Munurinn á embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum

Mikilvægur munur er á skipuðum embættismönnum annars vegar og öðrum opinberum starfsmönnum hins vegar. Ýmsar reglur gilda um embættismenn sem ekki eiga við um aðra opinbera starfsmenn, til dæmis hvað varðar skipun í embætti og skipunartíma.

Munurinn á embættismönnum og öðrum ríkisstarfsmönnum

 • Hverjir eru embættismenn?

  Embættismenn njóta ákveðinnar sérstöðu samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þannig má segja að þeir njóti nokkru meira öryggis í starfi og um þá gilda ákveðnar reglur sem gilda almennt ekki um opinbera starfsmenn.

  Í lögunum er upptalning á því hverjir teljast vera embættismenn. Það eru:

  • Skrifstofustjóri Alþingis, ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis.
  • Forsetaritari, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar í Stjórnarráði
  • Sendiherrar í utanríkisþjónustunni.
  • Hæstaréttardómarar, skrifstofustjóri Hæstaréttar, landsréttardómarar, skrifstofustjóri Landsréttar, héraðsdómarar og framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar.
  • Ríkissaksóknari, vararíkissaksóknari og saksóknarar.
  • Ríkislögmaður, ríkissáttasemjari og umboðsmaður barna.
  • Sýslumenn, ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og aðstoðarlögreglustjórar, forstjóri Útlendingastofnunar og lögreglumenn.
  • Tollgæslustjóri og tollverðir.
  • Forstjóri fangelsismálastofnunar, forstöðumenn fangelsa og fangaverðir.
  • Ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri ríkisins og yfirskattanefndarmenn sem hafa það starf að aðalstarfi.
  • Nefndarmenn sjálfstæðra úrskurðarnefnda sem hafa það starf að aðalstarfi.
  • Yfirdýralæknir.
  • Forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, áður ótaldir.
  • Nefndarmenn í úrskurðarnefnd velferðarmála sem hafa það starf að aðalstarfi.
 • Skipun embættismanna

  Embættismenn eru skipaðir til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum. Fyrir árið 1996, þegar núgildandi starfsmannalög tóku gildi, voru embættismenn skipaðir ótímabundið og má í raun segja að þeir hafi verið skipaðir ævilangt. Þeir sem voru skipaðir fyrir gildistöku laganna árið 1996 halda þeim réttindum sínum og eru margir hverjir enn starfandi í dag. Þegar slík réttindi halda sér er almennt talað um það sé á grundvelli „sólarlagsákvæðis“.

  Þegar embættismaður hefur verið skipaður til fimm ára og til stendur að auglýsa embætti hans laust til umsóknar að skipunartíma loknum þarf að tilkynna honum um það eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út. Ef það er ekki gert framlengist skipun hans um fimm ár, nema hann hafi óskað eftir því að láta af störfum.

 • Sérstök nefnd rannsakar meintar misfellur

  Stjórnvald getur veitt embættismanni lausn um stundarsakir ef ástæða er talin til, til dæmis fyrir meintar misfellur í starfi. Við þær aðstæður skal málið rannsakað af sérstakri nefnd á grundvelli 27. greinar starfsmannalaga svo upplýst sé hvort rétt sé að veita embættismanni lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu.

  Ef embætti er lagt niður hefur embættismaður rétt til biðlauna, en sá réttur er almennt ekki fyrir hendi þegar aðrir opinberir starfsmenn sæta niðurlagningu starfs nema þeir hafi verið ráðnir til starfa fyrir árið 1996. Ef embættismaður hefur sinnt starfinu skemur en 15 ár skal hann halda óbreyttum launakjörum í sex mánuði en hafi hann sinnt því lengur skal hann njóta biðlauna í tólf mánuði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?