Umsögn um frumvarp um námslán og námsstyrki

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, þingskjal 1373 – 794. mál

Reykjavík, 5. september 2016


BSRB telur nauðsynlegt að veita umsögn um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, þingskjal 1373 – 794. mál, þrátt fyrir að hafa ekki fengið frumvarpið sent til umsagnar. Vegna framangreinds verða þó einungis sett fram nokkrar helstu athugasemdir bandalagsins við frumvarpið en ljóst er að fjölmörg önnur atriði er nauðsynlegt að skoða betur og gera breytingar á.

Markmið breytinga á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna á m.a. að vera að tryggja jafnan aðgang að námi með fullri framfærslu, skapa aukið réttlæti og gegnsæi við úthlutun styrkja og að skapa fyrirsjáanleika fyrir námsmenn og lánasjóðinn.

Í menntastefnu BSRB sem samþykkt var á 44. þingi bandalagsins er jafnrétti til náms grundvallaratriði og lögð er áhersla á að efla Lánasjóð íslenskra námsmanna. Að mati bandalagsins er jafnframt mikilvægt að tryggja námsmönnum viðunandi framfærslu meðan á námi stendur. Tryggja þarf jafnrétti til náms óháð aldri eða öðrum aðstæðum og bent er á að menntun leiði til jafnari tækifæra, framfara og hærra atvinnustigs landsmanna.

BSRB lýsir yfir áhyggjum vegna fyrirliggjandi frumvarps. Verði frumvarpið að lögum er ljóst að dregið verður verulega úr félagslegu jöfnunarhlutverki Lánasjóðsins. Lögð er áhersla á það í frumvarpinu að við endurskoðun námslánakerfisins eigi að hvetja til bættrar námsframvindu nemenda, m.a. með námsstyrkjum sem háðir eru kröfum um námsframvindu. BSRB gerir ekki athugasemdir við það markmið í sjálfu sér að hvetja til góðrar námsframvindu en telur þó að slíkt markmið megi aldrei leiða til þess að dregið sé úr félagslegu hlutverki Lánasjóðsins sem á að vera í forgrunni. Þannig geti jafnframt markmið um aukið gegnsæi og fyrirsjáanleika ekki komið í stað hins mikilvæga jöfnunarhlutverks sem almenn sátt hefur ríkt um að skuli vera lykilatriði við námslánakerfið.

BSRB gerir alvarlegar athugsemdir við þá grundvallarbreytingu sem gerðar eru á fyrirkomulagi endurgreiðslu samkvæmt frumvarpinu. BSRB bendir á að þar er um grundvallarbreytingu að ræða á fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði í fleiri tugi ára og góð sátt hefur ríkt um. Hærri vextir og afnám tekjutengingar við endurgreiðslu mun hafa veruleg áhrif á hið félagslega jöfnunarhlutverk sjóðsins. BSRB telur nauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu til að tryggja að greiðslubyrði námslána verði byggð á félagslegum forsendum. Þá telur bandalagið að sú leið sem farin er í frumvarpinu með fyrirkomulagi námsstyrkja leiði til þess að viðkvæmir hópar sem þurfa hærri framfærslu fái minni hlutfallslega aðstoð en t.d. einhleypir námsmenn sem búa í foreldrahúsum.

Nauðsynlegt er að skoða betur áhrif frumvarpsins fyrir þá nemendur sem fara í starfsnám en ljóst er að nauðsynlegt er að auka verulega aðsókn nemenda í slíkt nám. Þar þarf m.a. að líta til möguleika fólks á að sækja sér nám á háskólastigi til viðbótar við starfsréttindanám með tilliti til námslengdar. BSRB bendir á að þær breytingar sem verið er að gera kunni að draga úr áhuga fólks á að sækja sér verk- og starfsnám sem gengur þvert á markmið um aukna ásókn nemenda í slíkt nám.

Þá gerir bandalagið verulegar athugasemdir, m.a. í ljósi stjórnskipulegs banns við mismunun, við að takmarka námsaðstoð með tilliti til aldurs einstaklinga sbr. m.a. 2. og 9. gr. frumvarpsins. BSRB telur auk þess að sú breyting geti dregið verulega úr möguleikum þeirra sem þurfa einhverra hluta vegna að afla sér nýrrar eða viðbótarmenntunar til að sækja sér nám á miðjum aldri. BSRB leggur því til að fallið verði frá þessari breytingu enda í andstöðu við markmið um aukna og lengri þátttöku fólks á vinnumarkaði.

BSRB hefur hér sett fram helstu sjónarmið bandalagsins vegna fyrirliggjandi frumvarps og hvetur til þess að frumvarpinu verði breytt í grundvallaratriðum til þess að tryggja hið mikilvæga félagslega hlutverk Lánasjóðsins, tryggt verði að þeir hópar sem sannarlega þurfi mest á að aðstoð LÍN að halda fái hana og áhrif frumvarpsins verði betur metin m.a. með tilliti til eflingar starfs- og verknáms.

 

Fyrir hönd BSRB

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?