Jöfnun lífeyrisréttinda

Fundur formannaráðs BSRB á Suðurnesjum september 2016BSRB hefur tekið þátt í vinnu við að samræma lífeyrisréttindi á almenna markaðnum og hinum opinbera allt frá árinu 2009 þegar aðilar á vinnumarkaði og stjórnvöld gerðu með sér stöðugleikasáttmála. Síðan þá hefur málið verið tekið upp á fundum með formönnunum og á þingum bandalagsins þar sem rætt var um allar hliðar málsins og fjallað um helstu vendingar hverju sinni. Niðurstaðan var alltaf sú sama; forystu bandalagsins var falið að halda viðræðum áfram og verja rétt okkar félagsmanna.

Stjórnvöld þurftu að gera breytingar á lífeyriskerfinu, enda stóðu opinberu lífeyrissjóðirnir ekki undir framtíðarskuldbindingum sínum. Ójafnvægi var milli eigna og skuldbindinga hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Brú lífeyrissjóði. A-deild beggja sjóða hafði verið utan vikmarka án lagaheimildar í nokkur ár. Uppsöfnuð iðgjaldaþörf var því orðin um 20-21% á hvern sjóðfélaga. Það er það iðgjald sem hefði þurft til að sjóðurinn stæði undir framtíðarskuldbindingum sínum. Ef viðhalda hefði átt óbreyttu kerfi hefði þurft að hækka iðgjald launagreiðenda úr 11,5% í um það bil 17% og heildariðgjaldið færi þannig í um það bil 21% af heildarlaunum. Þannig hefði heildarlaunakostnaður launagreiðanda vegna starfsmanna hækkað um um það bil 5,5%. Það var beinlínis óheimilt samkvæmt lögum að halda áfram rekstri sjóðanna með óbreyttum hætti.

 

Samkomulag undirritað

Staðreyndin var því sú að það var búið að ákveða að gera breytingar á kerfinu hvort sem BSRB tæki þátt í ferlinu eða ekki. Val bandalagsins stóð því á milli þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöðuna, félagsmönnum til hagsbóta, eða standa utan við ferlið vitandi að stjórnvöld myndu setja einhliða lög um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Ákveðið var að velja fyrri leiðina. Markmið BSRB í viðræðunum var að tryggja að áunnin réttindi myndu ekki skerðast og að hagsmuna framtíðarfélaga í sjóðunum yrði gætt.

Eftir margra ára vinnu var komið að tímamótum haustið 2016 þegar unnið var að samkomulagi milli bandalaga opinberra starfsmanna annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Tilboðið sem var til umræðu fól í sér að núverandi sjóðfélagar myndu halda jafn verðmætum réttindum fyrir og eftir breytingar. Það yrði tryggt með fjárframlagi til svonefndra lífeyrisaukasjóða og varúðasjóða. Jafnframt yrði launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins jafnaður á næstu 6-10 árum.

Málið var rætt á tveggja daga fundi formannaráðs BSRB í september 2016. Eftir ítarlega yfirferð var ljóst að ekki næðist samstaða innan bandalagsins í málinu og því ákveðið að greiða atkvæði um framhald málsins. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð sú að 22 formenn greiddu atkvæði með því að skrifa undir samkomulagið en formenn fjögurra félaga greiddu atkvæði gegn því. Þar með hafði formannaráð BSRB falið formanni bandalagsins að skrifa undir samkomulagið.

Það var síðar staðfest með lögfræðiáliti sem Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður vann fyrir bandalagið að formanni BSRB var skylt að undirrita samkomulagið í samræmi við þennan skýra vilja stórs meirihluta formannaráðs bandalagsins.

 

Frumvarpið endurspeglaði ekki samkomulagið

Í kjölfar undirritunar samkomulagsins fór af stað vinna í fjármálaráðuneytinu við frumvarp sem byggja átti á innihaldi þess. Þegar frumvarpið leit dagsins ljós kom í ljós að það endurspeglaði ekki að öllu leyti innihald samkomulagsins. Það var samhljóma álit BSRB, BHM og KÍ, en því mótmæltu bæði stjórnvöld og fulltrúar sveitarfélaganna. Ábendingar um hvernig laga mætti frumvarpið svo það endurspeglaði samkomulagið voru að engu hafnar, bæði af fjármálaráðherra og Alþingi, þrátt fyrir að fulltrúar BSRB mættu á fundi þingnefndar til að fara yfir málið.

