Ræða formanns 1. maí

Kæru félagar, til hamingju með daginn!

Sterk hreyfing - sterkt samfélag – er slagorð dagsins í dag.

Eitt meginverkefni stéttarfélaga í áranna rás hefur falist í því að vekja vinnandi fólk til meðvitundar um vald sitt til að knýja fram breytingar á samfélaginu. Samfélag á forsendum fjöldans en ekki þeirra fáu. Samfélag sem einkennist af mennsku - þar sem öll hafa sömu tækifæri til að búa við frið, jöfnuð og réttlæti.

Á baráttudegi verkalýðsins ár hvert minnumst við því stóru sigrana, bæði þegar kemur að samfélagslegum málum en einnig réttindum launafólks. Við nefnum gjarnan allt frá byggingu Landspítala, orlofsrétt, veikindarétt, atvinnuleysistryggingar, lífeyrisréttindi, fæðingarorlof eða stofnun Bjargs – íbúðafélags ASÍ og BSRB.

Allir þessar áfangasigrar minna okkur á að samstaðan getur fært fjöll og gert það mögulegt sem áður var talið ómögulegt.

----

Ísland er ríkt land sem almennt státar sig af öflugri velferð og hefur gjarnan verið fremst meðal jafningja í alþjóðlegum samanburði. En ójöfnuður í allri sinni birtingarmynd er að aukast, almannaþjónustan og grunnstoðirnar okkar sem við höfum verið svo stolt af eru fjársveltar og við horfum fram á bakslag í jafnréttisbaráttunni. Áskoranirnar eru því miklar.

Greina má mörg stef í samfélagslegri umræðu sem eru til þess fallin að draga athygli okkar frá kjarna málsins. Enn er haldið að okkur þeim áróðri að hver sé sinnar gæfu smiður og það sé einstaklingsins að tryggja eigin lífsgæði. Sömu áróðursmeistarar hunsa þá staðreynd að án sterks sameiginlegs velferðarkerfis hefur fólk ekki jöfn tækifæri og möguleika í lífinu.

Einnig er látið að því liggja að ekki sé hægt að auka velferð fólks því það kosti of mikið - án þess að það sé rætt hvað það myndi kosta að gera ekki neitt. Og ábendingum verkalýðshreyfingarinnar um að afla tekna með því að skattleggja breiðu bökin er iðulega fálega tekið.

Þá grípa stjórnvöld gjarnan á það ráð að ýta undir mýtuna um að það sé svo hættulegt að skulda. Í engu er minnst á að í bæði sögulegu og alþjóðlegu tilliti er skuldastaða ríkisins hér á landi góð.

Þetta bragð er notað til að rökstyðja að ekki sé hægt að setja aukið fjármagn í heilbrigðisþjónustu, velferðarþjónustu, menntamál, húsnæðismál eða aðrar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og jöfnuði. Verkefni sem ættu að vera í forgangi og eiga það almennt sameiginlegt að vera af félagslegum toga. Þessi ríka áhersla á niðurgreiðslu skulda endurspeglar skakka forgangsröðun ráðandi afla.

Baráttan í öllum þessum málaflokkum er ein og sama baráttan og það þarf að tengja saman punktana þar á milli. En lausnirnar verða að vera fyrir öll - ekki bara sum.

 

Kæru félagar,

Háir vextir og verðbólga hafa verið okkur ofarlega í huga enda eru áhrifin á heimilisbókhaldið mikil – en mest á þeim heimilum sem minnst hafa aflögu. Þær jákvæðu fréttir bárust nýlega að verðbólgan sé loks að lækka. En húsnæðisliður verðbólgunnar er þó að hækka á meðan dregur úr verðbólgu og Seðlabankinn er ekki farinn að treysta sér til að lækka vexti.

Staðan á húsnæðismarkaði hefur verið eitt stærsta áhyggjuefni okkar til lengri tíma. Möguleikinn til að koma þaki yfir höfuðið, leit að hentugu húsnæði fyrir fjölskylduna, íþyngjandi greiðslubyrði og óöryggi á húsnæðismarkaði eru þar helstu stef.

