Menntamál

Hornsteinn hvers samfélags eru jöfn tækifæri til menntunar og fræðslu við hæfi að skyldunámi loknu. Menntun stuðlar að virkari þátttöku í íslensku samfélagi og eykur hæfni fólks á vinnumarkaði. Þá skilar menntun sér í aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið í heild og auknum tekjum fyrir hið opinbera og landsmenn alla.

BSRB leggur því áherslu á jafnrétti til náms óháð aðstæðum, aldri og búsetu og leggst bandalagið gegn því að skólagjöld, hvaða nafni sem þau nefnast, séu lögð á í opinberum menntastofnunum.

Breyttur vinnumarkaður, menntun og hæfni

Ljóst er að á næstu árum og áratugum verða miklar breytingar á vinnumarkaði tengdar tæknibreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar, þróun gervigreindar, umhverfisbreytinga, breyttra neysluhátta, fjölgunar aldraðra og annarra samfélagsbreytinga. Stefnumótun og markviss sýn á samspil vinnumarkaðar og menntunar verður því sífellt mikilvægari. BSRB og aðildarfélög þess leggja áherslu á virka þátttöku í umræðu, ákvörðunartöku og stefnumótun í þeim málum sem snerta menntun og fræðslu í landinu, jafnt í formlega og óformlega skólakerfinu.

Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um menntastefnu til ársins 2030 og vinnur að aðgerðaáætlun um hvernig henni verður hrint í framkvæmd. Við innleiðingu vill BSRB að aukin áhersla verði lögð á sí- og endurmenntun, ekki síst í ljósi þeirra breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á vinnuumhverfi fólks á komandi árum.

Ríki og sveitarfélög sinna mikilvægri almannaþjónustu. BSRB kallar eftir því að allir vinnustaðir hins opinbera setji sér starfsþróunarstefnu og fylgi henni eftir með virkri starfsþróunaráætlun til að þjálfa sitt starfsfólk. Aukin hæfni og bætt kunnátta starfsfólks leggur grunninn að betri opinberri þjónustu sem er öllum til hagsbóta. Innleiðing nýrrar tækni raungerist ekki án markvissrar þjálfunar starfsfólks. Menntun sem eykur hæfni verður að vera hluti af vinnustaðamenningu framtíðar og ábyrgð vinnuveitenda á símenntun starfsfólks þarf að vera tryggð í lögum og í kjarasamningum.

BSRB krefst þess að fagháskólanám verði sérstakt skólastig. Vinna þarf áfram að uppbyggingu þess og að námið verði sjálfsagður hluti af formlega skólakerfinu og fjármagnað af hinu opinbera. Þá þarf það að vera tryggt að þeir sem hafa lokið starfs- eða iðnnámi með námslokum á þriðja hæfniþrepi hafi tryggan aðgang að háskólanámi.

Fimmta stoðin

Framhaldsfræðslan er fimmta stoð menntakerfisins og er einkar mikilvæg fólki með litla formlega menntun til að öðlast frekari tækifæri til náms. Nauðsynlegt er að sjóðakerfi framhaldsfræðslunnar sé öflugt og aðgengilegt og að fjárframlög til hins óformlega menntakerfis séu nægileg til að standa undir framsæknu starfi fræðslusetra, símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Við mat á fjárþörf og fjárframlögum þarf að taka tillit til þess að verkefni framhaldsfræðslunnar eru að verða flóknari og margbreytilegri til dæmis vegna fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði og því ekki nóg að horfa eingöngu til fjölda einstaklinga þar að baki. BSRB telur mikilvægt að framhaldsfræðslukerfið sé skilvirkt og aðgengilegt fyrir alla þá sem á þurfa að halda og vilja sækja sér sí- og endurmenntun innan kerfisins. BSRB er tilbúið að taka þátt í vinnu við endurskoðun á því.

BSRB leggur áherslu á að lokið verði við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Þá leggur BSRB ríka áherslu á að bæði ríki og sveitarfélög komi að uppbyggingu og rekstri fræðslusetra á sviði endur- og símenntunar sem hafa það hlutverk að greina og hanna menntunarleiðir fyrir félagsmenn aðildarfélaga BSRB, þeim að kostnaðarlausu.

BSRB telur nauðsynlegt að styrkja stöðu verk- og starfsnáms samhliða hefðbundnu bóknámi. Tryggja þarf að menntakerfið, stofnanir og fyrirtæki geti tekið við nemendum sem í námið sækja.

Styrkja þarf hlutverk þeirra starfsgreinaráða sem fjalla um þau störf sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna og búa ráðunum starfsaðstæður sem tryggja að þau geti sinnt hlutverkum sínum af metnaði. Þá þarf að styrkja Vinnustaðanámssjóð og einfalda vinnuveitendum að nýta sér sjóðinn þannig að það nýtist félagsfólki aðildarfélaga BSRB sem best.

Félagsauður

BSRB leggur áherslu á mikilvægi menntunar og beitir sér fyrir því að stjórnir aðildarfélaganna, starfsmenn og þeir sem gefa kost á sér til félagsstarfa fái þá fræðslu og menntun sem nauðsynleg er.

BSRB styður aðildarfélögin í því mikilvæga verkefni að auka og bæta þekkingu félagsmanna sinna í samstarfi við atvinnurekendur. BSRB vill leggja sérstaka áherslu á að auka tækniþekkingu og tölvulæsi í takt við óskir félagsmanna og þarfir vinnumarkaðarins.

BSRB leggur áherslu á að félagsmenn aðildarfélaganna geti þróað starfshæfni sína og menntað sig þannig að þeir verði eftirsóknarverðir á vinnumarkaði alla sína starfsævi. Nauðsynlegt er að tryggja möguleika félagsmanna til að sækja sér starfs- og símenntun samhliða störfum sínum án launaskerðingar. BSRB vill beita sér fyrir því að námsleyfi verði sjálfsagður réttur félagsmanna aðildarfélaga BSRB. Slík réttindi þurfa að vera tryggð með kjarasamningum en samræmd á milli félaga.

BSRB leggur áherslu á að erlendu starfsfólki sé boðin góð kennsla og þjálfun í íslensku, þeim að kostnaðarlausu. Þeim sé gert kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og að þeir fái þjálfun í íslensku á vinnustað, án launaskerðingar.

BSRB vill tryggja jafnt aðgengi félagsmanna aðildarfélaga að raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf með aukinni kynningu og upplýsingagjöf. Leggja þarf sérstaka áherslu á þau sem hafa minnstu formlegu menntunina.

Starfs- og símenntun er forgangsmál BSRB enda kallar vinnumarkaður framtíðarinnar á nýja hæfni og nýja hugsun og hugafar grósku. Brýnt er að aðilar vinnumarkaðarins og félagsmenn samtaka á vinnumarkaði taki saman höndum til að árangur náist.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?