Öflug almannaþjónusta er ein af grunnstoðum velferðarsamfélagsins. Eitt af meginhlutverkum hins opinbera er að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem landsmönnum er tryggð örugg framfærsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, menntun og öryggi, óháð búsetu. Velferðarkerfið á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og tryggja öllum framúrskarandi þjónustu án tillits til greiðslugetu. Reynslan sýnir að velferðarþjóðfélag verður ekki reist nema á gildum samvinnu og jafnaðar, gildum sem verkalýðshreyfingin hefur haldið á lofti frá öndverðu.
Besta leiðin til að tryggja jöfnuð felst í því að hið opinbera skipuleggi, stýri og fjármagni almannaþjónustuna. Lagarammi almannaþjónustunnar verður að vera nægilega traustur til að veita henni vernd gegn markaðsvæðingu. Almannaþjónustuna á aldrei að reka á hagnaðar-grundvelli heldur eiga almannahagsmunir og samfélagsmarkmið að vera í forgrunni.
Öflug almannaþjónusta byggir á faglegu og hæfu starfsfólki. Tryggja þarf að mönnun á vinnustað sé með þeim hætti að öryggi notenda og starfsmanna sé ekki hætta búin. Það er búið að skilgreina aukna mannaflaþörf en fjármagn skortir til að standa undir þeim kröfum. Þá er nauðsynlegt að tryggja starfsfólki almannaþjónustunnar gott og skipulagt starfsumhverfi, bætt upplýsingaflæði, samtal og aðkomu að ákvarðanatöku til að mynda varðandi skipulagsbreytingar og jöfn tækifæri til að sækja sér starfstengdamenntun og þjálfun.