Ályktun stjórnar BSRB

Stjórn BSRB samþykkti á fundi sínum sem nú stendur yfir á Egilsstöðum ályktun varðandi kynbundinn launamun. Ný kjarakönnun bandalagsins hefur sýnt fram á kynbundinn launamun innan BSRB upp á 11,4%.

Í ályktuninni er ríkisstjórnin hvött til að halda áfram jafnlaunaátaki sem fyrri stjórn kynnti snemma á árinu auk þess sem stofnanir ríkis og sveitarfélaga eru hvattar til að rýna launabókhald með það að markmiði að útrýma launamuninum. Í ályktuninni segir jafnframt:

„Opinberir launagreiðendur eiga að vera öðrum fyrirmynd þar sem mismunun á grundvelli kynferðis á ekki að þekkjast. Kynbundnum launamun verður að eyða og stjórnvöld jafnt sem aðrir atvinnurekendur á vinnumarkaði verða að axla sína ábyrgð og taka á þessum málum af festu.“

Ályktun stjórnar BSRB má nálgast í heild sinni hér að neðan.

Stjórn BSRB er skipuð öllum formönnum aðildarfélaga bandalagsins. Formennirnir verða á Egilsstöðum í dag og á morgun til fundarhalda. Einnig verður fundað með bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs auk þess sem nokkrir af þeim vinnustöðum sem félagsmenn bandalagsins starfa á verða heimsóttir.

 

Ályktun stjórnar BSRB um kynbundinn launamun                                                               

Stjórn BSRB lýsir yfir vonbrigðum sínum með niðurstöður nýrrar kjarakönnunar bandalagsins sem sýnir fram á 11,4% óútskýrðan kynbundinn launamun innan BSRB.

Stjórn BSRB fer fram á að ríkisstjórnin haldi áfram því jafnlaunaátaki sem fyrri stjórn kynnti í upphafi árs og leggi aukinn kraft og fjármuni í að vinna bug á því meini sem kynbundinn launamunur er á íslenskum vinnumarkaði.

Ríki og sveitarfélög eiga að vera leiðandi aðilar í baráttunni gegn því misrétti sem felst í launamun kynjanna.

Stjórn BSRB hvetur stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að fá óháða aðila til að rýna launabókhald sitt ásamt  viðsemjendum með það að markmiði að eyða kynbundnum launamun hvar sem hann kann að finnast.

Opinberir launagreiðendur eiga að vera öðrum fyrirmynd þar sem mismunun á grundvelli kynferðis á ekki að þekkjast. Kynbundnum launamun verður að eyða og stjórnvöld jafnt sem aðrir atvinnurekendur á vinnumarkaði verða að axla sína ábyrgð og taka á þessum málum af festu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?