á dagvistun á tímum samkomubanns?

    Almannavarnir hafa biðlað til stjórnenda leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og dagforeldra að taka jákvætt í það að þeir aðilar sem sinna samfélagslega mikilvægri þjónustu svo sem í heilbrigðisgeiranum og viðbragðsgeiranum fái forgang fyrir börn sín hjá dagforeldrum, í leikskólum, í 1. og 2. bekk grunnskóla og á frístundaheimilum fyrir sama aldurshóp. Sótt er um forgang á island.is og þá ættu viðkomandi stofnanir að hafa sent út leiðbeiningar þar um til foreldra. 

  • Get ég krafist þess að vinna að heiman til að annast börnin mín vegna lokunar eða skerðingar á starfsemi leik- og grunnskóla og frístundaheimilis?

    Almennt séð ekki, en samtök launafólks hafa hvatt atvinnurekendur til að vera sveigjanlega vegna þessara tímabundnu aðstæðna. Hluti foreldra getur unnið að heiman og aðrir hafa sveigjanlegan vinnutíma. Mikilvægt er að atvinnurekendur tryggi öllum sama möguleika hvað þetta varðar. 

  • Það á að lækka starfshlutfall mitt. Hver er réttur minn?

    Atvinnurekanda ber að segja upp starfshlutfalli rétt eins og ef um uppsögn á ráðningarsamningi í heild  væri  að  ræða.  Hjá  flestum  fastráðnum  starfsmönnum  er uppsagnarfresturinn þrír  mánuðir en einn mánuður á fyrstu þremur mánuðum í starfi. Í kjarasamningi eða ráðningarsamningi getur verið kveðið á um lengri uppsagnarfrest. Með samkomulagi má minnka starfshlutfall áður en uppsagnarfresti lýkur. Alþingi samþykkti nýlega lög sem tryggja einstaklingum í skertu starfshlutfalli rétt til atvinnuleysisbóta. Starfshlutfall getur verið á bilinu 25% - 80% og fær starfsmaður þá greiddar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfi. Skilyrði er að starfshlutfall skerðist um minnst 20%. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur. Greiðslur atvinnuleysisbóta nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, 456.404 kr., í réttu hlutfall við hið skerta starfshlutfall. Laun og atvinnuleysisbætur geta samanlagt aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. eða 90% af meðaltali heildarlauna starfsmanns. Starfsmenn sem hafa undir 400.000 kr. á mánuði sæta ekki skerðingum. 

  • Hversu lengi á ég rétt á hlutabótum á móti lækkuðu starfshlutfalli?

    Lögin gilda frá 15. mars sl. og til 1. júní 2020. Þó hafa stjórnvöld sagt að mögulega þurfi að framlengja úrræðið.

  • Hvað þarf ég að bíða lengi áður en ég fæ hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti lækkuðu starfshlutfalli?

    Lögin gilda frá 15. mars sl. Umsóknareyðublað er ekki tilbúið, en allar umsóknir munu gilda afturvirkt frá 15. mars eða þeim degi þegar starfshlutfall var minnkað. Nánari upplýsingar er að finna á vef Vinnumálastofnunar, vinnumalastofnun.is. 

  • Verð ég í lækkuðu starfshlutfalli til frambúðar?

    Hægt er að minnka starfshlutfall tímabundið eða til frambúðar. Líklegast vilja flestir atvinnurekendur hækka starfshlutfall starfsmanna aftur þegar ástandið batnar. 

  • Er hægt að lækka starfshlutfall starfsfólks vegna þess að það er smitað af Covid 19 eða í sóttkví?

    Einstaklingar sem eru smitaðir af Covid 19 eiga rétt á veikindalaunum í forföllum vegna þess og einstaklingar í sóttkví eiga rétt á því að fá laun í sóttkví. Veikindi eða sóttkví kemur þó ekki í veg fyrir að starfshlutfall verði lækkað, ef það er nauðsynlegt vegna rekstrarlegra ástæðna.

  • Hvernig fer lækkun á starfshlutfalli fram?

    Atvinnurekandi getur sagt upp hluta starfshlutfalls með sama fyrirvara og uppsagnarfrestur. Atvinnurekandi og starfsmaður geta einnig gert samkomulag um lækkað starfshlutfall og vikið þá frá uppsagnarfresti en þá þurfa bæði starfsmaður og atvinnurekandi að vera sammála um það. Lækkun starfshlutfalls getur ýmist verið tímabundin, og ber þá að taka það fram, eða til frambúðar. 

  • Ég er frá vinnu vegna veikinda. Er hægt að lækka starfshlutfall þó ég sé veik/ur?

