Mennta- og fræðslumál

Mennta- og fræðslumál hafa verið ríkur þáttur í starfi BSRB og aðildarfélaga bandalagsins í yfir 50 ár. Fyrsta trúnaðarmannanámskeiðið á vegum BSRB var haldið í Borgarnesi árið 1967 og var sérstakur starfsmenntunarsjóður starfsmanna ríkisins stofnaður árið 1982.

Skipta má núverandi áherslum bandalagsins í mennta- og fræðslumálum í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða áherslur vegna starfsmenntamála félagsmanna og hins vegar stefnumörkun og sýn bandalagsins vegna áherslna og aðgerða stjórnvalda í menntamálum. Þessir tveir flokkar liggja þó oft saman.

BSRB leggur mikla áherslu á að eiga í góðu samstarfi við aðildarfélög og símenntunarstöðvar aðildarfélaga til að efla enn frekar og auka tækifæri félagsmanna til að bæta við þekkingu sína.

 

Menntun trúnaðarmanna

BSRB hefur ávallt lagt ríka áherslu á öfluga félagsmálafræðu til trúnaðarmanna. Menntun trúnaðarmanna er fyrst og fremst sinnt á vettvangi Félagsmálaskóla alþýðu sem starfræktur er af BSRB og ASÍ. Trúnaðarmannanámið er í sex þrepum og er þar meðal annars fjallað um vinnumarkaðinn, starfsemi stéttarfélaga, samskipti á vinnustað, einelti, vinnuvernd og náms- og starfsráðgjöf.

Hlutverk Félagsmálaskólans er þannig að auka þekkingu talsmanna stéttarfélaga og efla þá í starfi til þess að þeir séu betur í stakk búnir að vinna að bættum lífskjörum launafólks.

Frekari upplýsingar um starfsemi Félagsmálaskóla alþýðu má finna á vef skólans.

 

Starfsmenntamál

Aðildarfélög BSRB hafa lagt mikla áherslu á starfsmenntamál sinna félagsmanna. Í því skyni eru starfræktir starfsmenntasjóðir, starfsþróunar- og mannauðssjóðir í samstarfi við atvinnurekendur. Í þessa sjóði geta félagsmenn sótt um menntastyrki, en auk þess geta stéttarfélög, stofnanir og fræðsluaðilar sótt styrki í sjóði sem styrkja og styðja við símenntunaráform og símenntunaráætlanir þessara aðila. Nánari upplýsingar um einstaka sjóði má finna á heimasíðum aðildarfélaga BSRB.

  

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

BSRB hefur verið aðili að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins frá árinu 2010. Hlutverk Fræðslumiðstöðvar er að vera samstarfsvettvangur BSRB, ASÍ, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðuneytisins um fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtakanna. Með aðild bandalagsins að Fræðslumiðstöðinni birtist rík áhersla bandalagsins á öfluga fræðslu, starfsmenntun og ráðgjöf fyrir starfsmenn á opinberum vinnumarkaði.

Nánari upplýsingar um starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins má finna á vef miðstöðvarinnar

 

Verkefnahópur um fullorðins- og framhaldsfræðslu

Skýrsla um fullorðins- og framhaldsfræðslu

BSRB átti fulltrúa í verkefnahópi um fullorðins – og framhaldsfræðslu sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði í janúar 2015. Viðfangsefni hópsins var að móta tillögur að úrbótum og breytingum á námsframboði fyrir fullorðna sem ekki hafa lokið námi í framhaldsskóla.

Meginniðurstaða verkefnahópsins var að framhaldsfræðslukerfið hvíldi á traustum grunni og vinni almennt vel að þeim markmiðum sem því hafi verið sett. Tryggja þurfi þó meira fjármagn til framhaldsfræðslunnar og efla enn frekar þróun og stuðning innan kerfisins.

Verkefnahópurinn skilaði skýrslu um fullorðins- og framhaldsfræðslu þar sem hægt er að kynna sér verkefnið nánar.

