Saga BSRB

BSRB eru stærstu hagsmunasamtök opinberra starfsmanna á Íslandi. Gjaldgengir meðlimir í aðildarfélög BSRB eru allir þeir sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum. Þá eiga þeir einnig rétt til aðildar sem vinna hjá stofnunum og fyrirtækjum sem starfa í almannaþágu en eru ekki rekin af opinberum aðilum.

Nokkrir þættir úr sögu BSRB

 • Nýr kraftur í kjarabaráttuna

  Bandalag starfsmanna ríkis og bæja var stofnað í Reykjavík 14. febrúar árið 1942. Stofnfélögin voru 14 og höfðu á að skipa um 1.550 félagsmönnum. Tildrögin að stofnun bandalagsins voru ríkjandi dýrtíð allt frá 1939 sem rekja má til heimsstyrjaldarinnar síðari og nánasta aðdraganda hennar. Umræðan um nauðsyn heildarsamtaka var þegar hafin um sumarið 1939. Stórt skref á þeirri braut var svo stigið 28. janúar 1941 er fulltrúaráði félaga opinberra starfsmanna var komið á fót. Hlutverk þess var að koma á framfæri sameiginlegum kröfum félaganna og vinna að stofnun heildarsamtaka.

  Tilkoma BSRB hleypti nýjum krafti í kjarabaráttu opinberra starfsmanna sem varð hvort tveggja í senn, öflugri og sýnilegri en fyrr. Þegar á fyrstu starfsárunum náðu BSRB og aðildarfélögin umtalsverðum árangri í réttinda- og kjaramálum. Skýrt dæmi þar um eru lög um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins frá árinu 1943. Fyrir nýstofnuð samtök var lífeyrissjóðslöggjöfin mikill sigur og sést ef til vill best á því að það var ekki fyrr en aldarfjórðungi síðar að farið var að stofna almenna lífeyrissjóði fyrir launafólk.

 • Kjör ákveðin á Alþingi

  Samningsréttur og verkfallsréttur, líkt og tíðkaðist á hinum almenna vinnumarkaði, voru á stefnuskrá BSRB frá stofnun en ekkert þokaðist á þeim vettvangi fyrstu tvo áratugina. Kjör flestra opinberra starfsmanna voru því sem fyrr ákveðin með lagasetningu á Alþingi. Fyrir tilstilli BSRB og í samvinnu við ríkisvaldið tóku ný launalög gildi árið 1945. Lögin voru mikið framfaraskref enda leystu þau af hólmi löngu úrelt lög frá árinu 1919. Í þeim fólust margvíslegar réttar- og kjarabætur en einnig formleg viðurkenning ríkisvaldsins á BSRB og forystuhlutverki þess í málefnum opinberra starfsmanna.

  Fleiri atriði frá bernskuárum samtakanna er sérstaklega vert að nefna. Árið 1954 samþykkti Alþingi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í þeim fólst meðal annars orlofsréttur, réttur til launa í fæðingarorlofi og veikindum. Þar var einnig að finna eitt fyrsta jafnlaunaákvæðið um að konur og karlar skuli hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf. Áður hafði fengist ákvæði í launalögin frá 1945 um að við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skyldu konur öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar. Enn fremur starfaði sérstök samstarfsnefnd BSRB og fjármálaráðuneytis sem hafði það hlutverk að fjalla um um kvartanir um misrétti við skipun kvenna í launaflokka og gerði tillögur til leiðréttingar ef ástæða þótti til frá 1957.

 • Takmarkaður samningsréttur árið 1962

  Um 1960 var krafa BSRB um samningsrétt borin fram af meiri þunga en nokkru sinni fyrr. Efnahagsráðstafanir viðreisnarstjórnarinnar, þar á meðal stórfelld gengisfelling árið 1960 með tilheyrandi kjaraskerðingu, gáfu þeirri kröfugerð byr undir vængi. Og baráttan skilaði árangri árið 1962 en þá fékk BSRB takmarkaðan samningsrétt gagnvart ríkinu.