Hér hefur ekki verið byggt nægilega mikið. Skammlíf átaksverkefni hafa ekki skilað tilskildum árangri og nú er meginhindrunin fyrir uppbyggingu háir vextir. Markaðurinn hefur ekki og mun ekki leysa vandann einn og sér og allflest virðast orðin sammála um það. Eftir mikla vinnu og þrýsting af hálfu verkalýðshreyfingarinnar réðust ríki og sveitarfélög því loks í heljarinnar stefnumótun og undirrituðu að lokum samkomulag um stóraukið framboð íbúða á árunum 2023 – 2032. Í kjölfarið átti að gera samkomulag við hvert einasta sveitarfélag til að tryggja að byggt yrði nóg og í samræmi við þarfir mismunandi hópa. En heilum tveimur árum síðar hafa eingöngu þrjú sveitarfélög af sextíu og fjórum undirritað slíkt samkomulag! Það eru Reykjavík, Vík í Mýrdal og Húnaþing vestra.

Það er engin von um að framboð aukist nægilega ef það ætla eingöngu þrjú af 64 sveitarfélögum að taka þátt í þessu brýna verkefni. Því það getur enginn annar en ríki og sveitarfélög stigið inn og tryggt að byggt sé nægilega mikið – það er mikilvægasta verkefnið sem þau standa frammi fyrir! Ef þau rísa ekki undir ábyrgð munum við horfa upp á sama vítahring skorts á húsnæði, verðbólgu og hárra vaxta endurtaka sig um ókomna tíð. Allt tal um stöðugleika er hjóm eitt ef stjórnvöld bretta ekki upp ermar. Og það strax.

---

Kæru félagar,

Borið hefur á mikilli umræðu um innflytjendur sem hefur ýtt undir sundrungu og andúð sem gengur þvert á grunngildi okkar samfélags um jöfnuð og samstöðu. Öllum hópum fólks af erlendum uppruna hefur verið grautað saman og kynt undir skoðanir um að þau séu byrði á samfélaginu þegar raunin er sú að hér tökum við á móti frekar fámennum hópi flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd sem leitar til eins friðsælasta og öruggasta lands heims vegna þess að þau eru að flýja stríð, þjóðarmorð, ofsóknir og hvers kyns neyð - og koma aðallega frá Úkraínu, Venesúela og Palestínu.

En langsamlega stærsti hópurinn er fólk sem flytur hingað til að lifa hér og starfa. Þau koma gjarnan frá evrópska efnahagssvæðinu og það sem einkennir hópinn er að þetta eru vel menntaðir, ungir og heilsuhraustir einstaklingar - og börnin þeirra. Atvinnuþátttaka þeirra er mikil og raunar er atvinnuþátttaka innflytjendakvenna er hærri en kvenna sem eru fæddar hér á landi. Og meira en helmingur fólks sem er af erlendum uppruna er búinn að taka ákvörðun um að setjast hér að til frambúðar.

Íslenskt samfélag fer á mis við kunnáttu þeirra og hæfileika þar sem þau fá ekki störf í samræmi við menntun. Rannsóknir sýna að innflytjendur vilja gjarnan læra íslensku en segja jafnframt tímaskort meginástæðu þess að ekki hafi af því orðið.

Ég held við getum öll sett okkur í þau spor að fólk í fullu starfi eða jafnvel tveimur störfum með fjölskyldu hafi ekki mikla umframorku til að læra nýtt og flókið tungumál á þeim litla tíma sem eftir stendur.

Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir eru vandamál samfélagsins en ekki einstaklinganna. Við verðum að grípa til aðgerða til að snúa af braut þeirrar þróunar að þetta séu þeir hópar samfélagsins sem eru líklegastir til að búa við slæma fjárhagslega stöðu, þunga húsnæðisbyrði og minna húsnæðisöryggi þar sem þau þurfa flytja oftar eða jafnvel í húsnæði sem ætlað er til atvinnurekstrar.

Við verðum að hætta að tala um þau eins og um byrði - þegar raunveruleikinn er sá að þau leggja sitt til samfélagsins og gott betur og það er hlutverk samfélagsins að mæta þeirra þörfum og sjá til þess að þau njóti sín til fulls, eins og allir aðrir borgarar landsins.

