Heilbrigðismál

Jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, stuðlar öðru fremur að auknum jöfnuði fólks og við því fyrirkomulagi ber ekki að hrófla. BSRB leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum.

Endurskoða verður gjaldtöku fyrir ýmsa þætti heilbrigðisþjónustu til að stuðla frekar að jöfnu aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. BSRB vill sporna við gjaldtöku innan heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðiskerfi Íslendinga á að veita hverjum sem þarf á aðstoð að halda alla þá þjónustu sem völ er án tilkostnaðar fyrir viðkomandi.

Endurskoða þarf aukna þátttöku almennings í greiðslu fyrir nauðsynleg lyf . Það liggur í hlutarins eðli að lyfjakostnaður lendir mest á þeim sem eiga við veikindi að stríða. Veikindi valda tekjumissi ofan á aðra erfiðleika og því ætti það að vera grunnréttur þeirra sem veikir eru að fá lyf við hæfi án mikils kostnaðar fyrir viðkomandi. BSRB krefst þess að sú mismunun sem viðgengst milli einstaklinga vegna eðlis og uppruna sjúkdóma þeirra, raskana og kvilla verði leiðrétt. Sem dæmi má nefna augn-, heyrnar-, munnhols- og tannsjúkdóma. BSRB leggur til að tannheilsa barna og það sem henni fylgir falli undir almenna heilbrigðisþjónustu.

Huga verður að jafnræði til heilbrigðisþjónustu eftir búsetu. Hið opinbera verður sem dæmi að taka ríkari þátt í ferðakostnaði fólks sem búsetu sinnar vegna hefur ekki sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðrir. Afar brýnt er að stórefla utanspítalaþjónustu, sjúkraflutninga og sjúkraflug og tryggja þar með að slík þjónusta sé ætíð til staðar í hinum dreifðu byggðum.

Útgjöld til heilbrigðismála eru grundvallarforsenda hagvaxtar því ef heilsa fólks er góð gerir það því kleift að vinna og skila betur til samfélagsins. Umönnun aldraðra og barna skiptir líka sköpum í þessu samhengi og veitir fleirum möguleika á að vinna og leggja þannig til samfélagsins.

Hið opinbera á að reka heilbrigðiskerfið á réttlátan hátt fyrir skattfé landsmanna. Kerfið á að vera skilvirkt og tryggja öllum jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu. Þetta er mikilvægur þáttur þess að viðhalda öryggi og lífsgæðum fólksins í landinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?