Umsögn um frumvarp um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, 683. mál.

Reykjavík, 24. mars 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

BSRB fagnar því að verið sé að grípa til fjölmargra aðgerða til að létta fyrirtækjum og heimilum róðurinn vegna skyndilegs efnahagsáfalls af völdum þess heimsfaraldurs sem nú geisar vegna kórónuveirunnar (SARS-CoV-2) sem veldur COVID-19-sjúkdómnum. Mikilvægt er að styðja við þau fyrirtæki sem voru með gott rekstrarhæfi áður en efnahagsáhrifa faraldursins fór að gæta enda tryggir það minna atvinnuleysi meðal launafólks og auðveldar efnahagslífinu að rétta úr kútnum þegar váin er liðin hjá. BSRB telur hins vegar nauðsynlegt að ganga lengra í stuðningi við heimilin en gert er í frumvarpinu og nánar er fjallað um það í þessari umsögn.

BSRB treystir því að von sé á fleiri aðgerðum til að tryggja afkomu heimila landsins. Staðan í samfélaginu breytist dag frá degi og ný álitaefni koma sífellt upp og munu halda áfram að koma upp. Til þess að tryggja öryggi samfélagsins, og sérstaklega viðkvæmra hópa, er mikilvægt að afkoma launafólks sé tryggð, svo fólk veigri sér ekki við að fylgja tilmælum yfirvalda.

BSRB tekur ekki afstöðu til 1. og 2. greinar, a. liðar 3. greinar, 4. greinar, c. liðar 5. greinar, 6., 9., 10., 12. og 13. greinar frumvarpsins.

Sérstakur barnabótaauki og stuðningur við barnafjölskyldur

Í b. lið 3. greinar er lagður til sérstakur barnabótaauki sem greiðist út einu sinni. Skal hann nema 40.000 kr. vegna hvers barns undir 18 ára aldri ef tekjuhærri aðilinn í hjónabandi eða sambúð er með tekjur undir 11.125.045 kr. á ári og einstætt foreldri er með tekjur undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020. Ef tekjur fara yfir þær viðmiðunarfjárhæðir greiðast 20.000 kr. með hverju barni að 18 ára aldri.

BSRB styður almennan stuðning til barnafjölskyldna og hefur ítrekað óskað eftir endurskoðun barnabótakerfisins í þá veru. Á þessari stundu, þegar fjöldi heimila verður fyrir miklu falli í ráðstöfunartekjum sínum vegna atvinnumissis að hluta eða öllu leyti er aðgerðin hins vegar ómarkviss. Ástæðan er sú að gert er ráð fyrir að einstaklingar eða pör með tekjur frá 0 og upp í 926 þús kr. mánaðarlega fái sama barnabótaaukann, 40 þús kr. með hverju barni. Foreldri eða foreldrar með tekjur yfir 927 þús. kr. mánaðarlega fái 20 þús. kr. barnabótaauka. BSRB telur eðlilegt að nýta þá fjármuni sem ætlaðir eru í úrræðið þannig að fólk á atvinnuleysisskrá sem er með börn á framfæri og tekjulægri fjölskyldur fái hlutfallslega mest. Eftir því sem næst verður komist er eingöngu hægt að nálgast upplýsingar um tekjur fólks frá síðasta ári og miðast því eftirfarandi tillögur BSRB við álagningarárið 2020.

Í ljósi aðstæðna leggur BSRB til að ákveðin verði tiltekin fjárhæð í fyrirhugaðan barnabótaauka fyrir hvert barn einstaklings eða pars með tekjur á bilinu 0-400 þús. kr. mánaðarlega (4.800.000kr. á ári), lægri barnabótaauki fyrir einstakling eða par m.v. hvert barn á bilinu 401-650 þús kr. mánaðarlega (4.812.000 kr. -7.800.000 kr. á ári) og enn lægri fyrir tekjur á bilinu 651-900 þús kr. mánaðarlega (7.812.000 – 10.800.000 á ári). Fjárhæðirnar gætu verið t.d. 80 þúsund krónur á hvert barn m.v. lægsta tekjustig, 60 þús kr. miðað við miðstig og 40 þús kr. fyrir efsta tekjustigið.

