Réttindi vaktavinnufólks

Vinnufyrirkomulag vaktavinnufólks er með öðrum hætti en þeirra sem vinna dagvinnu. Því eru fjölmörg ákvæði kjarasamninga sem fjalla eingöngu um vaktavinnufólk.

Vaktavinnukafla kjarasamninga breytist 1. maí 2021. Þessi texti miðast við núgildandi ákvæði, en vefnum verður breytt þegar ný ákvæði taka gildi.

Réttindi vaktavinnufólks

 • Framlagning og breytingar á vaktskrá

  Þar sem unnið er á reglubundnum vöktum skal leggja fram drög að vaktskrá sex vikum áður en hún tekur gildi. Starfsmenn skulu fá eina viku til þess að gera athugasemdir eða óska eftir breytingum á henni. Endanleg vaktskrá skal lögð fram mánuði áður en fyrsta vakt samkvæmt skránni hefst, nema samkomulag sé gert um skemmri frest. Sé vaktskrá breytt með skemmri fyrirvara en viku skal greiða aukalega 2 klst í yfirvinnu vegna þeirrar vaktar sem tekur breytingum en sé innan við sólarhringur í upphaf vaktarinnar skal greiða aukalega 3 klst í yfirvinnu vegna breytingarinnar.

  Hér er eingöngu átt við breytingu á skipulagðri vakt en ekki aukavakt, en greiða skal breytingargjald vegna hverrar vaktar innan vaktskrár sem tekur breytingum.

 • Vaktaálag

  Vaktaálag er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutíma.

  • Á tímabilinu 17:00-00:00 virka daga greiðist 33,33% álag.
  • Á tímabilinu 00:00-08:00 virka daga og frá 17:00 á föstudögum til 08:00 á mánudagsmorgni greiðist 55% álag.
  • Á stórhátíðardögum greiðist 90% álag.
 • Vetrarfrí og bæting

  Í kjarasamningum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga er kveðið á um rétt vaktavinnufólks til vetrarfrís eða helgidagafrís. Almennt er slíkt ákvæði að finna í gr. 2.6.7 í kjarasamningi. Starfsmenn sem vinna á reglubundnum vöktum alla daga ársins getur fengið frí í 88 vinnuskyldustundir á ári m.v. fullt starf í heilt ár. Fríið kemur í stað greiðslna yfirvinnu eða stórhátíðarkaups fyrir vinnu á sérstökum frídögum. Ef starfsmaður velur að fá frí skv. framangreindu skal hann einnig fá launað vaktaálag, t.d. 55% vegna vinnu á föstudagskvöldum og um helgar.

 • Ávinnsla og taka frís

  Ávinnsla frísins miðast við almanaksárið og er því ávinnslan almennt 1. janúar til 31. desember. Sumar stofnanir miða við orlofsárið, og er ávinnslan þá frá 1. maí til 30. apríl. Fríið er almennt greitt út árið eftir ávinnslutímabilið. Það má veita fríið hvenær sem er árs en það má ekki flytja milli ára. Fríið fyrnist þó ekki heldur skal atvinnurekandi greiða eftirstöðvar vetrarfrís ef starfsmaður lýkur ekki töku þess innan 14 mánaða. Hið sama gildir við starfslok en þá getur starfsmaður annað hvort reynt að taka fríið s.s. við uppsagnarfrest eða fengið það greitt út og skal þá reiknað sem hlutfall af mánaðarlaunum. Starfsmaður getur breytt vali sínu milli leyfis og greiðslu og skal þá tilkynna það skriflega til viðkomandi stofnunar fyrir 1. desember á hverju ári.

 • Veikindi við ávinnslutíma

  Veikindi við ávinnslutíma frísins skerða ekki fríið. Ef starfsmaður verður veikur þegar taka skal út fríið gilda sömu tilkynningareglur og ef um veikindi í orlofi væri að ræða. Það er tilkynna skal veikindin eins fljótt og auðið er og staðfesta þau síðan með læknisvottorði. Að öðrum kosti verða þau ekki tekin gild.

 • Bæting

  Ef starfsmenn kjósa fremur bætingu en vetrarfrí skulu þeir fá greitt samkvæmt eftirfarandi uppgjörsmáta samkvæmt gr. 2.6.8 í kjarasamningi. Greitt er í samræmi við vaktskrá yfirvinnukaup (tímakaup) fyrir vinnu á frídögum en aldrei minna en 8 klst. fyrir hvern merktan vinnudag. Ef viðkomandi er ekki á vaktskrá á sérstökum frídegi eða stórhátíðardegi öðrum en laugardegi og sunnudegi (að undanskildum laugardegi fyrir páska) skal hver slíkur dagur bættur með greiðslu yfirvinnukaups í 8 klst. miðað við fullt starf eða með öðrum frídegi.

