Almannaþjónusta

Almannaþjónustuna ber að reka á samfélagslegum grunni af opinberum aðilum þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag. Það er grundvallaratriði að svo verði áfram. Reynslan sýnir að velferðarþjóðfélag verður ekki reist nema á gildum samvinnu og jafnaðar, gildum sem verkalýðshreyfingin hefur haldið á lofti frá öndverðu.

Opinber almannaþjónusta gegnir lykilhlutverki í uppbyggingu samfélagsins. Almannaþjónusta sem tryggir landsmönnum aðgang að meðal annars fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, menntun og réttarvörslukerfi, þar með talið löggæslu og annarri öryggisþjónustu.

Slíkt er ekki hægt að tryggja nema almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera sem skipuleggur, stýrir og fjármagnar hana á grundvelli jafnréttis. Þjónustuna þarf með öðrum orðum að skipuleggja þannig að þarfir allra landsmanna séu hafðar í huga en ekki miðað við greiðslugetu. Tryggja verður að lagarammi almannaþjónustunnar sé nægilega traustur til að veita henni vernd gegn markaðsvæðingu. Almannaþjónustuna á aldrei að reka á hagnaðargrundvelli heldur eiga almannahagsmunir og samfélagsmarkmið að vera í forgrunni.

Öflug almannaþjónusta byggir á faglegu og hæfu starfsfólki. Tryggja þarf að mönnun á vinnustað sé með þeim hætti að öryggi notenda og starfsmanna sé ekki hætta búin. Því er nauðsynlegt að hlúa að og veita starfsfólki almannaþjónustunnar tækifæri til að sækja sér aukna menntun og þjálfun. Með öflugri kjara- og mannauðsstefnu verður almannaþjónustan að eftirsóknarverðum vinnustað.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?