Frumvarpið varð að lögum á Þorláksmessu 2016 en flest ákvæði laganna tóku gildi 1. júní 2017. Ástæðan fyrir því að þau tóku ekki gildi strax, eða um áramótin 2016-2017, er sú að lífeyrissjóðirnir þurftu tíma til að breyta samþykktum sínum.

Breytingarnar sem leiða af lögunum eru þær að A-deildirnar starfa eftir lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þannig gilda sömu reglur um lágmarksréttindi og starfsemi sjóðanna á almennum og opinberum vinnumarkaði varðandi A-deildir þeirra. Breytingarnar hafa engin áhrif á B-deildir sjóðanna né V-deild Brúar lífeyrissjóðs.

Núverandi sjóðfélagar eiga eftir breytingar enn rétt til jafnrar ávinnslu réttinda og viðmiðunaraldur lífeyristöku er 65 ára. Allir nýir sjóðfélagar sem koma inn í sjóðinn 1. júní 2017 eða síðar fara í nýtt kerfi þar sem ávinnslan er aldurstengd og viðmiðunaraldur lífeyristöku er 67 ár.

Ríki og sveitarfélög lögðu fram alls 164,7 milljarða króna til að tryggja að núverandi sjóðfélagar haldi jafn verðmætum réttindum. Óbein bakábyrgð launagreiðenda á A-deildum var jafnframt afnumin fyrir alla sjóðfélaga sem eru yngri en 60 ára þann 1. júní 2017. Þeir sem eru 60 ára eða eldri á þeim tímapunkti njóta bakábyrgðar ríkisins á réttindum sínum. Þá verður sú sérregla sem gildir um lögreglumenn óbreytt. Öllum lögreglumönnum sem eru leystir frá embætti sínu við 65 ára aldur skal reiknaður ellilífeyrir eins og þeir hefðu starfað til 70 ára aldurs

Í lögum eru settar þær lágmarkskröfur sem lífeyrissjóðir þurfa að uppfylla, en þeim er jafnframt heimilt að ganga lengra og veita sínum félagsmönnum meiri réttindi. Ef þeir gera það er kveðið á um það í samþykktum sjóðanna, sem eru þær reglur sem kveða á um meðal annars réttindi sjóðfélaga. BSRB hafði aðkomu að þeirri vinnu og fékk Gest Jónsson hæstaréttarlögmann til að fara yfir samþykktirnar fyrir samþykkt þeirra til að tryggja að þær væru í samræmi við lögin. Fjármálaráðherra þarf að staðfesta samþykktir sjóðanna, að fenginni umsögn frá Fjármálaeftirlitinu.

 

Áunnin réttindi átti ekki að skerða

Frá upphafi var gengið út frá því í samningaviðræðum bandalaga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög að réttindi þeirra sem greitt hafi í opinberu lífeyrissjóðina yrðu jafn verðmæt eftir breytingarnar og þau voru fyrir. Það varð niðurstaðan og skýrt kveðið á um það í því samkomulagi sem undirritað var í september 2016.

Það sem útaf stóð eftir lagabreytingar voru réttindi sjóðfélaga sem byggja á óbeinni bakábyrgð. Sú ábyrgð var afnumin með lögunum, en hún er einn af þremur meginþáttum sem réttindi núverandi sjóðfélaga byggja á. Þar af leiðandi hefði átt að bæta það að hún var felld niður með einhverjum hætti til að samkomulag um að réttindin yrðu jafn verðmæt fyrir og eftir breytinguna væri virt. Í lögunum er skýrt að bakábyrgð þeirra sem eru 60 ára og eldri haldi sér. Þeir sem yngri eru missa því bakábyrgðina án þess að það sé bætt á nokkurn hátt.

Þetta þýðir ekki að þessi hópur muni verða fyrir tjóni. Til að það gerist þurfa lífeyrissjóðirnir að verða fyrir stóru áfalli. Lögum samkvæmt skulu lífeyrissjóðir lækka réttindi ef rekstur sjóðsins er neikvæður um 10% í eitt ár, eða um 5% samfleytt fimm ár í röð. Þá kemur á móti sú staðreynd að ef ávöxtun lífeyrissjóðanna er góð getur þessi hópur fengið aukin réttindi.

Þau svik af hálfu stjórnvalda og Alþingis sem BSRB upplifði í þessu mikilvæga máli settu samskipti bandalagsins við stjórnvöld í fullkomið uppnám. Bandalögin þrjú sem undirrituðu samkomulagið hafa nú ákveðið að kanna lögmæti lagasetningarinnar. Þá verður haldið áfram að berjast fyrir því að stjórnvöld standi að fullu við samkomulagið.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?