Atvinnumál

Hátt atvinnustig er ein af undirstöðum velferðarsamfélagsins og því er brýnasta viðfangsefni stjórnvalda hvers tíma að búa svo um að sem flestir hafi tök á því að stunda vinnu. Markmið verkalýðshreyfingarinnar er að bæta lífskjör og lífsgæði launafólks og halda á lofti grundvallarkröfum um jöfnuð, réttlæti og samfélagslega ábyrgð sem mótvægi við arðsemiskröfu atvinnurekenda.

Öflug almannaþjónusta myndar hina félagslegu innviði sem tryggja jafnræði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntun sem og opinberar fjárfestingar sem tryggja efnislega innviði eins og mannvirki, samgöngur, fjarskipti og aðra þá innviði sem nauðsynlegir eru hverju samfélagi. Þannig skilar almannaþjónustan og opinberar fjárfestingar samfélagslegum arði með því að mynda þann grunn sem nauðsynlegur er fyrir öflugt atvinnulíf og nýsköpun. BSRB krefst þess að almannaþjónustan verði efld með því að byggja upp enn sterkari opinberan vinnumarkað sem er samkeppnisfær um starfsfólk við hinn almenna vinnumarkað.

BSRB leggur áherslu á að mótuð verði atvinnustefna fyrir Ísland í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að efla stoðir efnahagskerfisins. Vinnumarkaðurinn er að taka miklum breytingum vegna tæknibreytinga fjórðu iðnbyltingarinnar, nauðsynlegrar aðlögunar atvinnugreina vegna loftslagsbreytinga og hlutfallslegrar öldrunar þjóðarinnar á næstu árum og áratugum, sem taka þarf tillit til. Stefnan þarf einnig að taka mið af réttlátum umskiptum til kolefnishlutleysis. Fyrir vinnumarkaðinn þýðir það að leggja þurfi áherslu á grænar fjárfestingar sem skapa störf sem eru launuð með sanngjörnum hætti, veita atvinnuöryggi og vinnumarkaðstengd réttindi og tryggja að starfsfólk hafi áhrif á starfsaðstæður sínar. Grænar fjárfestingar á því ekki einungis að meta út frá fjárhagslegum ávinningi heldur einnig út frá áhrifum á fjölda og gæði starfa. Mikilvægur liður í umskiptunum er að gera fólki kleift að efla þekkingu sína og færni með sí- og endurmenntun til að takast á við ný eða breytt störf.

BSRB vill að staða landshlutanna verði styrkt svo þeir hafi aðdráttarafl fyrir fólk til búsetu og starfa. Styrkja verður uppbyggingu atvinnulífs og opinberrar þjónustu á landinu öllu. Verð á orku þarf að vera sambærilegt um land allt og sömuleiðis aðgengi að netsambandi en ljósleiðaravæðing er forsenda starfa og menntunar án staðsetningar. Skapa verður ný opinber störf í öllum landshlutum í stað þess að flytja störf landshluta á milli. Reynslan sýnir að tilfærsla starfa á milli landshluta hefur bæði neikvæð áhrif á starfsfólk, starfsemi viðkomandi stofnunar og þjónustuna sem á að veita.

Stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum ásamt verkalýðshreyfingunni og fulltrúum atvinnurekenda og hlúa sem best að þeim sem af einhverjum ástæðum falla út af vinnumarkaði. Sérstaklega þarf að huga að langtímaatvinnulausu fólki svo það einangrist ekki félagslega og efnahagslega og fái tækifæri til að mennta sig og þjálfa til nýrra starfa. Hið opinbera á að ganga fram með góðu fordæmi og skapa störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?