Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019 – 2023

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2019 – 2023, þingskjal 716 — 494. mál

Reykjavík, 4. maí 2018

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2019-2022, 494. mál.

Skattkerfisbreytingar

Eitt helsta baráttumál bandalagsins er að Ísland sé réttlátt samfélag sem byggir á jöfnuði. Ítrekað hefur verið bent á að ójöfnuður hafi aukist hér á landi undanfarin ár, m.a. vegna aukinna fjármagnstekna og hækkandi eignaverðs Þá hefur heildarskattbyrði tekjulægstu hópa launafólks aukist langmest samanborið við aðra hópa.

Í tillögu að fjármálaáætlun er gert ráð fyrir skattalækkun sem samsvarar 1% flatri lækkun á tekjuskattsprósentu. BSRB leggst gegn því að skattar verði lækkaðir fyrir hátekjufólk. Þrátt fyrir mikla áherslu á lægstu laun í undanförnum kjarasamningum hefur ríkið tekið til sín þær hækkanir með aukinni skattbyrði og lækkun bóta. Brýnt er að snúa þeirri þróun við. Ef lækka á tekjuskatt þarf það að vera útfært með þeim hætti að lækkunin gagnist helst þeim sem eru á lægstu laununum og barnafjölskyldum.

Þá telur bandalagið brýnt að heimild til samsköttunar milli hjóna/sambúðarfólks verði felld niður. Líkt og fram kemur í tillögunni þar sem haft er eftir fræðilega úttekt, hefur verið mælt með því að horfið verði frá samnýtingu persónuafsláttar og skattþrepa. Það væri gert með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir bjagaða hvata, s.s. núverandi hvata til minni atvinnuþátttöku tekjulægri maka í samsköttun.

Í kynningu fjármálaráðuneytis á tillögu til fjármálaáætlunar sem lögð var fram á síðasta ári kom fram að í kringum 93% af þeirri ívilnun af samsköttuninni sem hlýst hækkar ráðstöfunartekjur karla en einungis 7% tilvika hækkar ráðstöfunartekjur kvenna. Þrátt fyrir þessa staðreynd er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á þessu fyrirkomulagi í núverandi tillögu til fjármálaáætlunar og telur bandalagið brýnt að úr því verði bætt.

Einnig þarf að leggja aukna áherslu á mikilvægi barnabóta og húsnæðisstuðnings sem á að vera almennur stuðningur við fjölskyldur líkt og á öðrum Norðurlöndum en ekki eingöngu fyrir þá tekjulægstu líkt og reyndin hefur verið hér á landi undanfarin ár. BSRB lýsir sig reiðubúið í samstarfsverkefni við stjórnvöld um útfærslu á slíkri breytingu.

Jafnréttismál

Í tillögunni hafa tvö markmið verið skilgreind þegar kemur að jafnréttismálum. Annars vegar að launajafnrétti verði náð og hins vegar að dregið verði markvisst úr ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, með auknu og efldu samstarfi milli menntakerfisins, réttarvörslukerfisins og velferðarkerfisins.

Þegar kemur að útfærslu á því hvernig markmiðinu um að launajafnrétti verði náð er áherslan eingöngu á eftirfylgni jafnlaunastaðals sem felur í sér áherslu um að launamun innan vinnustaða verði útrýmt. BSRB hefur ítrekað bent á að megináskorunin þegar kemur að launamun kynjanna er mun fjölþættari og því þarf einnig að vinna í öðrum orsökum launamunar kynjanna.

Ein meginástæðan er kynskiptur vinnumarkaður, sbr. m.a. skýrslu um stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði sem unnin var fyrir aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti á Íslandi (1). Aðrar ástæður eru t.d. staðalímyndir, völd og áhrif kynjanna, möguleikar til samræmingar fjölskyldu og atvinnulífs og hlutastörf. Norrænir sérfræðingar í jafnréttismálum hafa ítrekað bent á að það verði að grípa til aðgerða til að ráðast að rótum hverrar ástæðu fyrir sig til að jafna megi stöðu kynjanna. Ekki er fjallað um nein af þessum atriðum í tillögunni og brýnt að bæta úr því.

