Auglýsing lausra starfa

Ólíkar reglur gilda um auglýsingar starfa hjá ríki, sveitarfélögum og opinberum fyrirtækjum. Fjallað er um þann mismun hér að neðan.

Algengar spurningar

 • Auglýsingar lausra starfa hjá ríkinu

  Laus störf hjá ríkinu skal auglýsa samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög). Ákveðnar undantekningar eru frá auglýsingaskyldu lausra starfa hjá ríkinu líkt og nánar er fjallað um hér að neðan.

  Engin lagaskylda hvílir á sveitarfélögum til að auglýsa laus störf en það er engu að síður í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gera svo. Þess ber einnig að geta að flest stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga hafa við gerð kjarasamninga samið um að sveitarfélög skuli að jafnaði auglýsa laus störf. Á almennum vinnumarkaði er ekki fyrir hendi auglýsingaskylda.

  Það þýðir að á öðrum viðsemjendum aðildarfélaga BSRB en ríki og sveitarfélögum hvílir ekki skylda til auglýsinga á lausum störfum nema um slíkt hafi verið samið með kjarasamningi.

  Bæði ríki og sveitarfélögum er skylt að veita upplýsingar um nöfn og starfsheiti umsækjenda um starf þegar umsóknarfrestur er liðinn samkvæmt starfsmannalögum, sem gilda um laus störf hjá ríkinu, og upplýsingalögum nr. 140/2012. Upplýsingaskyldan tekur einnig til lögaðila sem eru í meirihluta eigu hins opinbera og einkaaðila sem falið er opinbert verkefni.

  Hér að neðan verða nánar tilgreindar þær reglur sem gilda vegna auglýsinga á lausum störfum hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði.

 • Almennir starfsmenn ríkisins

  Í 2. mgr. 7. gr. starfsmannalaga er kveðið á um auglýsingaskyldu vegna lausra starfa hjá ríkinu. Þar segir að önnur störf skuli auglýst opinberlega samkvæmt reglum sem settar eru af ráðherra. Laus embætti á einnig að auglýsa.

  Forstöðumanni stofnunar er heimilt að setja sérreglur um hvernig skuli auglýsa störf hjá stofnunninni, enda sé það gert opinberlega og reglurnar hljóti staðfestingu ráðherra. Að lokum er í lagaákvæðinu fjallað um að sá sem auglýsir laust starf ber skyldu til þess að veita aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda sé þess óskað að umsóknarfresti liðnum. Þar af leiðandi er ekki heimilt að veita umsækjendum um starf hjá ríkinu nafnleynd.

  Í reglum nr. 1000/2019 um auglýsingar á lausum störfum er nánar kveðið á um framkvæmd auglýsinga. Reglurnar eiga við um þá starfsmenn ríkisins sem ekki eru embættismenn.

  Auglýsa skal laus störf og skal umsóknarfrestur vera a.m.k. tíu dagar frá birtingu auglýsingar.

  Ekki er skylt að auglýsa störf í eftirfarandi tilvikum:

  • Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.
  • Störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana o.þ.u.l., enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt.
  • Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði.
  • Störf vegna tímabundinna vinnumarkaðsúrræða á vegum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
  • Hlutastörf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu sem teljast til vinnumarkaðsúrræða.

  Laust starf telst nægjanlega auglýst með birtingu á sérstöku vefsvæði um laus störf hjá ríkinu.

  Í auglýsingu um laust starf skal tilgreina starfsheiti, heiti stofnunar og staðsetningu starfs eða hvort það sé án staðsetningar. Í auglýsingu skal alltaf tilgreina eftirfarandi:

  • Hvaða starf og starfssvið er um að ræða. Skal lýsing starfs vera nægjanlega greinargóð til þess að mögulegir umsækjendur geti gert sér glögga grein fyrir því í hverju starfið felst.
  • Starfshlutfall.
  • Stjórnunarlega stöðu starfsins innan stofnunar/ríkisfyrirtækis.
  • Menntunar- og hæfniskröfur.
  • Aðrar almennar og sértækar kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
  • Starfskjör.
  • Hvenær æskilegt er að starfsmaður hefji störf.
  • Hvar leita skuli frekari upplýsinga.
  • Lengd uppsagnarfrests.
  • Hvert á umsókn að berast og á hvaða formi.
 • Embættismenn

