45. þing BSRB 17. til 19. október 2018

Forsíðumynd 45. þings BSRB

 

45. þing BSRB fór fram dagana 17. til 19. október 2018 á Hilton hótel Nordica í Reykjavík. Alls voru 199 fulltrúar á þinginu sem að þessu sinni fór fram undir yfirskriftinni Bætt lífskjör - Betra samfélag. Á þinginu fór fram vinna við endurskoðun stefnu bandalagsins, samþykktar voru ályktanir og kosin ný forysta bandalagsins.

 

Kallaði eftir ábyrgð stjórnenda

Elín Björg Jónsdóttir ávarpar þing BSRB

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, setti 45. þing BSRB, en fyrir þingið hafði hún upplýst að hún hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Í opnunarávarpi Elínar Bjargar kallaði hún meðal annars eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og sagði þann samhug sem ríkti í íslensku samfélagi eftir bankahrunið haustið 2018 vera að hverfa.

„Við sjáum svo nú að stjórnendur margra stórra fyrirtækja virðast ekkert hafa lært af hruninu, annað en kannski að senda ekki viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti. Þeir virðast enn halda að það sé ásættanlegt að greiða stjórnendum háa bónusa fyrir það eitt að sinna sínum störfum. Bónusa sem leggjast ofan á laun langt umfram það sem venjulegt launafólk getur látið sér detta í hug. Stjórnvöld hafa svo fylgt eftir með gríðarlegar launahækkanir æðstu stjórnenda,“ sagði Elín Björg.

„Það er þetta sem sýnir okkur svart á hvítu að það eru ekki allir að róa í sömu átt í samfélaginu. Á meðan sumir vilja bæta hag samfélagsins alls, hugsa aðrir um það eitt að skara eld að eigin köku. BSRB kallar eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu. Það verður aldrei sátt í okkar samfélagi á meðan bætt kjör og betri lífsgæði eiga bara við um suma en ekki alla.“

Hér má lesa ávarp Elínar Bjargar í heild sinni.

Hægt er að horfa á opnunarathöfn þingsins, öll ávörp og umfjöllun um styttingu vinnuvikunnar á YouTube rás BSRB.


Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra

Karín Jakobsdóttir ávarpar þing BSRB

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þingið við setningu þess. Þar fór hún yfir stöðuna í kjaramálum og samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. En hún ræddi líka um mikilvæg opinberra starfsmanna. „Stundum er talað illa um hið opinbera kerfi og látið eins og þar sitji fólk og nagi blýanta á kostnað skattgreiðenda. Það er ekki svo. Það skiptir nefnilega máli hvernig við tölum um hlutina. Fólki í hinu opinbera kerfi sinnir hinu mikilvæga hlutverki almannaþjónustu. Það er mín skoðun að almannaþjónustan sé ein af undirstöðum lýðræðisríkisins,“ sagði Katrín meðal annars í ávarpi sínu.

Hér má lesa ávarp Katrínar í heild sinni.

 

Ávarp Gylfa Arnbjörnssonar forseta ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson ávarpar þing BSRB

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, ávarpaði þingið og flutti þingfulltrúum kveðju frá félögum þeirra í ASÍ. Hann fór yfir hvernig til tókst við að verja velferðarkerfið í hruninu og hvernig reynt hafi verið að tryggja að slík staða komi ekki upp aftur. „Hér hafa samtök okkar, það er ASÍ og BSRB, staðið þétt saman eins og klettur í samskiptum við stjórnvöld með kröfuna um að jafnræði verði á milli efnahagslegs og félagslegs stöðugleika,“ sagði Gylfi í ávarpi sínu.

Hér má lesa ávarp Gylfa í heild sinni.

 

Ávarp Jorun Berland, formanns YS í Noregi

Jorun Berland ávarpar þing BSRB

Jorunn Berland, formaður YS í Noregi, ávarpaði þingið og sagði þar styrk BSRB í alþjóðlegu samhengi meiri en félagafjöldinn gefi til kynna. Það sé gríðarlegur styrkur þegar um 90 prósent launafólks sé í stéttarfélagi. „Það segir mikið um íslenskt hugarfar, um samstarfið, samstöðuna og traustið, að byggja samfélag þar sem allir eiga sinn sess og allir eru með. Þetta er kjarninn í norræna módelinu sem er okkur svo mikilvægt og sem hefur gert samfélög Norðurlanda að því sem þau eru í dag. Við trónum efst í öllum alþjóðlegum mælingum á velmegun, framþróun og lýðræði. Það er engin tilviljun. En nú er þrengt að norræna módelinu úr ýmsum áttum en þar má nefna hnattvæðingu, einstaklingsvæðingu, stafræna væðingu, sjálfvirknivæðingu og vaxandi ójöfnuð. Í þeirri baráttu eru samtök launafólks í fylkingarbrjósti,“ sagði Jorun.

