Ályktun formannaráðs BSRB um frumvarp til laga um LSR

Formannaráð BSRB krefst þess að Alþingi geri nauðsynlegar breytingar á frumvarpi til laga um LSR til samræmis við undirritað samkomulag um breytta skipan lífeyrismála sem undirritað var 19. september síðastliðinn. Lögð er áhersla á að málið sé afgreitt í sátt við heildarsamtök opinberra starfsmanna.

BSRB hefur margítrekað bent á að fyrirliggjandi frumvarp felur í sér að bakábyrgðin sé afnumin af réttindum sjóðfélaga undir 60 ára aldri án bóta. Það er þvert á markmið samkomulagsins um að réttindi núverandi sjóðfélaga í A-deild LSR og Brúar séu jafn verðmæt fyrir og eftir kerfisbreytingar.

Traust milli aðila er lykilforsenda þess að friður ríki á vinnumarkaði. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er ljóst að verkefninu er ólokið og mun ótvírætt hafa neikvæð áhrif á samskipti þeirra sem að samkomulaginu stóðu.

Reykjavík, 20. desember 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?