Innlent samstarf

BSRB á í nánu sambandi við önnur bandalög verkalýðsfélaga á Íslandi. Hagsmunir launafólks fara í mörgum tilvikum saman, hvort sem er á opinbera vinnumarkaðinum eða almennum vinnumarkaði. Með samstarfi ná bandalögin auknum slagkrafti og koma sjónarmiðum launafólks betur á framfæri, félagsmönnum sínum til hagsbóta.

 

Opinberi vinnumarkaðurinn

Samstarfið við Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands, sem einnig gæta hagsmuna starfsmanna hins opinbera, er margvíslegt. Bandalögin hafa með sér samráð og starfa saman þegar kemur að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, til dæmis þegar kemur að lífeyrismálum opinberra starfsmanna og öðrum málum þar sem hagsmunir bandalagana fara saman. Haldnir eru reglulegir samráðsfundir þar sem unnið er með markvissum hætti að hagsmunum félagsmanna.

 

Almenni vinnumarkaðurinn

BSRB vinnur náið með Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) vegna sameiginlegra hagsmunamála. BSRB og ASÍ stofnuðu til að mynda Bjarg íbúðafélag í sameiningu haustið 2016 og Vörðu - rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins árið 2019. BSRB og ASÍ reka einnig sameiginlega Félagsmálaskóla alþýðu þar sem boðið er upp á trúnaðarmannafræðslu. Þá hafa bandalögin tvö haft samstarf um opna fundi og átaksverkefni á borð við kvennafrí heilbrigðismál og fæðingarorlofsmál.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?