Menntamál

Menntun leiðir til jafnari tækifæra, framfara og hærra atvinnustigs landsmanna. Menntun skilar sér í auknum tekjum og leggur grunn að virkni og lengri veru fólks á vinnumarkaði. Menntun stuðlar þannig að sjálfbærum hagvexti og auknum sameiginlegum tekjum fyrir hið opinbera og landsmenn alla. Jöfn tækifæri til menntunar og fræðslu við hæfi að skyldunámi loknu er hornsteinn hvers samfélags.

BSRB leggur áherslu á að félagsmenn aðildarfélaganna hafi tækifæri til að þróa sig og mennta þannig að þeir verði eftirsóknarverðir á vinnumarkaði alla starfsævina. Mikilvægt er að boðið sé upp á „annað tækifæri til náms“ og stuðlað sé að því að menntun og starfsreynsla sé metin að verðleikum. BSRB leggur áherslu á að bandalagið og aðildarfélög þess séu virkir þátttakendur í umræðu og ákvörðunartöku um þróun og framvindu menntunar og fræðslu í landinu.

Menntastefna BSRB styrkir aðildarfélögin í því mikilvæga verkefni að hækka menntunarstig félagsmanna í samstarfi við atvinnurekendur. Stefnan stuðlar að því að aðildarfélögin hafi skýra sýn, markmið og leiðir þegar fjallað er um menntun og fræðslu, hvort sem er innan raða BSRB eða í viðræðum við atvinnurekendur. BSRB og forysta aðildarfélaganna leggur áherslu á gildi og mikilvægi menntunar og beitir sér fyrir því að stjórnir, starfsmenn og þeir sem gefa kost á sér til félagsstarfa fái þá fræðslu og menntun sem nauðsynleg er.

Tryggja þarf jafnrétti til náms óháð aldri eða öðrum aðstæðum. BSRB leggst jafnframt gegn því að skólagjöld séu lögð á í opinberum menntastofnunum. Kostnaður við skyldunám, þ.m.t. námsgagnakostnaður, á að greiðast alfarið úr sameiginlegum sjóðum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?