Hér má lesa ávarp Jorunar í heild sinni.

 

Stytting vinnuvikunnar

Erindi um styttingu vinnuvikunnar

Stytting vinnuvikunnar var í forgrunni við setningu þingsins en þar voru kynntar niðurstöður úr tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar sem BSRB hefur tekið þátt í ásamt Reykjavíkurborg annars vegar og ríkinu hins vegar. Niðurstöðurnar voru meðal annars þær að stytting vinnuvikunnar hafi almennt haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan starfsmanna, gert starf á vinnustöðum markvissara og dregið úr veikindum.

Að loknu erindi um þessar afar jákvæðu niðurstöður og reynslusögur þátttakenda í tilraunaverkefnunum var stutt umræða á borðum. Afrakstur þeirrar vinnu var tekin saman í lok umræðna og settur inn í þann málefnahóp sem fjallaði um styttingu vinnuvikunnar til frekari úrvinnslu.

 

Pallborðsumræður

Pallborðsumræður

Við upphaf annars dags þingsins fóru fram pallborðsumræður um bætt lífskjör og betra samfélag í aðal salnum. Þátttakendur í umræðunum voru þau Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri, Rannveig Sigurðardóttir aðstoðarseðlabankastjóri, Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins. Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona og annar umsjónarmanna Silfursins stýrði umræðunum.

Þátttakendur fóru yfir stöðuna á vinnumarkaði almennt, stöðuna í efnahagsmálum og fleira í fjörugum umræðum. Þeirra innlegg nýttist svo í umræðum um þessi mál í málstofunum síðar um daginn.

 

Málefnahópar

Vinna í einum málefnahópanna

Þingið var afar vinnusamt, en meðal verkefna þingfulltrúa var að fara yfir stefnu BSRB og uppfæra hana í takti við nýja tíma og breyttar áherslur. Þingfulltrúum var skipt í fjóra málefnahópa með tæplega 50 í hverjum hópi, auk þess sem hluti þeirra sat í kjörnefnd sem hafði umsjón með kosningum. Umgjörð hópanna var svipuð; utanaðkomandi sérfræðingar voru með framsögur sem síðan urðu upplegg í umræðu og borðavinnu.

 • Í málefnahópi um vinnumarkaðinn og starfsumhverfi starfsmanna í almannaþjónustu var fjallað um starfsumhverfið og kjaramál opinberra starfsmanna, þar með talið launaþróunartryggingu, jöfnun launa á milli markaða og skattamál. Úr vinnu hópsins var unnin stefna í efnahags- og skattamálum, um starfsumhverfið, atvinnumál, kjaramál, lífeyrismál og fleira.
 • Málefnahópur um vinnumarkað framtíðarinnar reyndi að horfa í kristalskúluna og átta sig á framtíðarverkefnum BSRB og verkalýðshreyfingarinnar. Þar var áherslan á stafrænan vinnumarkað, menntamál og umhverfismál og stefna bandalagsins í þessum málaflokkum endurskoðuð.
 • Fjallað var um heilbrigðismál og almannaþjónustuna í málefnahópi um velferðarmál, en þar voru einnig tekin fyrir húsnæðismál, félagslegur stöðugleiki og norræna velferðarkerfið. Hópurinn endurskoðaði stefnu BSRB í heilbrigðismálum, almannatryggingar, almannaþjónustuna, húsnæðismál og fleira.
 • Síðasti málefnahópurinn, málefnahópur um fjölskylduvænna samfélag, tók fyrir mikilvæg málefni á borð við styttingu vinnuvikunnar, fæðingarorlofsmálin, dagvistunarmál og jafnréttismál. Þar var stefna bandalagsins í þessum málaflokkum endurskoðuð og endurbætt.

Ný og endurbætt stefna BSRB hefur verið gefin út í bæklingi auk þess sem hún er aðgengileg á vef bandalagsins. Þar má einnig finna þær tíu ályktanir um ólík mál sem þingið samþykkti. Þingið ályktaði meðal annars um styttingu vinnuvikunnar, #metoo, menntamál, húsnæðismál og efnahags- og skattamál, svo einhver dæmi séu tekin.

