Ráðningarsamningur

Atvinnurekendum er skylt að gera skriflega ráðningarsamninga við starfsfólk sitt. Laun og önnur starfskjör sem samið er um samkvæmt kjarasamningi eru lágmarkskjör starfsfólks. Samningar milli atvinnurekanda og starfsmanna um lakari kjör en kjarasamningur kveður á um eru því ávallt ógildir. Hér að neðan er fjallað ítarlega um þessa skyldu og þær reglur sem gilda um efni ráðningarsamninga.

Um ráðningarsamninga

  • Starfsmenn ríkisins

    Í 42. gr. starfsmannalaga segir að gerður skuli skriflegur ráðningarsamningur milli forstöðumanns stofnunar og starfsmanns þar sem meðal annars komi fram ráðningarkjör. Starfsmaður skal fá upplýsingar um skipunar- eða ráðningarkjör þegar honum er veitt staða hjá ríkinu. Í reglugerð 351/1996 er nánar kveðið á um framkvæmd þessa en reglugerðin gildir um aðra starfsmenn ríkisins en embættismenn.

    Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um lágmarksákvæði um ráðningarkjör. Þar segir að skriflegur ráðningarsamningur skuli gerður við starfsmann við upphaf ráðningar. Í honum þarf a.m.k. eftirfarandi koma fram:

    1. Deili á aðilum.
      a) Nafn, heimilisfang og kennitala stofnunar.
      b) Nafn, heimilisfang og kennitala starfsmanns.
    2. Vinnustaður. Sé ekki um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum og skulu þeir þá tilgreindir sérstaklega.
    3. Eðli starfs: Starfsheiti skv. kjarasamningi og tegund starfs sem starfsmaður er ráðinn í eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.
    4. Vinnutímaskipulag, þ.e. dagvinna, vaktavinna eða annað fyrirkomulag og þá hvers konar. Starfshlutfall og dagleg og/eða mánaðarleg vinnuskylda.
    5. Ráðning, þ.e. hvort ráðning er ótímabundin eða tímabundin.
    6. Upphafsdagur ráðningar.
    7. Starfslokadagur ef ráðning er tímabundin.
    8. Lífeyrissjóður.
    9. Stéttarfélag.
    10. Mánaðarlaun, t.d. með tilvísun til launataxta og aðrar greiðslur.
    11. Greiðslutímabil launa.
    12. Orlofsréttur.
    13. Uppsagnarfrestur af hálfu vinnuveitanda og starfsmanns.
    14. Réttur til launa í barnsburðarleyfi.
    15. Réttur til launa í veikindum.

    Upplýsingar skv. 11.- 15. tl. er heimilt veita með tilvísun til laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða kjarasamninga.

  • Lágmarksupplýsingagjöf við skipun í embætti

    Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar skal við skipun í embætti upplýsa með skriflegum hætti á sérstöku fylgiblaði eftirtalin atriði:

    1. Deili á aðilum.
    2. Vinnustaður. Sé ekki um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að embættismaður sé skipaður til starfa á mismunandi vinnustöðum.
    3. Titill, staða, eðli eða tegund embættis sem viðkomandi er skipaður til, eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu.
    4. Fyrsti starfsdagur.
    5. Lengd skipunar.
    6. Orlofsréttur.
    7. Frestur til að biðjast lausnar.
    8. Mánaðarlaun, t.d. með vísan til launataxta, úrskurðar Kjaradóms eða kjaranefndar, og aðrar greiðslur, svo og greiðslutímabil launa.
    9. Lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku.
    10. Lífeyrissjóður.
    11. Eftir atvikum tilvísun til úrskurðar Kjaradóms, kjaranefndar eða gildandi kjarasamnings hlutaðeigandi stéttarfélags.

    Upplýsingar skv. 6. - 9. tl. er heimilt veita með vísan til laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða kjarasamninga.

  • Starfsmenn sveitarfélaga

    Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB sem semja við Samband íslenskra sveitarfélaga er kveðið á um skyldu atvinnurekanda til að gera skriflegan ráðningarsamning við starfsmann. Í flestum þessara kjarasamninga er ákvæðið að finna í gr. 11.1.3.1. Í ákvæðinu er jafnframt vísað til samnings aðila um ráðningarsamninga og tilskipun. Hér er átt við tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi.

