Lágmarksorlof miðað við fullt starfsár nú er 192 vinnuskyldustundir eða 24 dagar, en sumarið 2021 munu allir opinberir starfsmenn eiga rétt til 30 orlofsdaga. Orlofsrétturinn reiknast alltaf hlutfallslega út frá starfshlutfalli og starfstíma. Starfsmaður sem unnið hefur hluta af fullu starfi eða hluta úr ári. Þegar starfsmaður í vaktavinnu fer í orlof, skal hann fá óyggjandi upplýsingar um hvenær honum beri að mæta á vakt að orlofi loknu. Miðað skal að jafnaði við að vaktskrá haldist óbreytt. Misjafnt er eftir stéttarfélögum hvaða viðbótarorlofsrétt starfsmenn vinna sér inn.
Auk þess hafa aðildarfélög BSRB samið um aukinn orlofsrétt í kjarasamningum. Hjá opinberum starfsmönnum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, var aukinn réttur miðaður við lífaldur en ekki starfsaldur eins og venjan er á almennum vinnumarkaði. Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem tóku gildi 1. september 2018, banna mismunun á grundvelli aldurs og því var gerð krafa um það í nýgerðum kjarasamningum að allir fái hæsta mögulega orlofsrétt, sem er 30 orlofsdagar. Það þýðir, eins og áður segir, að sumarið 2021 munu allir eiga slíkan rétt. Sumarið 2020 verður orlofsrétturinn mismunandi eftir því hvar starfsmenn vinna, enda er ávinnslutími kjarasamninga mismunandi.
Í samningum við ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur orlofsrétturinn verið 192 vinnuskyldustundir (24 dagar) þar til viðkomandi nær þrítugsaldri, þá lengist hann í 216 vinnuskyldustundir (27 daga). Þá lengist og orlofsrétturinn í 240 vinnuskyldustundir (30 daga) við 38 ára aldur. Einstaklingar eiga rétt á lengri orlofsrétti á því ári sem hann verður 30 eða 38 ára. Með öðrum orðum, ef starfsmaður á t.d. 30 ára afmæli í desember en tekur orlof í júlímánuði á hann rétt á 216 stunda orlofi (27 dagar).
Frá og með sumrinu 2021 verður þetta einfaldara, enda allir með 30 daga orlofsrétt óháð aldri, en sumarið 2020 verður staðan óbreytt hjá þeim sem starfa hjá ríkinu og Reykjavíkurborg. Þeir sem starfa hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg munu fá 26, 28 og 30 daga eftir aldri þar sem ávinnsla þeirra á nýjum orlofsrétti hófst um síðustu áramót en þeir sem starfa hjá ríkinu og Reykjavíkurborg hefja ekki sína ávinnslu fyrr en næsta orlofsár hefst þann 1. maí 2020.