 

Stefna og ályktanir

Stefna BSRBVinnan í málefnahópunum gaf af sér nýja og endurskoðaða stefnu auk ályktana. Stefnan hefur verið gefin út í bæklingi auk þess sem hún er aðgengileg á vef bandalagsins. Þar er sett fram stefna bandalagsins til næstu þriggja ára í alls 14 málaflokkum. Flokkarnir eru:

 • Almannatryggingar
 • Almannaþjónusta
 • Almannaöryggi
 • Atvinnumál
 • Efnahags- og skattamál
 • Heilbrigðismál
 • Húsnæðismál
 • Jafnréttismál
 • Kjaramál
 • Lífeyrismál
 • Menntamál
 • Starfsumhverfi starfsfólks í almannaþjónustu
 • Umhverfismál
 • Velferðarmál

Þingið samþykkti einnig tíu ályktanir um ólík mál. Þingið ályktaði meðal annars um styttingu vinnuvikunnar, #metoo, menntamál, húsnæðismál og efnahags- og skattamál, svo einhver dæmi séu tekin. Allar ályktanir þingsins má finna í safni ályktana bandalagsins.

 

Kosningar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB

Á þingum BSRB er kosið um embætti formanns ásamt 1. og 2. varaformanns, auk þess sem kosið er um aðal- og varamenn í stjórn. Elín Björg Jónsdóttir, sem hafði gegnt embætti formanns frá árinu 2009, gaf ekki kost á sér í embætti formanns áfram. Tveir gáfu kost á sér í embættið, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Vésteinn Valgarðsson, trúnaðarmaður hjá SFR. Sonja hlaut 86,3 prósent atkvæða og er því réttkjörinn formaður bandalagsins til ársins 2021.

Garðar Hilmarsson, þá formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar en síðar varaformaður Sameykis, var kjörinn 1. varaformaður BSRB og Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar – Stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu, 2. varaformaður.

Formaður og varaformenn eiga sæti í stjórn bandalagsins. Auk þeirra kaus þingið sem meðstjórnendur þau Árna Stefán Jónsson, þá formann SFR en síðar formann Sameykis, Helgu Hafsteinsdóttur, formann Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu, Karl Rúnar Þórsson, formann Starfsmannafélags Hafnarfjarðar, Söndru B. Franks, formann Sjúkraliðafélags Íslands, Snorra Magnússon, formann Landssambands lögreglumanna og Jón Inga Cæsarsson, formann Póstmannafélags Íslands.

Þá voru kjörnir fjórir varamenn í stjórn BSRB, þau Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins, Rita Arnfjörð, formaður Starfsmannafélags Kópavogs, Magnús Smári Smárason, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, og Birna Friðfinnsdóttir, formaður Tollvarðafélags Íslands.

Stjórn BSRB

Á þinginu var notast við rafrænt kosningakerfi þar sem þingfulltrúar gátu greitt atkvæði í snjalltækjum og tölvum. Það gekk almennt vel þó ákveðnir byrjunarörðugleikar hafi gert vart við sig, auk þess sem netsamband á hótelinu átti á tímabili erfitt með að ráða við álagið.

 

Eftirfylgni

Að þinginu loknu lét BSRB gera könnun meðal þingfulltrúa til að fá fram þeirra skoðanir á þinginu, hvað hafi gengið vel og hvað hefði betur mátt fara. Það reyndist afar gagnlegt. Þannig leiddi könnunin í ljós að nær allir þingfulltrúar voru ánægðir með þingið í heild. Þegar spurt var hvað hafi staðið upp úr nefndu flestir skipulagið, góðar umræður og málefnin. Það sem einkum var nefnt þegar spurt var hvað hefði betur mátt fara var hversu langir dagarnir hafi verið, tíminn sem fór í kosningarnar og að þingið hafi hitt á daga þar sem var vetrarfrí í grunnskólum borgarinnar.

Niðurstöðurnar voru almennt afar jákvæðar en eins og alltaf má eitthvað betur fara og því hjálplegt við undirbúning næsta þings að hafa þessar niðurstöður til að vinna með. Þing BSRB eru haldin þriðja hvert ár og því stefnt að því að halda 46. þing bandalagsins í október 2021.

Þingfulltrúar greiða atkvæði

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?