 

Fagháskólanám

Uppbygging öflugs starfsnám hefur lengi verið áherslumál BSRB í menntamálum félagsmanna. BSRB átti fulltrúa í verkefnisstjórn um fagháskólanám sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði og skilaði skýrslu haustið 2016 en auk bandalagsins áttu fulltrúar ráðuneytisins, ASÍ , BHM, Landssambands íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Samstarfsnefndar háskólastigsins, SA og Skólameistarafélag Íslands sæti í hópnum.

Hópurinn skilaði af sér ítarlegri skýrslu þar sem meðal annars var lagt til að farið verði af stað með þróunarverkefni um fagháskólanám á árinu 2017. Samhliða því undirrituðu mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúar BSRB, ASÍ og SA yfirlýsingu um stofnun þróunarsjóðs til að fjármagna þróunarverkefnin. Þá var ákveðið að skipa formlegan samráðsvettvangs um fagháskólanám. Það samstarfsráð tók til starfa vorið 2017 og meðal verkefna þess er að skilgreina frekar markmið með þróunarverkefnunum, leggja fram tillögur um kostnað og fjármögnun fagháskólanáms til framtíðar og vinna að skilgreiningu á raunfærnimati á háskólastigi og gera tillögu að innleiðingu þess.

BSRB bindur miklar vonir við að nýtt fagháskólastig geti aukið aðsókn í starfs- og verkmenntanám, bætt starfskjör viðkomandi starfsstétta og bæti og auki þjónustu- og verðmætasköpun hjá stofnunum og fyrirtækjum. Þá telur BSRB mikilvægt að staða raunfærnimats verði höfð til hliðsjónar við uppbyggingu náms á fagháskólastigi.

 

Hæfnirammi um íslenska menntun

Hæfnirammi um íslenska menntun

BSRB tók þátt í vinnu um gerð svokallaðs hæfniramma um íslenska menntun sem ætlað er að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi. Hæfniramminn byggir á evrópskum hæfniramma um menntun en vonast er til þess að innleiðing hans nýtist til að gera menntakerfi landsins gagnsærra, óformlega menntun sýnilegri og sé hvati fyrir einstaklinga til að auka hæfni sína til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag. Ramminn getur nýst félagsmönnum BSRB vel sem tenging milli formlegs og óformlegs náms. Upplýsingar um hæfni má til dæmis nýta í ferilskrá, við starfsþróun og í umsókn um nám.

Hæfniramminn hefur tvíþættan tilgang; auka gagnsæi innan menntakerfis hvers lands og auka gagnsæi milli evrópskra menntakerfa. Hvert þrep hæfnirammans endurspeglar þær kröfur sem gerðar eru til einstaklingsins er varða þekkingu, leikni og hæfni í verkefnum, samskiptum og vinnu.

Frekari upplýsingar um íslenska hæfnirammann má finna á vef Menntamálaráðuneytisins. 

  

Raunfærnimat

BSRB telur mikilvægt að efla og auka framboð raunfærnimats fyrir félagsmenn. Raunfærnimat er mjög mikilvægt fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið formlegu námi. Með raunfærnimati geta einstaklingar fengið mat á hæfni/færni óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Þeir geta síðan nýtt sér niðurstöðurnar til að halda áfram námi eða í til dæmis starfsþróun. Mat á raunfærni getur þannig verið hvati fyrir fullorðið fólk til að ljúka formlegu námi. Þannig styrkist staða þess, fagstétta og stofnana almennt hvað varðar þekkingarstig og framþróun.

Raunfærnimat er meðal annars í boði fyrir félagsliða, leikskólaliða og stuðningsfulltrúa en ljóst er að BSRB og aðildarfélög þess binda vonir við aukna þátttöku í raunfærnimati og fjölga bæði námsleiðum og störfum þar sem raunfærnimat verður í boði.

Frekari upplýsingar má finna á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?