 • Fyrirspurnir vegna töku vetrarfrís

  BSRB berst reglulega fyrirspurnir um vetrarfrí og hér á eftir má sjá dæmi þess:

  Þarf starfsmaður að mæta til vinnu á öllum sérstökum frídögum eða stórhátíðardögum þó svo hann eigi ekki vakt þá til að geta tekið vetrarfrí?

  Þegar starfsmaður fer í slíkt leyfi skal telja þær vinnuskyldustundir af vaktskrá sem viðkomandi hefði ella átt að vinna og skiptir þá ekki máli hvort þær falla á sérstaka frídaga, stórhátíðardaga eða virka daga. Þ.e. ef „rauður dagur“ fellur inn í tímabili sem starfs maður er í fríi telst vinnuskylda þann dag inn í leyfið. Ávinnsla leyfisins felur í sér að starfsmanni er síðan gert kleift árinu á eftir að taka fríið.

 • Matar- og kaffitímar

  Samkvæmt kjarasamningum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga hefur starfsfólk í vaktavinnu ekki sérstakan matar- og kaffitíma. Almennt er ákvæði þess efnis að finna í gr. 2.6.9 í kjarasamningum. Ákvæði þar um eru flest samskonar og er svohljóðandi í kjarasamningi Samflots við Samband íslenskra sveitarfélaga:

  2.6.9
  Starfsfólk í vaktavinnu hefur ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni, ef því verður við komið starfsins vegna. Vegna takmörkunar þeirra sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum skal telja hverja vakt sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu 25 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam óháð lengd vaktar. Mælist vinnutími þannig lengri en umsamin vinnuskylda skal það sem umfram er greiðast sem yfirvinna.

  Ákvæðið er svohljóðandi í kjarasamningi Póstmannafélags Íslands í gr. 3.8.5:

  3.8.5 Matar- og kaffitímar
  Starfsfólk í vaktavinnu hefur ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni, ef því verður við komið starfans vegna. Vegna takmörkunar þeirrar, sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum skal telja hverja vakt, sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu, 25 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam.
 • Hlutastörf

  Þeir starfsmenn sem starfa í minna starfshlutfalli en 100% eiga einnig rétt á að fá 25 mínútur greiddar á hverja vakt. Greiðslan er því ávallt 25 mínútur óháð lengd vaktar. Í sumum samningum, t.d. hjá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, er greiðslan þó tengd lengd vaktar og fást þá fleiri mínútur í yfirvinnugreiðslu fyrir 12 tíma vaktir. 

 • Dómur um fyrirkomulag greiðslu vegna skerðingar á matar- og kaffitímum

  Fjallað hefur verið um túlkun ákvæðis kjarasamnings um skerðingu á matar- og kaffitímum vaktavinnufólks (sama efnis og gr. 2.6.9. sem nefnd var hér ofar) í máli Félagsdóms nr. 4/2011, Sjúkraliðafélag Íslands gegn Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili. Málið fjallar um hvort atvinnurekanda sé skylt að greiða yfirvinnukaup eða dagvinnukaup vegna skerðingu á matar- og kaffitímum vaktavinnustarfsmanns í hlutastarfi.

  Kjarasamningsákvæðið sem um ræðir er víðast orðað með sama hætti í kjarasamningum opinberra starfsmanna og hefur dómurinn þannig þýðingu fyrir vaktavinnufólk í hlutastarfi á vinnustöðum þar sem tíðkast hefur að greiða yfirvinnu á hverja vakt vegna skerðingar á matar- og kaffitímum óháð því hvort viðkomandi starfsmaður er í fullu starfi eða hlutastarfi. Samkvæmt dómnum er óheimilt að láta af slíkum greiðslum hafi verið komin á venja um að greiða skuli yfirvinnulaun vegna skerðingarinnar óháð starfshlutfalli.

  Dómurinn fjallar um sjúkraliðann H, sem hefur starfað á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili í 80% starfi sjúkraliða í tæplega fjögur ár. Frá því H hóf störf og þar til í apríl 2010 fékk hún greidd yfirvinnulaun vegna skerðingar á matar- og kaffitímum. Í maí 2010 breytti Grund fyrirkomulaginu með einhliða ákvörðun og hóf að greiða dagvinnulaun vegna umræddrar skerðingar í stað yfirvinnulauna. Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) taldi það brjóta í bága við kjarasamning og lagði málið fyrir Félagsdóm. Fyrir dómnum var deilt um hvernig bæri að skýra ákvæði í grein 2.6.9 í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands.

