Atvinnumál

Hátt atvinnustig er lykilforsenda þess að hægt sé að halda uppi velferðarkerfi og því er brýnasta viðfangsefni stjórnvalda hvers tíma að búa svo um að sem flestir hafi tök á því að stunda vinnu.

Stjórnvöld verða að leggja sitt af mörkum ásamt verkalýðshreyfingunni og fulltrúum atvinnurekenda að hlúa sem best að þeim sem af einhverjum ástæðum falla út af vinnumarkaði. Sérstaklega þarf að huga að langtímaatvinnulausu fólki svo það einangrist ekki félagslega og efnahagslega. Sporna þarf við því að fólk dvelji lengi í atvinnuleysisbótakerfinu.

Tryggja verður framtíðarfjármögnun VIRK starfsendurhæfingarsjóðs. VIRK hefur á starfstíma sínum unnið mikilvægt starf við að undirbúa fólk sem fallið hefur af vinnumarkaði til að snúa aftur til starfa. Þjóðhagslegur ávinningur af starfi sjóðsins er gríðarlegur. VIRK hefur með starfi sínu stuðlað að aukinni lýðheilsu þjóðarinnar og á sama tíma sparað samfélaginu mikla fjármuni.

Opinber vinnumarkaður er grunnstoð norræna velferðarkerfisins þar sem jafnrétti fólks er haft að leiðarljósi. Sterk almannaþjónusta er árangursríkasta jöfnunartæki sem til er og jafnframt einn mikilvægasti hlekkur í atvinnulífsins sem skilar þjóðfélaginu miklum arði. Innan almannaþjónustunnar starfa þúsundir í skólum, félags- og heilbrigðisþjónustu og víða eru konur í miklum meirihluta þessara starfa. Þess vegna er mikilvægt að efla grunnþjónustu samfélagsins og byggja upp enn sterkari opinberan vinnumarkað sem er samkeppnisfær við hinn almenna vinnumarkað.

Stjórnvöld geta aukið fjölbreytni á vinnumarkaði með því að huga betur að menntun sem miðast við þarfir atvinnulífsins. Traustur grundvöllur hefur verið lagður að fjölbreyttri atvinnustarfsemi með aukinni menntun. Þess vegna er mikilvægt að stuðla að frekari nýsköpun og hlúa að vaxtarsprotum. Vaxandi atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu, upplýsingatækni og líftækni skapa mörg störf og eru nær undantekningarlaust gjaldeyrisskapandi. Með fjölbreyttu atvinnulífi og raunverulegri gjaldeyrissköpun fyrirtækja má draga úr líkum á stórfelldum örðugleikum í atvinnulífinu.

Styrkja verður stöðu landshlutanna svo þeir hafi aðdráttarafl fyrir fólk til búsetu og starfa. Styrkja verður uppbyggingu atvinnulífs og opinberrar þjónustu á landinu öllu. Leitast verður við að skapa ný opinber störf í öllum landshlutum í stað þess að flytja störf landshluta á milli. Reynslan sýnir að tilfærsla starfa á milli landshluta hefur bæði neikvæð áhrif á starfsfólk, starfsemi viðkomandi stofnunar og þjónustuna sem á að veita.

Markmiðið verkalýðshreyfingarinnar á alltaf að vera að auka lífkjör og lífsgæði launafólks. Til að ná markmiðum um aukin lífsgæði vinnandi fólks og arðsemiskröfur atvinnurekenda má þó aldrei gleyma siðferðislegum og félagslegum grunnviðmiðunum um jöfnuð, réttlæti og samfélagslega ábyrgð.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?