Jafnréttismál

BSRB skal standa vörð um að allir atvinnurekendur fylgi eftir markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það felur m.a. í sér að komið verði á jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla á öllum sviðum þjóðfélagsins. Bandalagið á að tryggja að allir félagsmenn þess búi við jafnrétti á vinnumarkaði. Það er ekki eingöngu jafnréttismál heldur þjóðhagslega hagkvæmt að jafnrétti sé tryggt á vinnumarkaði. Þá er það grundvallaratriði að mati BSRB að við stefnumótun og áætlanagerð stjórnvalda sé jafnrétti haft að leiðarljósi.

Eitt af hlutverkum BSRB er að gæta þess og fylgja því eftir að gætt sé að mannréttindum. Hugtakið felur í sér að allir eiga rétt á að njóta mannréttinda án mismununar, eins og til að mynda vegna kynferðis, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, aldurs, trúar, tungumáls, búsetu, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, félagslegrar stöðu, fötlunar eða efnahags.

Starfsemi aðildarfélaga BSRB og skrifstofa bandalagsins skal endurspegla að unnið sé í samræmi við jafnréttislög.

Kynbundinn launamunur

Að mati BSRB er það forgangsverkefni stjórnvalda, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar að uppræta kynbundinn launamun. Kjarakannanir, m.a. aðildarfélaga BSRB, sýna fram á að kynbundinn launamunur er enn til staðar.

Kynbundinn launamunur hefur verið til umræðu hjá aðilum vinnumarkaðarins og stjórnvöldum um mjög langt skeið. Skipaðir hafa verið margir starfshópar og fjöldinn allur af sérfræðingum verið fengnir til að greina vandann sem löngu er orðinn ljós. Launaleynd heyrir söguninni til lögum samkvæmt en viðgengst engu að síður enn á vinnumarkaði. BSRB krefst þess stjórnvöld grípi til aðgerða gegn kynbundnum launamun. Lyfta þarf hulunni að launasetningu inn á vinnustöðum og gera stjórnendur ábyrga fyrir launajafnrétti í reynd. Jafnlaunastaðallinn er dæmi um tæki sem stjórnendur þurfa að nýta sér í ríkara mælti til að ná betri árangri í baráttunni gegn kynbundnum launamun.

Nauðsynlegt er að brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað með markvissum aðgerðum samtaka launafólks og stjórnvalda og jafna laun kynjanna og hafa verðmæti starfa þar að leiðarljósi.

Fjölskylduvænt samfélag

BSRB telur nauðsynlegt að byggja upp fjölskylduvænt samfélag sem gerir fólki kleift að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Fjölskylduvænt samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum og jafnri stöðu foreldra. Samhliða vinnu við að eyða launamun kynjanna verður að jafna stöðu foreldra við uppeldi barna og auka möguleika þeirra til að verja tíma með fjölskyldunni.

Nýlegar tölur sýna að feður taka síður fæðingarorlof nú eftir efnahagshrun en áður. Tilgangur fæðingarorlofslaganna er að tryggja samvistir beggja foreldra við barn sitt á fyrstu mánuðum ævi þess en vegna mikilla skerðinga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hafa færri nýtt rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Ljóst er að fæðingarorlofslögin ná ekki að þjóna tilgangi sínum eins og nauðsynlegt er. Brýnt er að lengja fæðingarorlofsrétt foreldra á vinnumarkaði samhliða því sem greiðsluþak fæðingarorlofssjóðs verði hækkað og lágmarksframfærsla tryggð. Jafnframt þarf að tryggja börnum örugga dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi foreldra, þar sem þarfir þeirra og fjölskyldna þeirra eru lagðar til grundvallar.

Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnarStytting vinnuvikunnar úr 40 stundum í 36 og stytting vinnutíma vaktavinnufólks eru grundvallarkröfur BSRB og mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag sem grundvallast á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Styttri vinnuvika leiðir til betri starfsánægju og aukinna afkasta, bættrar heilsu og meiri vellíðunar og stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna inn á heimilum. . BSRB telur mikilvægt að skoða fjölbreyttar lausnir varðandi sveigjanlegan vinnutíma. Sveigjanlegur og fyrirsjáanlegur vinnutími leikur að mati BSRB lykilhlutverk við að byggja upp fjölskylduvænt samfélag.

Nauðsynlegt er að taka til skoðunar samspil atvinnulífs, skóla og heimilis með það að leiðarljósi að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Fjölskyldufólk þarf að hafa meiri sveigjanleika í starfi til þess að samþætta atvinnu og fjölskyldulíf, t.d. með töku sérstakra frídaga til að koma til móts við vetrarfrí, starfsdaga og lokanir skóla. Mikilvægt er að atvinnurekendur axli ábyrgð og stjórnvöld, fulltrúar atvinnulífs og skóla klári það samtal sem þarf að eiga sér stað til að koma í veg fyrir síendurtekna árekstra vegna vetrarfría, sumarlokana og starfsdaga í skólum.

Miklu máli skiptir að launafólk geti brugðist við hinum ýmsu aðstæðum sem geta komið upp í einkalífi og hafi rétt til fjarvista frá vinnu vegna alvarlegra langvarandi veikindi barna án skerðingar á launum. Hið sama er að segja um lengingu lágmarksréttar foreldra til fjarvista vegna veikinda barna sem og vegna maka eða annarra náinna aðstandenda. Slík samþætting leiðir til aukinnar starfsánægju, bættrar frammistöðu, aukinna afkasta og minni starfsmannaveltu.

Tryggja verður að fólki standi sveigjanleg starfslok til boða þegar eftirlaunaaldur nálgast. Gera verður fólki kleift að minnka starfshlutfall og hefja töku lífeyris að hluta, hvort sem það kýs að gera það fyrr eða síðar á ævinni en nú er gert ráð fyrir.

Til að byggja upp fjölskylduvænt samfélag telur BSRB mikilvægt að í allri opinberri stefnumörkun og fjárhagsáætlanagerð séu jafnréttissjónarmið höfð að leiðarljósi.

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Kynbundin og kynferðisleg áreitni er viðvarandi vandamál í atvinnulífinu sem verður að uppræta. Samkvæmt jafnréttis- og vinnuverndarlögum hvílir sú skylda á atvinnurekendum að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að starfsfólk eða skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri eða kynbundinni áreitni á vinnustað. Mál af þessu tagi eru enn algeng og þörf er á vitundarvakningu gegn þessu alvarlega samfélagsmeini. BSRB lýstir sig reiðubúið til að vinna með stjórnvöldum að sérstakri aðgerðaáætlun til að stemma stigu við kynbundinni og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.

Við þurfum að breyta viðhorfum og tryggja að allir njóti virðingar. Það hvernig þjóðfélag við viljum búa við er á ábyrgð okkar allra.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?