Veikindi og lausnarlaun

Þegar opinber starfsmaður verður fyrir langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa getur komið til umræðu að veita honum lausn frá störfum, með vísan til greinar í kjarasamningi þar um. Um embættismenn gilda sambærilegar reglur, sbr. 30. gr. starfsmannalaga. Þegar starfsmanni er veitt lausn á grundvelli ákvæðisins heldur hann föstum launum sínum í þrjá mánuði eftir að hann honum er veitt lausn frá störfum eða embætti. Það sama gildir um greiðslu til maka látins starfsmanns eða embættismanns.

Lausn frá störfum vegna heilsubrests getur orðið við þrenns konar aðstæður og verður hér fjallað nánar um þær hér að neðan.

Veikindi og lausnarlaun

  • Lausn frá störfum vegna langvarandi óvinnufærni

    Ef starfsmaður hefur verið samfellt frá störfum vegna veikinda eða slysa launalaust í jafn langan tíma og hann átti rétt til launa í veikindum má leysa hann frá störfum. Starfsmaður sem lendir í svo löngum veikindum og hefur þar af leiðandi tæmt veikindarétt sinn myndi geta leitað til sjúkrasjóðs síns stéttarfélags eftir að launuðum veikindum lýkur áður en lausnarlaun koma til. Þó mætti veita starfsmanni lausn fyrr ef sýnt yrði fram á veikindi séu þess eðlis að vinnufærni verði ekki náð, t.d. með vottorði læknis.

  • Lausn frá störfum vegna endurtekinnar óvinnufærni

    Ef starfsmaður hefur verið óvinnufær vegna veikinda eða slysa svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil og ekki fyrir séð að hann hafi fengið heilsubót má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Um er að ræða óljósara og þar með matskenndari reglu en hér að ofan, en gera má ráð fyrir því að fjarvistir starfsmanns vegna veikinda þurfi að vera talsverðar svo ákvæðið geti komið til.

  • Starfsmaður óskar sjálfur eftir lausn frá störfum

    Ef starfsmaður er varanlega ófær um að gegna starfi sínu vegna vanheilsu og það hefur fengið staðfest með vottorði læknis getur starfsmaðurinn sjálfur óskað eftir lausn frá störfum. Þar með þarf ekki að bíða með slíka lausn eins og samkvæmt hinum tveimur leiðunum hér að ofan og lausn gæti þar með gerst um leið og starfsmaður tæmir sinn veikindarétt, kjósi starfsmaður að óska eftir lausn frá störfum. Rétt er þó að starfsmaður leiti fyrst til síns stéttarfélags og fái úr því skorið hvort hann eigi frekari réttindi þangað að sækja, eins og t.d. í sjúkrasjóð, áður en hann fer fram á lausn frá störfum vegna varanlegrar óvinnufærni.

  • Ákvörðun um lausn frá störfum eða embætti er stjórnvaldsákvörðun

    Ákvörðun um að veita starfsmanni eða embættismanni lausn er stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga. Þar með þarf að veita starfsmanni andmælarétt og gæta að öðrum reglum stjórnsýslulaga, sbr. Hrd. 236/2012 þar sem fangaverði var veitt lausn úr embætti eftir veikindi en honum ekki veittur andmælaréttur eða rannsóknarreglu fylgt, en fangaverðir teljast til embættismanna samkvæmt starfsmannalögum. Þar sem málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga var ekki fylgt braut málsferðin gegn stjórnsýslulögum og embættismissir fangavarðarins þar með talinn ólögmætur. Honum voru því dæmdar bætur að álitum.

  • Hafa lausnarlaun þau áhrif að starfsmaður geti ekki fengið starf á ný ef hann öðlast aftur vinnufærni?

    Starfsmaður sem hefur þurft að láta af störfum vegna veikinda og fengið lausnarlaun getur fengið starf hjá sama atvinnurekanda nái hann heilsu á ný, þrátt fyrir lausnarlaunin. Um það hefur verið deilt en nú hefur þessi skilningur BSRB verið staðfestur af dómstólum og með áliti umboðsmanns Alþingis.

    Undanfarin ár hafa komið upp álitamál þar sem atvinnurekendur opinberra starfsmanna hafa talið lausnarlaun jafngilda því að starfsmenn geti ekki fengið aftur störf hjá sama eða öðrum opinberum atvinnurekanda, ef hann endurheimtir sína vinnufærni eftir veikindi. Um þetta hefur verið deilt lengi en nýlega dró til tíðinda í réttarframkvæmd hvað þetta álitamál varðar, annars vegar með áliti umboðsmanns Alþingis og hins vegar þegar dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þar sem á þetta reyndi.

    Í báðum tilvikum var um að ræða starfsmenn sveitarfélaga sem höfðu þegið lausnarlaun og síðar endurheimt heilsu sína og vinnufærni. Þeir höfðu sótt um auglýst störf hjá sínum fyrrum atvinnurekanda en í kjölfarið tjáð að atvinnuumsóknir þeirra yrðu ekki teknar til greina þar sem þeir hafi fyrirgert rétti sínum til starfa hjá sveitarfélaginu með því að þiggja lausnarlaun. Það skal tekið fram að í þessum tveimur málum var ekki um að ræða sama sveitarfélagið.

    Niðurstaða beggja mála, þ.e. bæði í dómsmálinu og í áliti umboðsmanns Alþingis, var að með því að taka ekki atvinnuumsóknir þeirra til greina hefðu sveitarfélagið brotið á þessum einstaklingum. Það má því fullyrða að búið sé að eyða þeirri óvissu hvort það að þiggja lausnarlaun vegna veikinda komi til með að hafa áhrif á réttarstöðu starfsmanna síðar, ef þeir endurheimta sína heilsu og hyggjast ætla að sækja um störf hjá sama eða öðrum opinberum atvinnurekanda. Þetta er afar ánægjulegt, enda hefur það reynst fólki afar þungbært að fá slíka höfnun eftir að hafa sigrast á sínum veikindum og endurheimt sína heilsu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?