    Tilskipunin gildir um alla starfsmenn sem eru ráðnir samkvæmt ráðningarsamningi eða öðru ráðningarfyrirkomulagi. Tilskipunin gildir ekki um starfsmenn sem ráðnir eru til styttri tíma en eins mánaðar eða vinnuvikan er styttri en 8 klukkustundir eða tilfallandi starfa eða starfa af sérstökum toga enda liggi hlutlægar ástæður til grundvallar því að tilskipuninni verði ekki beitt.

    Atvinnurekanda ber skylda til að skýra starfsmanni frá helstu ákvæðum ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags. Í upplýsingunum skal a.m.k. koma fram:,

    1. deili á aðilum;
    2. vinnustaður; ef ekki er um fastan vinnustað að ræða, eða stað þar sem vinnan fer jafnaðarlega fram, skal koma fram að launþeginn sé ráðinn á mismunandi stöðum og heimilisfang skráðrar starfsstöðvar eða eftir atvikum lögheimili vinnuveitandans;
    3. titill, staða, eðli eða tegund starfs sem launþegi er ráðinn í, eða stutt útlistun eða lýsing á starfinu;
    4. upphafsdagsetning ráðningarsamnings eða ráðningarfyrirkomulags;
    5. þegar ráðningarsamningur eða ráðningarfyrirkomulag er tímabundið: hve langan tíma er áætlað að það vari;
    6. lengd launaðs orlofs sem launþegi á rétt á eða, sé það ekki ljóst þegar upplýsingarnar eru gefnar, reglur um úthlutun eða ákvörðun orlofs;
    7. lengd uppsagnarfrests sem vinnuveitandi og launþegi verða að virða komi til þess að ráðningarsamningi eða ráðningarfyrirkomulagi ljúki eða, sé það ekki ljóst þegar upplýsingarnar eru gefnar, reglur sem gilda þegar uppsagnarfrestur er ákveðinn;
    8. upphafsgrunnlaun, aðrir launaþættir sem launþegi á rétt á og hve oft launagreiðslur fara fram;
      a) lengd venjulegs vinnudags eða vinnuviku)
    9. eftir atvikum:
      a) tilvísun til almennra samninga sem taka til starfsskilyrða launþegans, eða
      b) þegar um er að ræða almenna samninga, sem hafa verið gerðir utan fyrirtækisins af sérstökum þar til bærum aðilum eða sameiginlegum stofnunum,heiti þar til bærs aðila eða sameiginlegrar stofnunar sem annaðist samningana.

    Atvinnurekanda er skylt að miðla upplýsingum innan tveggja mánaða frá því að starf hefst með skriflegum ráðningarsamningi eða ráðningarbréfi eða einu eða fleiri skriflegum skjölum. Ef ráðningarsambandi lýkur áður en tveggja mánaða fresturinn frá því starfið hófst rennur út skal atvinnurekandi veita starfsmanni upplýsingarnar við lok þess tímabils í síðasta lagi.
    Ef starfið sem ráðið er til er í öðru landi eða löndum skulu ofangreindar upplýsingar veittar áður en starfsmaður fer af landi brott. Til viðbótar skal sú upplýsingagjöf fela í sér upplýsingar um:

    1. hve lengi hann/hún mun starfa erlendis;
    2. hvaða gjaldmiðil á að nota við launagreiðslur;
    3. eftir því sem við á, hvaða bætur í peningum eða fríðindi tengjast starfi erlendis;
    4. eftir því sem við á, skilyrðin fyrir því að launþegi get snúið aftur til heimalandsins.

    Atvinnurekanda ber að skýra frá hverjum þeim breytingum sem kunna að verða á ráðningarsamningi með skriflegu skjali sem fyrst og ekki síðar en einum mánuði eftir að breytingin kemur til framkvæmda.

  • Starfsmenn á almennum vinnumarkaði

    Atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði ber skylda atvinnurekanda til að upplýsa um ráðningarkjör samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Lesa má nánar um þær skyldur í umfjölluninni hér að framan um starfsmenn sveitarfélaga. Almennt eru ákvæði þess efnis í kjarasamningum. Sé ekki að finna ákvæði þar um í kjarasamningi ber atvinnurekanda engu að síður skylda til að fylgja tilskipuninni þar sem hún hefur verið innleidd í landsrétt með kjarasamningum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?