    Veikindi koma ekki í veg fyrir að starfshlutfall sé lækkað einhliða vegna rekstrarlegra ástæðna. 

  • Ég er í fæðingarorlofi, er hægt að lækka starfshlutfall mitt?

    Það er ekki hægt að lækka starfshlutfall starfsmanna sem eru í fæðingarorlofi fyrr en þeir eru mættir aftur til vinnu að loknu orlofi. 

  • Atvinnurekandi hefur lækkað starfshlutfall mitt en krefst óbreytts vinnuframlags af mér vegna þess að ég fæ atvinnuleysisbætur á móti, er það leyfilegt?

    Það er óheimilt. Atvinnurekandi má ekki krefjast meira vinnuframlags en sem nemur því starfshlutfalli sem eftir stendur. 

  • Get ég breytt fyrirhugaðri orlofstöku vegna Covid-19 – t.d. vegna takmarkaðra möguleika á ferðalögum erlendis?

    Atvinnurekandi ákveður orlof í samráði við starfsmann. Honum ber að verða við óskum starfsmanns að því marki sem það er hægt. Orlof skal ákveða minnst mánuði fyrir upphaf orlofstímabils og sá tímapunktur er ekki kominn. Ef það hentar starfseminni er ekkert því til fyrirstöðu að breyta orlofstöku næsta sumar vegna breyttra aðstæðna. Það þarf að gera í samráði við atvinnurekanda. Hafi starfsmaður fengið samþykkta orlofstöku á næstu vikum sem starsfmaður telur sig ekki geta nýtt í ljósi nýrra aðstæðna þarf að ræða breytingu þar á. 

  • Getur atvinnurekandi breytt ákvörðun um orlof sem hann hefur samþykkt hjá starfsmanni?

    Almennt séð getur atvinnurekandi ekki einhliða breytt orlofstöku starfsmanns. Það má hins vegar gera með samkomulagi. 

  • Getur atvinnurekandi bannað mér að ferðast í orlofinu mínu eða frítíma?

    Yfirvöld hafa biðlað til mikilvægra stétta að ferðast ekki á þessum óvissutímum. Þetta gæti t.d. átt við um starfsfólk í heilbrigðisþjónustu. Þar sem nú ríkir neyðarástand verður að telja að atvinnurekandi geti gert þessa kröfu til þess að forðast smithættu meðal starfsmanna. 

  • En ef ég ætla ferðast erlendis og þarf þá að fara í sóttkví þegar ég kem heim?

    Allir einstaklingar búsettir á Íslandi sem koma erlendis frá þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu. 

  • Ef starfsmenn eru fastir erlendis vegna ferðatakmarkana, eiga þeir rétt á launum?

    Ef starfsmenn eru staddir erlendis og komast ekki heim vegna ferðatakmarkana og geta ekki sinnt vinnu sinni að utan er um að ræða lögmæt forföll frá vinnu. Það er því ekki vanefnd af hálfu starfsmanna að mæta ekki til vinnu í þessu tilviki og þau forföll eiga því ekki að hafa áhrif á ráðningarsamband starfsmanna og atvinnurekanda. Hins vegar eiga starfsmenn ekki rétt á greiðslu í þessum tilvikum, nema með samkomulagi við yfirmann eða ef þeir geta sinnt vinnu sinni að utan.

    Ef um vinnuferð var að ræða eiga starfsmenn þó rétt á launum.

  • Eiga starfsmenn rétt á að vinna heima í samkomubanni?

    Þeir starfsmenn sem geta sinnt vinnu sinni heiman frá sér eiga rétt á að gera það á meðan samkomubanni stendur. Þetta á til dæmis við um skrifstofufólk. Aðrar stéttir sinna störfum sem ekki er hægt að vinna í fjarvinnu og þurfa þeir starfsmenn því að mæta til vinnu, eftir því sem fyrirmæli yfirmanns segja. 

  • Ef atvinnurekandi lokar vinnustað eða ákveður að starfsfólk eigi ekki að koma til vinnu, á starfsfólk þá rétt á launum?

    Ef atvinnurekandi hefur ákveðið að starfsfólk eigi ekki að koma til starfa vegna smithættu eða lokunar vinnustaðar vegna þess að þar hefur greinst smit á starfsfólk rétt á sömu launum og ef það væri við störf. Sá réttur er óháður því hvort atvinnurekandi getur falið þér tiltekin verkefni til að vinna heima eða ekki. Starfsmönnum ber engin skylda til að taka orlof við þessar aðstæður. Starfsmaður á hins vegar ekki rétt á launum ef hann ákveður sjálfur að vera heima án þess að ræða það við sinn yfirmann. 

  • Getur atvinnurekandi krafist þess að ég vinni að heiman ef vinnustaðnum hefur verið lokað?

