Fjallað hefur verið um túlkun ákvæðis kjarasamnings um skerðingu á matar- og kaffitímum vaktavinnufólks (sama efnis og gr. 2.6.9. sem nefnd var hér ofar) í máli Félagsdóms nr. 4/2011, Sjúkraliðafélag Íslands gegn Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili. Málið fjallar um hvort atvinnurekanda sé skylt að greiða yfirvinnukaup eða dagvinnukaup vegna skerðingu á matar- og kaffitímum vaktavinnustarfsmanns í hlutastarfi.
Kjarasamningsákvæðið sem um ræðir er víðast orðað með sama hætti í kjarasamningum opinberra starfsmanna og hefur dómurinn þannig þýðingu fyrir vaktavinnufólk í hlutastarfi á vinnustöðum þar sem tíðkast hefur að greiða yfirvinnu á hverja vakt vegna skerðingar á matar- og kaffitímum óháð því hvort viðkomandi starfsmaður er í fullu starfi eða hlutastarfi. Samkvæmt dómnum er óheimilt að láta af slíkum greiðslum hafi verið komin á venja um að greiða skuli yfirvinnulaun vegna skerðingarinnar óháð starfshlutfalli.
Dómurinn fjallar um sjúkraliðann H, sem hefur starfað á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili í 80% starfi sjúkraliða í tæplega fjögur ár. Frá því H hóf störf og þar til í apríl 2010 fékk hún greidd yfirvinnulaun vegna skerðingar á matar- og kaffitímum. Í maí 2010 breytti Grund fyrirkomulaginu með einhliða ákvörðun og hóf að greiða dagvinnulaun vegna umræddrar skerðingar í stað yfirvinnulauna. Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) taldi það brjóta í bága við kjarasamning og lagði málið fyrir Félagsdóm. Fyrir dómnum var deilt um hvernig bæri að skýra ákvæði í grein 2.6.9 í kjarasamningi Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands.
Ákvæðið hljóðar svo:
Starfsmenn í vaktavinnu hafa ekki sérstaka matar- og kaffitíma. Starfsmönnum er þó heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni ef því verður við komið starfsins vegna. Vegna takmörkunar þeirrar sem að ofan greinir á matar- og kaffitímum, skal telja hverja vakt sem unnin er til uppfyllingar vikulegri vinnuskyldu, 25 mínútum lengri en raunverulegri viðveru nam.
Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) krafðist að viðurkennt yrði að sú ákvörðun að hætta að greiða H yfirvinnu vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt grein 2.6.9 í kjarasamningi málsaðila hafi brotið í bága við kjarasamning. Einnig krafðist SLFÍ þess að viðurkennt yrði að H ætti rétt á að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt fyrrgreindu kjarasamningsákvæði. Grund krafðist sýknu af kröfum SLFÍ og taldi að greiða skyldi fyrir skerðinguna í dagvinnulaunum eins og ef um aukningu á starfshlutfalli væri að ræða.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að í hinu umdeilda kjarasamningsákvæði sé ekki skilgreint hvort greiða skuli fyrir skerðinguna með dagvinnu- eða yfirvinnukaupi. Ekki væri hægt að sjá að túlkun ákvæðisins væri með einum og sama hætti hjá öllum aðilum sem greiða laun samkvæmt því. Því tók dómurinn ekki undir kröfu SLFÍ um að það væri andstætt gr. 2.6.9. í kjarasamningi að greiða dagvinnulaun vegna skerðingar á matar- og kaffitímum. Grund var því sýknað af fyrri kröfu SLFÍ.
Dómurinn tók hins vegar undir síðari kröfu SLFÍ um að viðurkennt væri að sjúkraliðinn ætti að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt gr. 2.6.9. í kjarasamningi. Niðurstaðan byggir á að komin hafi verið á venja að greiða hlutastarfandi sjúkraliðum yfirvinnukaup vegna skerðingarinnar þar sem slíkt greiðslufyrirkomulag hefði tíðkast frá því hún hóf störf sem sjúkraliði eða í tæplega fjögur ár. Enn fremur að Grund hafði viðhaft slíkt greiðslufyrirkomulag að greiða yfirvinnulaun vegna skerðingar um sjö til átta ára skeið. Sú venja hafi verið orðin það föst í sessi í maí 2010 að Grund gæti ekki vikið henni til hliðar einhliða. Því var viðurkennt að H ætti rétt á að fá greitt yfirvinnukaup vegna takmörkunar á matar- og kaffitímum samkvæmt gr. 2.6.9. í kjarasamningi.