Veikindi og lausnarlaun

Þegar opinber starfsmaður verður fyrir langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa getur komið til umræðu að veita honum lausn frá störfum, með vísan til greinar í kjarasamningi þar um. Um embættismenn gilda sambærilegar reglur, sbr. 30. gr. starfsmannalaga. Þegar starfsmanni er veitt lausn á grundvelli ákvæðisins heldur hann föstum launum sínum í þrjá mánuði eftir að hann honum er veitt lausn frá störfum eða embætti. Það sama gildir um greiðslu til maka látins starfsmanns eða embættismanns.

Lausn frá störfum vegna heilsubrests getur orðið við þrenns konar aðstæður og verður hér fjallað nánar um þær hér að neðan.

Veikindi og lausnarlaun

 • Lausn frá störfum vegna langvarandi óvinnufærni

  Ef starfsmaður hefur verið samfellt frá störfum vegna veikinda eða slysa launalaust í jafn langan tíma og hann átti rétt til launa í veikindum má leysa hann frá störfum. Starfsmaður sem lendir í svo löngum veikindum og hefur þar af leiðandi tæmt veikindarétt sinn myndi geta leitað til sjúkrasjóðs síns stéttarfélags eftir að launuðum veikindum lýkur áður en lausnarlaun koma til. Þó mætti veita starfsmanni lausn fyrr ef sýnt yrði fram á veikindi séu þess eðlis að vinnufærni verði ekki náð, t.d. með vottorði læknis.

 • Lausn frá störfum vegna endurtekinnar óvinnufærni

  Ef starfsmaður hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil og ekki fyrir séð að hann hafi fengið heilsubót má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Um er að ræða óljósara og þar með matskenndari reglu en hér að ofan, en gera má ráð fyrir því að fjarvistir starfsmanns vegna veikinda þurfi að vera talsverðar svo ákvæðið geti komið til.

 • Starfsmaður óskar sjálfur eftir lausn frá störfum

  Ef starfsmaður er varanlega ófær um að gegna starfi sínu vegna vanheilsu og það hefur fengið staðfest með vottorði læknis getur starfsmaðurinn sjálfur óskað eftir lausn frá störfum. Þar með þarf ekki að bíða með slíka lausn eins og samkvæmt hinum tveimur leiðunum hér að ofan og lausn gæti þar með gerst um leið og starfsmaður tæmir sinn veikindarétt, kjósi starfsmaður að óska eftir lausn frá störfum. Rétt er þó að starfsmaður leiti fyrst til síns stéttarfélags og fái úr því skorið hvort hann eigi frekari réttindi þangað að sækja, eins og t.d. í sjúkrasjóð, áður en hann fer fram á lausn frá störfum vegna varanlegrar óvinnufærni.

 • Ákvörðun um lausn frá störfum eða embætti er stjórnvaldsákvörðun

  Ákvörðun um að veita starfsmanni eða embættismanni lausn er stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga. Þar með þarf að veita starfsmanni andmælarétt og gæta að öðrum reglum stjórnsýslulaga, sbr. Hrd. 236/2012 þar sem fangaverði var veitt lausn úr embætti eftir veikindi en honum ekki veittur andmælaréttur eða rannsóknarreglu fylgt, en fangaverðir teljast til embættismanna samkvæmt starfsmannalögum. Þar sem málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga var ekki fylgt braut málsferðin gegn stjórnsýslulögum og embættismissir fangavarðarins þar með talinn ólögmætur. Honum voru því dæmdar bætur að álitum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?