  Ákvæðið hljóðar svo:

  Starfsmenn í vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni ef því verður við komið starfsins vegna. Vegna takmörkunar þeirrar sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum, skal telja hverja vakt sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu, 25 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam.

  Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) krafðist að viðurkennt yrði að sú ákvörðun að hætta að greiða H yfirvinnu vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt grein 2.6.9 í kjarasamningi málsaðila hafi brotið í bága við kjarasamning. Einnig krafðist SLFÍ þess að viðurkennt yrði að H ætti rétt á að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt fyrrgreindu kjarasamningsákvæði. Grund krafðist sýknu af kröfum SLFÍ og taldi að greiða skyldi fyrir skerðinguna í dagvinnulaunum eins og ef um aukningu á starfshlutfalli væri að ræða.

  Í niðurstöðu dómsins kemur fram að í hinu umdeilda kjarasamningsákvæði sé ekki skilgreint hvort greiða skuli fyrir skerðinguna með dagvinnu- eða yfirvinnukaupi. Ekki væri hægt að sjá að túlkun ákvæðisins væri með einum og sama hætti hjá öllum aðilum sem greiða laun samkvæmt því. Því tók dómurinn ekki undir kröfu SLFÍ um að það væri andstætt gr. 2.6.9. í kjarasamningi að greiða dagvinnulaun vegna skerðingar á matar- og kaffitímum. Grund var því sýknað af fyrri kröfu SLFÍ.

  Dómurinn tók hins vegar undir síðari kröfu SLFÍ um að viðurkennt væri að sjúkraliðinn ætti að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt gr. 2.6.9. í kjarasamningi. Niðurstaðan byggir á að komin hafi verið á venja að greiða hlutastarfandi sjúkraliðum yfirvinnukaup vegna skerðingarinnar þar sem slíkt greiðslufyrirkomulag hefði tíðkast frá því hún hóf störf sem sjúkraliði eða í tæplega fjögur ár. Enn fremur að Grund hafði viðhaft slíkt greiðslufyrirkomulag að greiða yfirvinnulaun vegna skerðingar um sjö til átta ára skeið. Sú venja hafi verið orðin það föst í sessi í maí 2010 að Grund gæti ekki vikið henni til hliðar einhliða. Því var viðurkennt að H ætti rétt á að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt gr. 2.6.9. í kjarasamningi.

 • Fæðispeningar

  Greiðsla fæðispeninga þegar matstofa er lokuð

  Í flestum kjarasamningum aðildarfélaga BSRB er kveðið á um að greiða skuli starfsmönnum fæðispeninga sem eru á vakt þegar matstofa vinnustaðar sé ekki opin. Kjarasamningsákvæðið felur í sér að jafn vel þó atvinnurekandi gefi starfsmönnum kost á að panta mat á þeim tíma sem matstofan er lokuð þarf engu að síður að greiða fæðispeningana.

  Almennt hljóðar umrætt kjarasamningsákvæði svo:

  Starfsmaður á vakt þegar matstofa vinnustaðar er ekki opin skal fá það bætt með fæðispeningum sem nema 380 kr. enda sé vinnuskylda starfsmanns a.m.k. 1 klst. fyrir og 1 klst. eftir umsamda matartíma á viðkomandi vakt sbr. tímasetningar matartíma í gr. 3.2.1.

  Ágreiningur um túlkun þessa ákvæðis varð milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) og er fjallað um hann í Félagsdómi nr. 11/2013.

  Málsatvik voru þau að starfsmönnum HSu gafst kostur á að panta mat fyrir kvöld- eða næturvakt fyrir kl. 13 þann dag er vaktin átti að hefjast. Matarbakkinn var sendur á deild viðkomandi starfsmanns með kvöldmatnum fyrir deildina. Á öllum deildum er hægt að hita matinn upp og aðstaða til að setjast niður og borða. Á hverri deild er kaffistofa, býtibúr með ísskáp, borði, kaffikönnu, leirtaui og því sem fylgi venjulegu eldhúsi.

  Dómurinn taldi að fyrrnefnd aðstaða til að matast fullnægði ekki því að geta talist matstofa í skilningi ákvæða kjarasamnings né heldur samkvæmt almennum málskilningi. Var því niðurstaðan sú að matstofan væri ekki opin þegar starfsmaðurinn var við störf á kvöld – og næturvöktum. Hsu hefði því borið að greiða henni fæðispeninga samkvæmt tilvitnuðu kjarasamningsákvæði. Þar sem það hafi ekki verið gert hafi verið brotið gegn umræddri kjarasamningsgrein.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?