--

Kæru gestir,

Ef við horfum aftur til síðastliðins árs sjáum við mörg merki um kraft samstöðunnar sem breytingarafl sem veitir okkur innblástur fyrir komandi ár.

Með umfangsmiklum verkföllum bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB, þar á meðal hér á Selfossi og á Suðurlandi, fyrir ári síðan náðust mikilvægar breytingar á kjörum í gegn. Það tókst ekki síst fyrir ómetanlegan stuðning samstarfsfólks þeirra í öðrum stéttarfélögum og samfélagsins alls.

Með sögulegri samstöðu og metþátttöku kvenna og kvára í Kvennaverkfalli þann 24. október um allt land drógum við í sameiningu athyglina að því að Ísland er hvergi nærri jafnréttisparadís og þörf sé á aðgerðum til að öll búi við jafnrétti og öryggi.

Þá nýttum við einnig sameiginlega krafta okkar til knýja fram mikilvægar aðgerðir stjórnvalda. Varða – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins í eigu ASÍ og BSRB, hefur um árabil varpað skýru ljósi á stöðu launafólks og öryrkja. Við vitum að þeir hópar sem búa við þrengstu stöðuna eða þyngstu byrðina er fólk á leigumarkaði, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar og þess vegna hefur það verið meginmarkmiðið að bæta stöðu þeirra.

Þessi þekking undirbyggði kröfur okkar gagnvart stjórnvöldum vegna kjarasamningsviðræðna á þessu ári – og aðgerðapakkinn sem var lagður fram af stjórnvöldum er veigamikið skref í rétta átt til að bæta stöðu þessara hópa.

Enn stendur þó út af skuldbinding sumra sveitarfélaga að standa við fríar skólamáltíðir fyrir börn. Og nú standa yfir kjaraviðræður á opinberum markaði – en þeir kjarasamningar verða ekki undirritaðar nema sveitarfélög leggi sitt af mörkum hvað þetta varðar. Fjöldi foreldra á Íslandi hefur ekki efni á að veita börnum sínum næringarríkar máltíðir heima fyrir – og geta ekki staðið undir kostnaði vegna skólamáltíða. Þetta er því feikna mikilvægt skref til að jafna stöðu og tryggja velferð skólabarna.

---

Kæru félagar,

Verkefni okkar framundan er að skora stöðugt á hólm viðteknar venjur og norm sem ganga gegn grunngildum okkar um samtryggingu og samhjálp. Verkalýðshreyfingin hefur lykilhlutverki að gegna þegar kemur að því að undirbúa viðbrögð við áskorunum tengdum verðbólgu, heilsu, húsnæði, hamfarahlýnun, tæknibreytingum og auknum ójöfnuði og misrétti.

Við ætlum ekki að hlusta á bábilju um að meðaltöl mælinga sýni okkur að ekkert þurfi að aðhafast. Það ætti að vera öllum ljóst að margir lifa ansi langt frá hinu svokallaða meðaltali.

Við ætlum ekki heldur að samþykkja að eingöngu sé einblínt á hagvöxt eða efnhagslegar framfarir og úreltar aðferðir við að mæla þær. Við ætlum að undirbyggja aðgerðir með greiningum sem einnig taka tillit til alls þess mikilvægasta í lífi fólks og náttúrunnar.

Við munum ekki sætta okkur við samfélag sem lækkar skatta á þá ríkustu á sama tíma og gerðar eru aðhalds- og niðurskurðarkröfur til mikilvægra stofnana í heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfinu.

Við verðum að tryggja sterkt velferðarkerfi sem greiðir laun í samræmi við þau verðmæti sem störfin skapa, tryggir öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi með því að vinna markvisst að því að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja óheilbrigt álag, kerfi sem axlar ábyrgð á umönnun aldraðra, barna og veikra og jafnar möguleika fólks í gegnum stuðningskerfi stjórnvalda. Stórbætta heilbrigðisþjónustu, sterka innviði og menntakerfi. Fjárfesting í almannaþjónustunni sem grípur okkur öll í mótvindi lífsins og tryggir öllum fjárhagslegt sjálfstæði er besta fjárfestingin fyrir friði og öryggi.

Við erum sterkust saman og saman munum við skapa sterkt samfélag!

Kæru félagar – til hamingju með daginn!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?