Úrræði fyrir foreldra sem geta ekki sinnt störfum sínum vegna umönnunar barna

Önnur veruleg áskorun sem fjölmargar barnafjölskyldur standa frammi fyrir nú er tekjuskerðing eða óvissa með tekjur sínar vegna lokana eða verulegra skerðinga á starfsemi leik- og grunnskóla ásamt frístundaheimila vegna samkomubanns. Markmið með aðgerðum stjórnvalda í heild er að tryggja afkomu fólks vegna tímabundinnar óvissu og efnahagsþrenginga en taka ekki til þessa hóps.

Fjölmargir foreldrar búa ekki við þann sveigjanleika að geta unnið að heiman enda eingöngu hægt að sinna störfunum á vinnustaðnum. Unnið er að því að tryggja forgang starfsfólks í framlínustörfum að grunn- og leikskólaþjónustu, frístundastarfi og þjónustu dagforeldra vegna Covid-19. BSRB tekur undir mikilvægi þess en að sama skapi þarf að tryggja stuðning við foreldra sem geta ekki sinnt störfum sínum og þurfa að vera að heima til að annast börn sín.

BSRB leggur til að komið verði á fót nýju úrræði sem tryggir foreldrum í þessum aðstæðum laun vegna forfalla frá störfum. Foreldrar eigi þá rétt á greiðslu launa frá atvinnurekanda vegna þess að börn þeirra geti ekki sótt leikskóla, grunnskóla eða frístundastarf að hluta til eða öllu leyti. Atvinnurekendur geti á móti sótt um endurgreiðslu til Vinnumálastofnunar með sama hætti og vegna launagreiðslna til starfsfólks í sóttkví og aldursviðmið barna verði þau sömu, þ.e. börn yngri en 13 ára eða yngri en 18 ára sem þarfnast aukins stuðnings. Úrræðið verði tímabundið til 30. apríl 2020 og endurskoðað samhliða lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Slíkur stuðningur væri veittur að þeim skilyrðum uppfylltum að viðkomandi vinnustaðir hefði leitað allra leiða til að mæta starfsfólki sínu í þessum kringumstæðum, með þeim sveigjanleika sem bjóða má upp á með hliðsjón af þeirri starfsemi sem fer fram á vinnustaðnum.

Fyrirmyndina má að hluta rekja til Noregs. Þar eru greiðslur vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna greiddar af stjórnvöldum (NAV) og hefur verið um lengra skeið. Vegna kórónufaraldursins voru greiðslurnar auknar og útvíkkaðar þannig að foreldrar geti nýtt réttinn vegna lokunar í leik- og grunnskólum. Fjöldi daga var áður 10 dagar á hvert foreldri en er nú 20 fyrir 1 til 2 börn og 30 dagar ef börnin eru þrjú eða fleiri. Ef um einstæða foreldra er að ræða eiga þau rétt á 40 dögum fyrir 1-2 börn og 60 dögum ef börnin eru þrjú eða fleiri. Í Svíþjóð er verið að undirbúa svipað úrræði innan VAB (Vård av barn) þannig að réttur foreldra til greiðslna vegna umönnunar barna vegna lokunar leik- og grunnskóla verði tryggður með því að fella tímabundið burt kröfuna um að barn sé veikt.

Sveitarfélög rukki ekki fyrir þjónustu sem ekki er veitt

Benda verður á að útgjöld heimila taka stakkaskiptum í þessum aðstæðum. Sem dæmi má nefna að matarkostnaður hækkar verulega þegar allir heimilismeðlimir eru að nær öllu leyti heima fyrir. Þess vegna leggur BSRB einnig áherslu á að foreldrum verði endurgreidd gjöld vegna skólamáltíða, frístundaheimilis, leikskólagjalds o.fl. eða þau hlutfallslega lækkuð í samræmi við skerðingu á þjónustu og ef foreldrar kjósa að nýta hana ekki vegna ástandsins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa tilkynnt um að þau leggi til við aðildarsveitarfélögin slíka niðurfelling á gjöldum og hvetur BSRB önnur sveitarfélög til að gera hið sama.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts

Í a. lið 5. greinar frumvarpsins er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við byggingu, endurbætur, viðhald og hönnun eða eftirlit á íbúðar- og frístundahúsnæði verði hækkuð úr 60% í 100% tímabundið. Þessu úrræði var beitt í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