Nær engin umfjöllun er um aðgerðir í tengslum við #metoo umræðuna í tillögunni. Rétt er að benda á að kjarni þeirrar byltingar varðar ofbeldi og áreitni gagnvart konum á vinnustöðum. Þegar þetta er ritað hefur ríkisstjórnin ekki tekið nein skref til að stuðla megi að því að útrýma þessum vanda á vinnustöðum fyrir utan skipan starfshóps sem á að meta umfang hans. Reynslusögur þeirra hugrökku kvenna sem hafa stigið fram hafa varpað skýru ljósi á vandann og flest allir #metoo hópar kvenna hafa gert kröfur til stjórnvalda um úrbætur (2).

Eitt af fyrstu skrefunum hlýtur að fela í sér aukin framlög til fræðslu, að virt sé lagaskylda um að nemendur hljóti jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og aukið fjármagn verði lagt í eftirlit hjá Vinnueftirlitinu sem og Jafnréttisstofu.

Fjölskyldumál

Í tillögunni er fjallað um aukið framlag til Fæðingarorlofssjóðs til að hækka hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi í 600.000 kr. á mánuði. Þá segir að stefnt sé að lengingu fæðingarorlofs en ekki kemur fram hvenær er lagt til að það komi til framkvæmda.

BSRB leggur áherslu á að niðurstaða meirihluta starfshóps sem skipaður var af félags- og húsnæðismálaráðherra verði fylgt eftir. Þær voru að greiðslur í fæðingarorlofi verði óskertar upp að 300.000 kr. og fæðingarorlof verði 12 mánuðir. Niðurstöðurnar lágu fyrir í mars 2016 en allir fulltrúar í hópnum studdu tillögu um hækkun hámarksgreiðslna í 600.000 kr. mánaðarlega(3). Uppreiknað er sú fjárhæð 645.000 kr. árið 2018 og telur bandalagið að miða eigi við þá upphæð þegar þakið verður hækkað. BSRB leggst alfarið gegn lækkun tryggingargjalds sé það á kostnað framangreindra breytinga á fæðingarorlofskerfinu.

Umönnunarbilið, tímabilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn kemst í tryggt dagvistunarúrræði, hefur neikvæð áhrif á tekjumöguleika fjölskyldna og hefur verulega neikvæð áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Samkvæmt skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði eru það að meginstefnu til mæður sem axla ábyrgð á umönnun barna sinna á þessu tímabili og má áætla að þær séu að meðaltali fjórfalt til fimmfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna en feður (4).

Það er því ekki síður brýnt að brúa umönnunarbilið svo ekki taki við að loknu fæðingarorlofi tímabil sem grefur verulega undan jafnrétti kynjanna og afkomu fjölskyldna með ung börn. Enn fremur má benda á að bilið milli kynjanna eykst á þessu aldursskeiði, þegar barneignir hefjast. Með öðrum orðum þá hefur þessi lengri fjarvera kvenna frá vinnumarkaði áhrif á launamun kynjanna og starfsframamöguleika.

Ljóst er að verulegur kostnaður fylgir því að tryggja öllum börnum dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi. Ítrekað hefur verið bent á í fjölmiðlum að neyðarástand ríki víða um landið þegar kemur að dagvistunarmálum. Þetta er samfélagslegt vandamál og leggur BSRB því áherslu á að ríkið styðji við sveitarfélögin þegar kemur að því að tryggja öllum börnum aðgengi að leikskóla að loknu fæðingarorlofi (5).

Bandalagið fagnar áherslu ríkisstjórnarinnar um innleiðingu starfsgetumats og einföldun bótakerfis almannatrygginga. Starfsgetumat hefur verið til umræðu í rúmlega áratug og mikilvægt hefjast handa sem fyrst.

BSRB hefur ásamt aðilum vinnumarkaðarins átt í samstarfi og samráði við Mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna fagháskólanáms á undanförnum árum. Hvergi er minnst á slíkt nám í tillögunni og leggur BSRB áherslu á að úr því verði bætt.

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

 

(1) Dr. Katrín Ólafsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir (2015) 

(2) Nálgast má frekari upplýsingar um kröfur #metoo kvenna frá þjóðfundi sem heildarsamtök launafólks og Kvenréttindafélags Íslands stóðu fyrir hér.

(3) Tillögurnar má nálgast hér.

(4) Skýrslu BSRB um dagvistunarúrræði má finna hér.  

(5) Lesa má frekar um kostnað í skýrslu starfshóps Menntamálaráðuneytis um leikskóla að loknu fæðingarorlofi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?