Ein af meginkröfum BSRB er að fólk geti lifað af á laununum sínum. Það tekur einnig til tilfærslna svo sem bóta og skattbyrði.
BSRB krefst þess að launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jafnaður samkvæmt samkomulagi um lífeyrismál frá september 2016. Launakannanir hafa sýnt að launamunur á milli markaða sé um það bil 17 prósent. BSRB leggur áherslu á að niðurstöðu verði náð á grundvelli samkomulagsins og að formfest verði sérstök launaþróunartrygging en megintilgangur hennar er að tryggja samræmi í launaþróun á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins eftir að jöfnun hefur verið náð.
Að mati BSRB er það forgangsverkefni stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að tryggja jafnrétti í launum óháð stöðu með tilliti til fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, kyneinkenna, kynþáttar, trúar, tungumáls, búsetu, stjórnmálaskoðana, þjóðernisuppruna, félagslegrar stöðu eða efnahags.
Endurmat á störfum kvenna
Konur búa enn við launamisrétti 60 árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á kynbundnum launamun. Síðustu ár hefur ýmislegt áunnist í vinnu gegn kynbundnum launamun en áherslan hefur verið á að leiðrétta launamun innan vinnustaða, til dæmis með jafnlaunastaðlinum. Þó það sé góðra gjalda vert er jafnlaunastaðallinn ekki verkfæri sem tekur á því grundvallar misrétti sem viðgengst í samfélaginu, hann leiðréttir ekki skakkt verðmætamat kvennastétta þvert á atvinnugreinar og vinnustaði. Því verður að beina kastljósinu að því að leiðrétta laun kvennastétta út frá raunverulegu verðmæti þeirra og þeirri verðmætasköpun sem störfin skila.