BSRB varar við því að verið sé að veita undanþágur frá virðisaukaskatti með þessum hætti. Í greinagerð með frumvarpinu er bent á að ákvæðin um framkvæmdir og þjónustu á heimilum eigi sér fyrirmynd í sænskum lögum. BSRB bendir á að stærstu samtök launafólks í Svíþjóð, LO, hafa um árabil gagnrýnt úrræði af þessu tagi sem voru fyrst innleidd þar í landi 2007. Rök þeirra gegn henni eru að skattlagning eigi að vera almenn með svo fáum undanþágum og unnt er, að niðurgreiðslan gagnist fyrst og fremst þeim tekjuhæstu, aðgerðirnar hafa ekki dregið úr svartri atvinnustarfsemi sem neinu nemi, ekki verði séð að skapast hafi fleiri störf og að ríkið verði af umtalsverðum tekjum vegna undanþáganna. Í kostnaðarmati með frumvarpinu er áætlaður kostnaður úrræðanna um 8 milljarðar króna á tveimur árum og telur BSRB að nær væri að nýta þá fjármuni til að auka umfang fjárfestingaráætlunar stjórnvalda sem lögð verður fyrir með þingsályktunartillögu á næstu dögum eða vikum. Þá bendir BSRB á að hvatt hefur verið til þess að fólk haldi sig heimavið og því er rétt að bera tillöguna undir almannavarnir ef til stendur að samþykkja hana.

Í 3. málslið a. liðar 5. greinar er lögð til tímabundin heimild til að endurgreiða eigendum og leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem greiddur hefur verið vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis. Í greingerð með frumvarpinu segir um þetta ákvæði: „Markmið endurgreiðslunnar er að koma enn frekar til móts við heimilin í landinu og verktaka vegna kórónuveirunnar með sértækum aðgerðum í þágu þeirra. Samkvæmt embætti landlæknis liggur jafnframt fyrir að almennt hreinlæti er ein mikilvægasta vörnin gegn smiti af kórónuveirunni. Stuðningur í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts til einstaklinga og húsfélaga vegna kaupa á þjónustu í formi heimilisaðstoðar, ræstinga o.fl. getur þannig skipt máli í baráttunni við faraldurinn. Þá hefur ívilnunin einnig þau hliðaráhrif að draga svarta atvinnustarfsemi vegna veitingar þeirrar þjónustu sem um ræðir upp á yfirborðið og styðja enn frekar við atvinnuþátttöku, sérstaklega hjá tekjulægri hópum.“ Í nánari skýringum um ákvæðið kemur fram að slík þjónusta sem veitt er vegna öldrunar, veikinda eða fötlunar er undanþegin skyldu til greiðslu á virðisaukaskatti.

BSRB styður þessa tillögu ekki enda er rökstuðningi ábótavant. Ekki eru færð rök fyrir því að skortur á fjárhagslegum hvata leiði til þess að hreinlæti á heimilum og í húsfélögum sé ábótavant. Þar að auki ríkir samkomubann um þessar mundir og hvatt er til þess að fólk haldi sig sem mest heima við. Þrif á heimilum annarra samræmast því vart tilmælum heilbrigðisyfirvalda. Þá eru rökin um að ákvæðið „dragi svarta atvinnustarfsemi vegna veitingar þeirrar þjónustu sem um ræðir upp á yfirborðið“ ákaflega veik enda er virðisaukaskattur aðeins hluti af þeim sköttum og gjöldum sem fylgja löglegri atvinnustarfsemi. Þá mótmælir bandalagið því að þessi leið sé farin til að „styðja enn frekar við atvinnuþátttöku, sérstaklega hjá tekjulægri hópum“. Sömu athugasemdir eiga við um þessa tillögu og tillöguna um framkvæmdir á heimilum hér að ofan.

Í b. lið 5. greinar er lagt til það nýmæli að mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum og slysavarnadeildum verði veittur 100% afsláttur af þeim virðisaukaskatti sem þau hafa greitt af vinnu manna vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra, svo og virðisaukaskatt af þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu slíkra mannvirkja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. BSRB telur fjárfestingaáætlun stjórnvalda betur til þess fallna að veita launafólki í mannvirkjageiranum atvinnu og frekari undanþágur frá virðisaukaskattsgreiðslum sem er einn af mikilvægustu tekjustofnum ríkisins ekki forsvaranlega.

