Menntamál

BSRB leggur áherslu á jafnrétti til náms óháð aðstæðum og leggst bandalagið gegn því að skólagjöld, hvaða nafni sem þau nefnast, séu lögð á í opinberum menntastofnunum. Námsgagnakostnaður við skyldunám á að greiðast alfarið úr sameiginlegum sjóði.

Hornsteinn hvers samfélags eru jöfn tækifæri til menntunar og fræðslu við hæfi að skyldunámi loknu. Menntun leiðir til jafnari tækifæra, framfara og hærra atvinnustigs landsmanna. Hún skilar sér í aukinni verðmætasköpun, auknum tekjum og leggur grunn að virkni og lengri veru fólks á vinnumarkaði. Menntun stuðlar að velferð og auknum tekjum fyrir hið opinbera og landsmenn alla.

BSRB leggur áherslu á að bandalagið og aðildarfélög þess séu virkir þátttakendur í umræðu og ákvörðunartöku um þróun og framvindu menntunar og fræðslu í landinu, jafnt í formlega og óformlega skólakerfinu.

BSRB, sem einn af aðilum vinnumarkaðarins, ber ríka ábyrgð á stefnumótun menntunar gagnvart stjórnvöldum. Nauðsynlegt er að ríki og sveitarfélög setji sér menntastefnu í ljósi breyttra atvinnuhátta og tæknivæðingar í góðu samstarfi við BSRB og aðildarfélög þess. Endurskoðun laga um framhaldsfræðslu er mikilvægur þáttur í því að auka fræðslumöguleika fólks á vinnumarkaði.

Tryggja þarf að fagháskólanám verði fjármagnað af hinu opinbera og verði sjálfsagður hluti af formlega skólakerfinu. Sjóðakerfi og opinber fjárframlög til hins óformlega skólakerfis, framhaldsfræðslunnar sem gjarnan er nefnd fimmta stoð menntakerfisins, verður að duga til að standa undir framsæknu starfi fræðslusetra, símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

BSRB leggur áherslu á gildi og mikilvægi menntunar og beitir sér fyrir því að stjórnir aðildarfélaganna, starfsmenn og þeir sem gefa kost á sér til félagsstarfa fái þá fræðslu og menntun sem nauðsynleg er.

BSRB styrkir aðildarfélögin í því mikilvæga verkefni að hækka menntunarstig félagsmanna sinna í samstarfi við atvinnurekendur. BSRB vill leggja sérstaka áherslu á að auka tækniþekkingu og tölvulæsi í takt við óskir félagsmanna og þarfir vinnumarkaðarins.

BSRB leggur áherslu á að félagsmenn aðildarfélaganna geti þróað starfshæfni sína og menntað sig þannig að þeir verði eftirsóknarverðir á vinnumarkaði alla sína starfsævi. Nauðsynlegt er að tryggja möguleika félagsmanna til að sækja sér starfs- og símenntun samhliða störfum sínum án launaskerðingar. BSRB vill beita sér fyrir því að námsleyfi verði sjálfsagður réttur félagsmanna aðildarfélaga BSRB. Slík réttindi þurfa að vera tryggð með kjarasamningum en samræmd á milli félaga.

BSRB vill tryggja jafnt aðgengi félagsmanna aðildarfélaga að raunfærnimati og náms- og starfsráðgjöf með aukinni kynningu og upplýsingagjöf til að ná til þeirra sem hafa minnstu formlegu menntunina. Þá leggur bandalagið ríka áherslu á að bæði ríki og sveitarfélög komi að uppbyggingu og rekstri fræðslusetra á sviði endur- og símenntunar sem hafa það hlutverk að greina og hanna menntunarleiðir fyrir félagsmenn aðildarfélaga BSRB, þeim að kostnaðarlausu. Starfs- og símenntunarmál verða að vera forgangsmál BSRB enda kallar vinnumarkaður framtíðarinnar á nýja hæfni og nýja hugsun.

BSRB telur nauðsynlegt að styrkja stöðu verk- og starfsnáms samhliða hefðbundnu bóknámi. Þannig þarf að styrkja hlutverk þeirra starfsgreinaráða sem fjalla um þau störf sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna og búa ráðunum starfsaðstæður sem tryggja að þau geti sinnt hlutverkum sínum af metnaði. Þá þarf að styrkja Vinnustaðanámssjóð og tryggja aðgengi félagsmanna aðildarfélaga BSRB að honum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?