Efnahags- og skattamál

BSRB leggur áherslu á að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Reka á skattkerfið og um leið velferðarkerfið með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Þeir sem betur eru stæðir ættu að bera meiri byrðar en hinir sem verr eru staddir. Samstaða þarf að nást um þessa hugsun í rekstri hins opinbera og hafa samstöðu og jöfnuð fólks að leiðarljósi.

Mikilvægt er að álögur á þá sem minnstar hafa tekjurnar verði ekki of miklar. Skattbyrði fólks verður að taka mið af framfærslubyrði og vera réttlát. Draga þarf verulega úr gjaldtöku í velferðarkerfinu en vaxandi greiðsluþátttaka launafólks í t.d. rekstri heilbrigðiskerfisins er óásættanleg.

Koma verður til móts við fjölskyldufólk með endurskoðun á fyrirkomulagi barnabóta og hækka greiðslur til barnafólks.

BSRB er fylgjandi þrepaskiptingu í skattkerfinu en slíkt verður að taka mið af skerðingum bótamegin. Einnig leggst BSRB gegn tekjutengingu bóta og lífeyrisgreiðslna og leggur einnig til að dregið verði sem mest úr tekjutengingum í skattakerfinu. Ekki er hægt að tekjutengja bæði skatta og bætur.

Ýmiskonar jaðarskattar geta verið íþyngjandi og leggjast mjög misjafnlega á fólk eftir efnum og aðstæðum.

BSRB er hlynnt auðlindaskatti og telur að greiða eigi fyrir nýtingu auðlinda, hverjar sem þær eru. Bandalagið leggur þó áherslu á að auðlindir verði í almannaeigu en ekki í eigu einkaaðila.

BSRB leggst alfarið gegn hækkunum á virðisaukaskatti, vörugjöldum og tollum. Brýnt er að fækka undanþágum frá virðisaukaskattkerfinu og lækka virðisaukaskatt á nauðsynjavörur.

BSRB varar við því að aðgerðir sem settar eru fram í nafni einföldunar á skattkerfi leiði í reynd til hærra álaga á launafólk. Mikilvægt er að kjör heimilanna séu lögð til grundvallar öllum breytingum á skattkerfinu en ekki óljósar hugmyndir um einföldun skattkerfisins.

BSRB hafnar alfarið öllum hugmyndum um skattlagningu inngreiðslna séreignarsparnaðar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?