Úttekt séreignarsparnaðar

Í 7. grein frumvarpsins er lagt til að heimiluð verði úttekt séreignarsparnaðar út árið 2020, að hámarki 12 milljónir króna sem greiðist í jöfnum greiðslum á 15 mánaða tímabili. Ef fjárhæðin er lægri styttist tímabilið sem greiðslur dreifast á. BSRB vekur athygli á því að úrræðið veikir enn frekar þriðju stoð lífeyriskerfisins. Ef það er vilji löggjafans að heimila reglulega úttekt á séreignasparnaði áður en 60 ára aldri er náð væri réttara að endurskoða þennan þátt lífeyriskerfisins.

Séreignasparnaður nýtur þess fram yfir aðra tegund sparnaðar að skattgreiðslum er frestað vegna þeirra tekna sem renna til sparnaðarins sem þýðir að höfuðstóll sparnaðarins verður hærri sem nemur skatthlutfallinu. Þar að auki skerðir hann ekki aðrar greiðslur frá hinu opinbera.

BSRB vill ítreka þær ábendingar sínar að með því að heimila fólki að nýta séreignasparnað til að kaupa fyrstu íbúð, niðurgreiðslu húsnæðislána eða jafnvel úttekt þegar efnahagsþrengingar eru í vændum, sé verið að beina stuðningi stjórnvalda frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri. Tekjulægri einstaklingar nýta sér síður séreignarsparnað enda er geta þeirra til að spara að jafnaði minni. Það verður að gæta jafnræðis í stuðningi stjórnvalda og það er samfélagslegur ávinningur af því að styðja markvisst við tekjulægri einstaklinga.

Frestun á greiðslum fyrirtækja á fasteignaskatti

Í 11. grein frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög geti frestað gjalddögum fasteignagjalda fyrirtækja í rekstrarerfiðleikum án þess að vextir og innheimtugjöld falli á kröfuna. BSRB leggur til rýmkum á heimild 4. mgr. 5 gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þar er sveitarstjórn heimilað að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. BSRB telur að rýmka eigi heimildina tímabundið svo að hún nái einnig til fólks á atvinnuleysisskrá.

Nauðsynlegt að hækka atvinnuleysisbætur

Þann 1. janúar 2020 hækkuðu grunnatvinnuleysisbætur um 9.790 kr. BSRB ítrekar ábendingu sína úr umsögn um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 og leggur til að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar um 17.000 kr. frá og með 1. janúar 2020 (í stað 9.790 kr.) og 24.000 kr. frá og með 1. apríl 2020. Nauðsynlegt er að fjárhæðir atvinnuleysisbóta fylgi launahækkunum kjarasamninga. Atvinnuleysi hefur aukist mikið á síðustu misserum og var 5% áður en áhrifa heimsfaraldursins fór að gæta í íslensku efnahagslífi og á eftir að aukast verulega. Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg til að tryggja afkomu þeirra sem missa atvinnuna.

Veiking á tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga

Það alvarlega efnahagsástand sem nú ríkir mun sjálfskrafa leiða til lægri tekna ríkis og sveitarfélaga. Með frumvarpinu er verið að leggja til enn lægri tekjur með veikingu tekjustofna tímabundið sem er eðlilegt og nauðsynlegt. Hins vegar er mikilvægt að sú veiking verði tímabundin en dragi ekki úr getu hins opinbera til að fjármagna nauðsynlega opinbera þjónustu, tilfærslur og fjárfestingar. Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur leitt enn betur í ljós mikilvægi þess að fjármagna með fullnægjandi hætti t.d. heilbrigðisþjónustu, menntakerfið, félagsþjónustu, löggæslu, slökkvilið, sjúkraflutninga, sorphirðu, almenningssamgöngur og opinbera stjórnsýslu. Þá hafa válynd veður á yfirstandandi vetri leitt í ljós hversu alvarlegar afleiðingar það hefur að vanrækja nauðsynlega innviðauppbyggingu. Tímabundinn hallarekstur ríkissjóðs er óumflýjanlegur en þann halla má ekki greiða niður á kostnað ofangreindra þátta heldur verða tekjustofnar ríkisins til lengri tíma að fjármagna hann.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?