Breytingar á störfum

Þó opinberir atvinnurekendur hafi vissa heimild til breytinga á störfum starfsmanna sinna, samkvæmt lögum annars vegar og ákvæðum kjarasamninga hins vegar, þá þarf að fylgja ákveðnum reglum við slíka ráðstöfun. Ítarlega umfjöllun um þetta má finna hér að neðan.

Breytingar á störfum

  • Almennt um breytingar á störfum

    Fjallað er um breytingar á störfum opinberra starfsmanna í lögum og kjarasamningum. Þegar ráðið er í starf hefur starfsmaður ákveðið verksvið og ákveðnar starfsskyldur. Það er ekki hægt að búast við því að starfið haldist óbreytt um alla tíð og því eðlilegt að yfirmaður eða atvinnurekandi geti gert tilteknar breytingar á því verksviði.

    Í stuttu máli má segja að starfsmenn verði að þola breytingar á störfum sínum en sé breytingin umtalsverð þurfi að tilkynna um hana með sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða. Þegar svo ber undir hefur starfsmaður frest innan mánaðar til þess að samþykkja umtalsverða breytingu eða hafna henni. Ef hann hafnar henni jafngildir það uppsögn. Ef starfsmaður samþykkir breytingu og hún felur í sér lægri laun eða minni réttindi þá heldur starfsmaður þeim launum og réttindum út uppsagnarfrest.

  • Starfsmenn ríkisins

    Hjá starfsmönnum ríkisins gildir 19. gr. starfsmannalaga:

    Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Starfsmaður getur kosið að segja upp starfi sínu vegna slíkra breytinga, enda skýri hann ráðherra eða forstöðumanni frá því innan eins mánaðar frá því að breytingarnar voru tilkynntar honum. Ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör starfsmanns eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum þann tíma sem eftir er af skipunartíma hans í embætti eða jafnlangan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt ráðningarsamningi.
  • Starfsmenn sveitarfélaga

    Hjá starfsmönnum sveitarfélaga má finna sambærilega grein í kjarasamningum:

    Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því hann tók við starfi. Umtalsverðar breytingar ber að tilkynna með sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða. Í slíkum tilvikum ber starfsmanni að tilkynna vinnuveitanda innan mánaðar hvort hann uni breytingunum eða muni láta af störfum, eftir þann tíma sem uppsagnarfrestur kveður á um, frá því að honum var tilkynnt um breytinguna með formlegum hætti.

    Ef breytingarnar hafa í för með sér skert launakjör eða réttindi skal hann halda óbreyttum launakjörum og réttindum jafn langan tíma og réttur hans til uppsagnarfrests er samkvæmt samningi þessum.
  • Tilkynning um breytingu á starfi

    Tilkynning um breytingu skal ávallt vera skrifleg og rökstutt. Heimildin er jafnframt þess eðlis að yfirmaður eða atvinnurekandi þarf að beita henni hóflega og með þeim hætti að breytingar verði sem minnst íþyngjandi fyrir viðkomandi starfsmann. Ef breytingin felur í sér skert launakjör skal veita starfsmanni andmælarétt áður en ákvörðun er tekin.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?