Kjaramál

Allt launafólk á rétt á mannsæmandi launum fyrir vinnu sína. BSRB telur grundvallaratriði að launamunur milli hins opinbera og hins almenna vinnumarkaðar verði jafnaður samanber samkomulag um lífeyrismál frá 19. september 2016. Launakannanir hafa sýnt að launamunur á milli markaða sé um það bil 17 prósent. Þá verður áfram að vinna að hækkun lægstu launa.

Grundvallaratriði er að launafólk geti lifað af dagvinnulaunum því augljóst er að fyrr verður ekki sátt um kjaramál í þessu landi. Draga þarf úr yfirvinnu, enda leiðir minna vinnuálag til þess að afköst starfsfólks aukist hlutfallslega. Stefna ber að afnámi yfirvinnuskyldu úr lögum og kjarasamningum, nema að almannahagsmunir séu í húfi.

Lögfesta þarf styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar.

BSRB telur það forgangsmál að bæta stöðu tekjulægri fjölskyldna. Tryggja þarf að öll börn búi við örugga fjárhagslega afkomu, búi við búsetuöryggi og hafi tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Samfélag jafnaðar verður ekki byggt nema allar fjölskyldur geti boðið börnunum sínum upp á sambærileg tækifæri óháð efnahag og búsetu. Mikilvægt er að efla almenningssamgöngur og gera þær ódýrari.

BSRB krefst þess að sérstök launaþróunartrygging verði lögfest eða sett í kjarasamninga opinberra starfsmanna en megintilgangur hennar er að tryggja samræmi í launaþróun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Unnið verði að sátt á milli stéttarfélaga innan BSRB um útfærsluna. Þannig telur BSRB að opinberir starfsmenn muni njóta launahækkana sem eru umfram umsamdar launahækkanir í kjarasamningum auk þess sem upptaka launaþróunartryggingar ætti að leiða til aukins stöðugleika á vinnumarkaði.

Að mati BSRB er það forgangsverkefni stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að tryggja jafnrétti í launum óháð stöðu með tilliti til fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, kyneinkenna, kynþáttar, trúar, tungumáls, búsetu, stjórnmálaskoðana, þjóðernisuppruna, félagslegrar stöðu eða efnahags. Allar rannsóknir sýna fram á að launamunur kynjanna er enn til staðar sem birtist í lægri atvinnu- og ævitekjum kvenna. Söguleg og menningarleg áhrif hafa leitt til þess að störf í þágu barna og í heilbrigðisþjónustu eru metin til lægstu launa samfélagsins ásamt öðrum störfum þar sem konur eru í meirihluta.

Grípa þarf til sérstakra aðgerða til að útrýma launamuni sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þær aðgerðir eiga að hafa það að leiðarljósi að leiðrétta skakkt verðmætamat starfa þar sem meirihluti starfsmanna eru konur. Þá er jafnlaunastaðallinn mikilvægt tæki til að auka gegnsæi og gæði í launaákvörðunum.

BSRB krefst þess að bannað verði að skikka fólk í launalaust leyfi ef starfskrafta þess er ekki þörf svo sem vegna sumarlokana.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?