Jafnréttismál

BSRB skal standa vörð um að stjórnvöld og atvinnurekendur vinni markvisst að jafnrétti með því að tryggja jöfn tækifæri og jafna möguleika fólks af öllum kynjum á vinnumarkaði. Sérstaklega þarf að tryggja jafna stöðu og möguleika með tilliti til fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kyntjáningar, kynvitundar, kyneinkennis, litarháttar, trúar, lífsskoðunar, tungumáls, búsetu, þjóðernisuppruna, félagslegrar stöðu eða efnahags. Þá skal bandalagið sérstaklega vinna að valdeflingu jaðarsettra hópa.

Jafnrétti skal haft að leiðarljósi í allri starfsemi BSRB. Bandalagið skal bjóða upp á öfluga jafnréttisfræðslu til aðildarfélaganna og félagsmanna, stuðla að því að allir vinni að þessu mikilvæga hagsmunamáli launafólks og að unnið sé í samræmi við þær reglur sem gilda um öryggi og jafnrétti á vinnumarkaði og í félagsstarfi.

Staða kynjanna á vinnumarkaði

Mikil kynjaskipting er helsti orsakavaldur launamunar kynjanna þar sem í fjölda starfsstétta er annað kynið í afgerandi meirihluta. Kynbundið náms- og starfsval leiðir af viðhorfum samfélagsins um hlutverk kynjanna og þeirra staðalímynda sem ríkja um stelpur og stráka, konur og karla. Atvinnuþátttaka kvenna er mjög há á Íslandi en rúmlega þriðjungur kvenna er í hlutastörfum vegna þess að þær axla meginábyrgð á fjölskyldu- og heimilisstörfum. Þá eru konur að jafnaði að minnsta kosti fjórfalt lengur frá vinnumarkaði í kjölfar barneigna heldur en karlar vegna fæðingarorlofstöku og brúun umönnunarbilsins fram að tryggri dagvistun. Það hefur verulega neikvæð áhrif á tekjur og starfsþróunarmöguleika kvenna. Loks er mikill munur milli kvenna og karla þegar kemur að valda- og áhrifastöðum þar sem hallar verulega á konur. Grípa verður til aðgerða á hverju sviði fyrir sig til að útrýma aðstöðumun kynjanna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði.

Fjölskylduvænt samfélag

Til að byggja upp fjölskylduvænt samfélag telur BSRB mikilvægt að í allri opinberri stefnumörkun og fjárhagsáætlanagerð sé unnið markvisst að jafnrétti í launuðum sem ólaunuðum störfum. Tryggja þarf jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og á vinnumarkaði. Nauðsynlegt er að stefna stjórnvalda hafi samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs að leiðarljósi. Samhliða vinnu við að eyða launamun kynjanna verður að jafna möguleika foreldra til að sinna umönnun barna sinna og auka möguleika þeirra til að verja gæðatíma með fjölskyldunni.

Fæðingarorlof og dagvistun

Brýnt er að lengja fæðingarorlofsrétt foreldra á vinnumarkaði í samtals 24 mánuði sem skipt er jafnt milli foreldra, samhliða því sem hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði hækkaðar og greiðslur sem samsvari lágmarkslaunum verði óskertar. Tryggja þarf réttindi barna þannig að einstæðir foreldrar fái fullan rétt til fæðingarorlofs. Veikist foreldrar í fæðingarorlofi skulu þeir eiga rétt á uppbót á fæðingarorlofi og endurskoða þarf viðmið greiðslna hjá foreldrum sem eiga börn með stuttu millibili. Þá er mikilvægt að verðandi foreldrum standi til boða fræðsla og stuðningur. Jafnframt þarf að lögfesta rétt barna til öruggrar gjaldfrjálsrar dagvistunar af hálfu hins opinbera strax að loknu fæðingarorlofi foreldra.

Efling fæðingarorlofsins er mikilvæg aðgerð til að tryggja jafna möguleika foreldra til samveru með barni sínu og jafnréttis kynjanna á vinnumarkaði. Það mun stuðla að því að fjarvera foreldra frá vinnumarkaði vegna barneigna verði jafn löng og áhrifin af tímabundnu brotthvarfi af vinnumarkaði þau sömu.

Stytting vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar er grundvallarkrafa BSRB og mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag sem grundvallast á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Lögfesta þarf styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir í dagvinnu og að vinnuvika vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks án launaskerðingar.

Styttri vinnuvika leiðir til betri starfsánægju og aukinna afkasta, minni streitu vegna samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs, bættrar heilsu og aukinnar vellíðunar. Hún stuðlar einnig að auknu jafnræði í ábyrgð á heimilis- og umönnunarstörfum, aukningu á atvinnuþátttöku kvenna og að konur leiti síður í hlutastörf vegna fjölskylduábyrgðar.

Sveigjanleiki í starfi

Nauðsynlegt er að taka til skoðunar samspil atvinnulífs, skóla og heimilis með það að leiðarljósi að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Fjölskyldufólk þarf að hafa meiri sveigjanleika í starfi til þess að samþætta atvinnu og fjölskyldulíf, til dæmis með launuðum frídögum til að koma til móts við vetrarfrí, starfsdaga og lokanir skóla. Samhliða þessu þarf að taka til skoðunar lengd vinnudags barna svo sem að heimanámi verði lokið á skólatíma og samfellu milli skóladags og tómstundastarfs. Mikilvægt er að atvinnurekendur axli ábyrgð og stjórnvöld, fulltrúar atvinnulífs og skóla klári það samtal sem þarf að eiga sér stað til að koma í veg fyrir síendurtekna árekstra af þessum toga.

Veikindi barna og náinna ættingja

Miklu máli skiptir að launafólk geti brugðist við hinum ýmsu aðstæðum sem geta komið upp í einkalífi og hafi rétt til fjarvista frá vinnu vegna alvarlegra langvarandi veikinda barna án skerðingar á launum. Hið sama gildir um aukningu á réttindum til fjarvista vegna veikinda barna með tilliti til fjölda þeirra og vegna foreldra, maka eða annarra náinna ættingja eða fjölskylduaðstæðna. Slík samþætting leiðir til aukinnar starfsánægju, bættrar frammistöðu, aukinna afkasta og minni starfsmannaveltu.

Kynbundin og kynferðisleg áreitni

Uppræta þarf kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi en rót þeirrar meinsemdar er misrétti og valdaójafnvægi kynjanna og jaðarsetning annarra kynjaðra hópa. Reynslan sýnir að jöfn staða og jafnir möguleikar allra innan vinnustaða koma ekki af sjálfu sér. Það þarf þekkingu, vilja og aðgerðir til að ná fram breytingum á þessu sviði. Samkvæmt jafnréttis- og vinnuverndarlögum bera atvinnurekendur ríka ábyrgð til að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að starfsfólk eða skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri eða kynbundinni áreitni eða öðru ofbeldi á vinnustað. Góð stjórnun og markviss samþætting jafnréttissjónarmiða með sérstakri áherslu á að uppræta valdamisræmi í hvers kyns ákvörðunartöku er lykillinn að því að áreitni og ofbeldi eigi sér ekki stað. Við verðum öll að taka þátt til að raunveruleg breyting á viðhorfum og menningu eigi sér stað.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?