Heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er grunnstoð samfélagsins. Góð heilbrigðisþjónusta bætir lífsgæði fólks og öryggi auk þess sem góð heilsa landsmanna er þjóðhagslega hagkvæm. Hið opinbera á að reka heilbrigðiskerfið fyrir skattfé landsmanna. Kerfið á að vera skilvirkt og tryggja öllum jafnan aðgang að fyrsta flokks þjónustu á réttu þjónustustigi óháð efnahag. Forsenda þess er að fjöldi starfsfólks sé í samræmi við þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og þá kröfu sem gerð er til þjónustunnar sem og gott og öruggt starfsumhverfi.

Fjárskortur margra mikilvægra heilbrigðisstofnana hefur leitt til undirmönnunnar, gríðarlegs álags á starfsfólk og aukinnar hættu á kulnun. Mikilvæg þjónusta hefur verið skorin niður, biðlistar hafa lengst og einkafyrirtæki tekið yfir hluta þjónustunnar. Skortur á viðeigandi þjónustuúrræðum fyrir aldraða skapar einnig vanda fyrir heilbrigðiskerfið því ekki er hægt að útskrifa fólk af sjúkrahúsum ef hjúkrunarrými skortir.

BSRB krefst þess að fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins verði í samræmi við þörf fyrir þjónustu og að stofnunum séu tryggðar nægilegar fjárveitingar til að standa undir kjarasamningsbundnum launahækkunum starfsfólks.

BSRB leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum. Einkarekstur dregur úr skilvirkni kerfisins, yfirsýn og samhæfingu, eykur hættu á oflækningum og torveldar eftirlit með gæðum og umfangi. Einkavæðing eykur líka þrýsting á launalækkanir, fækkun starfsfólks og uppsagnir starfsfólks með mikla reynslu og hærri laun til að auka hagnað af rekstrinum sem rennur þá í vasa eigendanna á kostnað launafólks og gæða þjónustunnar.

Rannsókn Embættis landlæknis á heilsuójöfnuði á Íslandi sýnir að þrátt fyrir að heilsa og vellíðan fari að jafnaði batnandi hér á landi fer heilsuójöfnuður vaxandi á Íslandi. Þau sem búa við kröpp kjör og eru með minni menntun búa við lakari heilsu og lifnaðarhætti heldur en þeir sem eru með hærri tekjur og lengri skólagöngu. Þessi ójöfnuður hefur veruleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur. BSRB krefst þess að við þessari þróun verði brugðist. Heilsuójöfnuðurinn verður ekki upprættur nema með víðtækum aðgerðum stjórnvalda og þær sem mestu máli skipta eru að tryggja menntun og fjárhagslegt öryggi. Hvað aðgerðir innan heilbrigðiskerfisins varðar þarf að endurskoða gjaldtöku fyrir ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar til að stuðla frekar að jöfnu aðgengi. BSRB vill sporna við gjaldtöku innan heilbrigðiskerfisins umfram það sem þegar hefur verið gert með greiðsluþátttökukerfum heilbrigðisþjónustu og lyfja, sem og tannlæknaþjónustu fyrir börn og elli- og örorkulífeyrisþega, þ.m.t. vegna tannréttinga barna.

Huga verður að jafnræði til heilbrigðisþjónustu eftir búsetu og tryggja öllum greitt aðgengi að heilsugæslu og öldrunarþjónustu. Hið opinbera verður að taka ríkari þátt í ferðakostnaði fólks sem búsetu sinnar vegna hefur ekki sama aðgengi að heilbrigðisþjónustu og aðrir. Afar brýnt er að stórefla fjarheilbrigðisþjónustu, aðgengi að sérfræðiþjónustu í heimbyggð, sjúkraflutninga og sjúkraflug og tryggja þar með að slík þjónusta sé ætíð til staðar í hinum dreifðu byggðum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?