  Í 7. gr. starfsmannalaga segir að laus embætti skulu auglýst í Lögbirtingarblaðinu og umsóknarfrestur skuli ekki vera skemmri en tvær vikur frá útgáfu blaðsins. Þó er heimilt að skipa mann eða setja í embætti án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar þegar:

  1. Þegar skipunartími embættismanns er framlengdur sjálfkrafa um fimm ár
  2. Þegar menn eru settir í embætti tímabundið vegna forfalla
  3. Þegar menn eru fluttir til í embætti án þess að embættið sé auglýst laust til umsóknar

  Hvergi er kveðið á um hvert efni auglýsinga vegna lausra embætta hjá ríkinu skuli vera. Slíkar reglur eru hins vegar í gildi varðandi önnur störf hjá ríkinu, sbr. umfjöllun hér að framan.

  Á ríkinu og öðrum opinberum aðilum hvílir ákveðin upplýsingaskylda sem felur í sér að veita þarf almenningi eða fjölmiðlum aðgang að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjanda þegar umsóknarfrestur er liðinn sé þess óskað.

 • Auglýsingar lausra starfa hjá sveitarfélögum

  Sveitarfélögum ber ekki lagaleg skylda til að auglýsa laus störf. Fjöldi þeirra hefur þó sett sér sérstakar reglur um auglýsingu lausra starfa í samþykktum sínum. Einnig hafa tiltekin aðildarfélög BSRB við gerð kjarasamninga samið við sveitarfélögin um slíka auglýsingaskyldu.

 • Reykjavíkurborg

  Í kjarasamningi Sameykis við Reykjavíkurborg er kveðið á um að það sé skylda stofnana og fyrirtækja Reykjavíkurborgar að auglýsa öll laus störf laus til umsóknar á opinberum vettvangi og skuli það gert með 14 daga fyrirvara að jafnaði. Þó sé ekki skylt að auglýsa afleysingastörf vegna fæðingarorlofs eða veikinda eða störf þar sem ráðning skal standa 12 mánuði eða skemur, tímavinnustörf, störf nema eða störf unglinga í vinnuskóla.

  Enn fremur segir í viðkomandi kjarasamningi að í starfsauglýsingu skuli að lágmarki tilgreina:

  • Starfsheiti, starfstegund eða eftir atvikum stutta starfslýsingu.
  • Starfshlutfall ef ekki er um fullt starf að ræða.
  • Kröfur sem gerðar eru til starfsmanns.
  • Starfskjör í boði s.s. með orðunum „eftir hlutaðeigandi kjarasamningi opinberra starfsmanna.“
  • Hver veitir nánari upplýsingar um starfið.
  • Hvert umsókn á að berast.
  • Hvenær starfsmaður skuli hefja starf.
  • Hvort umsókn eigi að vera á sérstöku eyðublaði og ef svo er hvar sé hægt að fá það.
  • Kröfur um gögn - ef einhver eru - sem eiga að fylgja umsókn.
  • Umsóknarfrest.
 • Önnur sveitarfélög

  Í kjarasamningum sveitarfélaga sem hafa falið Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrirsvar við kjarasamningsgerð er kveðið á um auglýsingar á lausum störfum í gr. 11.2.1. en þar segir:

  Að jafnaði skulu laus störf auglýst en heimilt er að gera undantekningar t.d. þegar um er að ræða tímabundnar ráðningar eða tilfærslu í starfi.

  Bent skal á að í samþykktum sveitarfélaga kunna að vera ítarlegri ákvæði um auglýsingar á lausumstörfum. Skipulagsbreytingar leiða ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi. Skoða þarf hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.

 • Auglýsingar á lausum störfum annarra

  Ef litið er til annarra viðsemjenda aðildarfélaga BSRB, þ.e.a.s. annarra en ríkis og sveitarfélaga, er ekki til staðar lagaleg skylda að auglýsa laus störf. Tiltekin aðildarfélög BSRB hafa þó við gerð kjarasamninga samið um slíka auglýsingaskyldu. Sem dæmi um slíkt má nefna kjarasamning Orkubús Vestfjarða hf. og Félags opinberra starfsmanna á Vestfjörðum en þar segir að allar lausar stöður hjá O.V. skulu auglýstar innan fyrirtækisins áður en þeim er ráðstafað.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?