    Ef starf þitt er þess eðlis að þú getur unnið heiman frá þér, t.d. ýmis skrifstofuvinna, getur yfirmaður gert þá kröfu. Hann verður þá einnig að tryggja að öll tæki séu til staðar, svo sem fartölvur, sími og nettenging. Ef starf þitt er þess eðlis að það verður aðeins unnið á vinnustaðnum getur atvinnurekandi ekki gert þá kröfu að þú vinni heiman frá þér. 

  • Á ég rétt á launum ef ég vinn að heiman?

    Já, þú átt rétt á launum rétt eins og venjulega. 

  • Hefur neyðarstig almannavarna áhrif á hvíldartímaákvæði kjarasamninga?

    Hvíldar- og vinnutímaákvæði kjarasamninga eru enn í fullum gildi þrátt fyrir að lýst hafi verið yfir neyðarstigi almannavarna. Undanþágum sem eru frá hvíldartímaákvæðum í kjarasamningi, t.d. undanþága frá því að vinna sé skipulögð umfram 13 klst. á sólarhring, getur þó verið beitt í meira mæli og er það heimilt vegna þess að almannaheill krefst þess. Starfsmenn skulu þó áfram fá frítökurétt með þeim hætti sem kjarasamningar kveða á um. 

  • Hvaða störf má fela fólki samkvæmt lögum um borgaralega skyldu?

    Þau verkefni sem verða að hafa forgang í neyðarástandi almannavarna. Þar má sem dæmi nefna verkefni sem snúa að þrifum og sóttvörnum og að halda mikilvægri almannaþjónustu gangandi. Það getur þurft að færa sérfræðinga í afgreiðslustörf eða flytja störf inn á heimili, annað hvort starfsmanns eða skjólstæðings. Ekki má fela starfsfólki störf sem hafa ekki tilgangi að gegna í almannavarnaástandi, svo sem störf við viðhald eða önnur störf sem hafa setið á hakanum. 

  • Hvernig á að launa fyrir breytingar á störfum samkvæmt lögum um borgaralega skyldu?

    Starfsmenn eiga aldrei að lækka í launum. Almennt eiga starfsmenn að halda sínum launum en það getur einnig gerst að starfsmaður sé færður í hærra launað starf eða að um yfirvinnu sé að ræða, og þá ættu laun að hækka í samræmi við það. 

  • Má færa starfsmann á milli starfsstöðva samkvæmt lögum um borgaralega skyldu?

    Já, það getur verið heimilt. Sem dæmi má nefna ef stór hluti starfsmanna á einum vinnustað er í sóttkví og starfsemin er þess eðlis að henni verður að halda gangandi. Þá getur verið heimilt að færa aðra starfsmenn þangað. Einnig getur þjónusta færst til dæmis af mennta- eða umönnunarstofnunum í heimaþjónustu eða á netið. 

  • Hvaða atvinnurekendur hafa heimild til að beita heimildum laga um borgaralega skyldu?

    Ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í eigu þeirra aðila. Þó verður að hafa í huga að starfsemin þarf að vera nauðsynleg í þágu almannavarna. 

  • Ef starfsmaður verður fyrir útlögðum kostnaði vegna breytinga samkvæmt lögum um borgaralega skyldu, til dæmis vegna ferðalaga á nýja vinnustöð, hver greiðir þann kostnað?

    Atvinnurekandi greiðir útlagðan kostnað í þeim tilvikum. Framvísa þarf reikningi eða akstursdagbók. Ef greiða á dagpeninga er það gert eftir almennum reglum. 

  • Get ég neitað breytingu á starfi mínu ef breytingin er að öðru leyti í samræmi við lög um borgaralega skyldu?

    Nei, lögin gera ekki ráð fyrir því að starfsmenn geti neitað breytingu en hins vegar þarf að taka tillit til þess ef starfsmaður eða annar aðili sem starfsmaður ber ábyrgð á, eins og til dæmis barn starfsmanns, glímir við undirliggjandi sjúkdóm og telst þar af leiðandi vera í áhættuhópi. Starfsmaður í þeirri stöðu gæti farið fram á að fá undanþágu frá breytingu, sé hið nýja starf til dæmis þess eðlis að hann er í meiri smithættu en í fyrra starfi.

  • Hvað þarf að hafa í huga varðandi persónuvernd starfsfólks?

    Persónuvernd, í samráði við sóttvarnalækni, hefur tekið saman helstu atriði sem máli skipta við vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við Covid-19 á vinnustöðum. Þær má finna hér.

  • Hvar finn ég almennar upplýsingar um COVID-19?

    Almennar upplýsingar má finna á vefsíðunni covid.is.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?