Menntamál

Hornsteinn hvers samfélags eru jöfn tækifæri til menntunar. BSRB leggur áherslu á að öll njóti aðgangs að góðri menntun óháð búsetu, efnahag eða uppruna. Það verður einungis tryggt með því að standa vörð um opinbera menntun. Bandalagið leggst gegn því að skólagjöld, hvaða nafni sem þau nefnast, séu lögð á í opinberum menntastofnunum.

 

Breytingar á vinnumarkaði

Það er ljóst að tími mikilla breytinga er runninn upp á vinnumarkaði, annars vegar með breytingum á störfum og hins vegar með breytingu á samsetningu starfandi fólks, þá helst út frá aldri og uppruna. Gert er ráð fyrir að störfum fjölgi til að mynda í umönnun, þjónustu við aldraða og í byggingariðnaði en búist við fækkun starfa á borð við móttökustörf, afgreiðslustörf, störf við bakvinnslu og almenn skrifstofustörf. Samhliða eru flest störf á vinnumarkaði að verða fyrir breytingum, einkum vegna stafrænnar þróunar. Þessari þróun þarf að bregðast við með sveigjanlegu opinberu menntakerfi sem veitir öllu launafólki greiðan aðgang að öflugri sí- og endurmenntun. Einfalda þarf viðurkenning á námi erlendis frá til að tryggja að sú hæfni sem fólk hefur menntað sig til sé metin til launa. BSRB leggur áherslu á að félagsfólk aðildarfélaganna geti þróað starfshæfni sína þannig að það verði eftirsóknarvert á vinnumarkaði alla sína starfsævi.

 

Starfsþróunarstefna

Menntun sem eykur hæfni verður að vera hluti af vinnustaðamenningu framtíðar og ábyrgð atvinnurekenda á símenntun starfsfólks þarf að vera tryggð í lögum og kjarasamningum. Atvinnurekendur eiga að hvetja til og styðja við starfsþróun og símenntun. Þannig þurfa vinnustaðir að setja sér starfsþróunarstefnu, vinna starfsþróunaráætlanir og tryggja eftirfylgni, bæði fyrir vinnustaði í heild sem og fyrir einstaklinga. Hluti af þeirri þróun þarf að fara fram í starfsþróunarsamtölum. BSRB leggur áherslu á að vinnustaðir notfæri sér verkfæri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um réttlát umskipti sem gengur út á að teymi með fulltrúum starfsfólks og stjórnenda móti og framfylgi starfsþróunaráætlun vinnustaðarins og einstaklinga.

Auka þarf fjármagn til uppbyggingar á raunfærnimati, hæfnigreiningu starfa og Vinnustaðanámssjóði. Samhliða þarf að efla upplýsingagjöf um þau verkfæri til launafólks auk náms- og starfsráðsgjafar. Auka þarf svigrúm starfsfólks til að nýta sín kjarasamningsbundnu réttindi til launaðra námsleyfa sem og að hvetja starfsfólk til náms á vinnutíma. Innleiðing nýrrar tækni raungerist ekki án markvissrar þjálfunar starfsfólks.

 

Fjármögnun ævináms

Kostnaður við sí- og endurmenntun á ekki að leggjast á starfsfólk heldur koma úr sameiginlegum sjóðum. Tryggja þarf að starfsmenntasjóðir aðila vinnumarkaðarins, fræðslusjóður framhaldsfræðslukerfisins og fjármagn til opinberra fræðsluaðila sé nægilegt til að hægt sé að setja og fylgja eftir framsæknum markmiðum um sí- og endurmenntun.

 

Símenntun á launum

Nauðsyn er á myndarlegri fjárfestingu stjórnvalda í íslenskukennslu fyrir fólk með erlendan bakgrunn þar sem framlag á Íslandi er aðeins lítið brot af því sem það er á Norðurlöndunum. Þá krefst BSRB íslenskukennslu á vinnutíma án launaskerðingar fyrir fólk af erlendum uppruna.

Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að 60% launafólks fái sí- og endurmenntun á ári hverju. Ísland á langt í land með að ná því markmiði en samkvæmt tölum Hagstofunnar er hlutfallið hér á landi 25% á ári og aðeins 13% þegar litið er til starfsfólks sem aðeins hefur lokið grunnmenntun. Undirmönnun vinnur gegn möguleikum á að nálgast markmið Evrópusambandsins. Vinnustaðurinn verður að hafa svigrúm til að fólk geti sótt sér menntun á launum, hvort sem það sé á vinnutíma eða utan hans.

 

Fagháskólanám

BSRB krefst þess að fagháskólanám verði sérstakt skólastig. Vinna þarf áfram að uppbyggingu þess og að námið verði sjálfsagður hluti af formlega skólakerfinu og fjármagnað af hinu opinbera. Þá þarf það að vera tryggt að þau sem hafa lokið starfs- eða iðnnámi með námslokum á þriðja hæfniþrepi hafi tryggan aðgang að háskólanámi.

 

Starfsgreinaráð

Styrkja þarf hlutverk þeirra starfsgreinaráða sem fjalla um þau störf sem félagsfólk aðildarfélaga BSRB sinnir og búa ráðunum starfsaðstæður sem tryggja að þau geti sinnt hlutverkum sínum af metnaði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?