  Starfsmannafélög sveitarfélaga fengu samningsréttinn þetta sama ár og gilti um hann reglugerð sem byggði á lögunum um samningsrétt BSRB við ríkið. Samningsrétturinn var án verkfallsréttar og gerðardómur, svonefndur Kjaradómur, hafði síðasta orðið í ágreiningsmálum viðsemjenda. Markaði þessi áfangi þáttaskil í sögu hreyfingarinnar enda þótt vissulega kæmi fljótt á daginn að dómstólaleiðin dugði skammt í sókninni til bættra kjara.

 • Fyrsta trúnaðarmannanámskeiðið í Borgarnesi

  Hreyfingin öðlaðist nýjan kraft á sjöunda áratugnum og meðlimum aðildarfélaganna fjölgaði úr tæplega 4.500 árið 1960 í rúmlega sjö þúsund árið 1970. Fjárhagslegt bolmagn samtakanna óx með fjölgun félaga og öll starfsemi varð mun fjölþættari en fyrr. Vinna að kjaramálum varð langtum umfangsmeiri í kjölfar samningsréttarins en einnig glitti í merki þess að gömul markmið í fræðslu- og orlofsmálum mundu senn ná fram að ganga.

  Fyrsta trúnaðarmannanámskeiðið á vegum BSRB var haldið í Borgarnesi árið 1967. Framkvæmdir við uppbyggingu orlofsheimilahverfis í landi Munaðarness í Borgarfirði hófust árið 1969 og fyrstu orlofshúsin voru tekin í notkun árið 1971. Þá var byggðinni í Munaðarnesi frá upphafi ætlað að verða miðstöð fræðslustarfs fjarri ys og þys borgarlífsins og reglubundin fræðslustarfsemi hófst þar 1971. Þessir tveir málaflokkar, orlofs- og fræðslumál, hafa ásamt með kjara- og réttindamálum verið aðalverkefni heildarsamtakanna og aðildarfélaganna á síðustu áratugum.

 • Konur meirihluti félagsmanna

  Ný lög um kjarasamninga frá 1973 fólu í sér breytta stöðu samtakanna þótt enn um sinn héldi Kjaradómur velli. Gerð sérkjarasamninga við ríkið fluttist til aðildarfélaganna en aðalkjarasamningur var sem fyrr í höndum BSRB. Hin meginbreytingin var ekki síður mikilsverð því að nú voru allir sem fengu laun eftir samningum félaganna skyldaðir að greiða til þeirra félagsgjöld. Innan tíðar völdu langflestir að gerast fullgildir meðlimir og konur urðu í fyrsta sinn meirihluti félagsmanna innan bandalagsins.

  Það segir meira en mörg orð um áhrif þessara laga að árið 1978 höfðu aðildarfélög BSRB 14.500 manns innan sinna raða, borið saman við 8.500 árið 1972. En í þessu sambandi er vert að minna á að fjölgun félagsmanna speglar einnig aukna almannaþjónustu og þar með fjölgun opinberra starfsmanna.

  Stór áfangi var í höfn árið 1976 þegar BSRB fékk verkfallsrétt um gerð aðalkjarasamnings. Tvívegis fóru samtökin í allsherjarverkfall, árin 1977 og 1984. Í framhaldi af verkfallsréttinum var vinnudeilusjóður BSRB stofnaður 1979 í því skyni að styrkja stöðu aðildarfélaganna í vinnudeilum. Jafnframt er sjóðnum heimilt að aðstoða stéttarfélög utan bandalagsins og hefur það verið gert oftar en einu sinni.

 • Afl til aukins jafnaðar og réttlætis

  Enginn vafi leikur á mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar fyrir launafólk og þjóðfélagið í heild. Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun BSRB árið 1942 hefur samfélagið tekið stakkaskiptum og lífskjör þjóðarinnar eru á engan hátt sambærileg við það sem tíðkaðist upp úr 1940.

  Barátta BSRB og annarra samtaka launafólks á undangengnum áratugum hefur borið ríkulegan ávöxt. Hún hefur skilað auknum réttindum, betri kjörum og meiri velferð almenningi til handa. Afar fáar úrbætur hafa komið upp í hendurnar á launafólki fyrirhafnarlaust – þvert á móti hafa allir meiriháttar áfangar og sigrar náðst í krafti samtakamáttar og samvinnu fjöldans.

 • Starfsemi og stofnanir

  Þing BSRB er haldið þriðja hvert ár og fer það með æðsta vald í öllum málum bandalagsins, það mótar stefnu bandalagsins og kosið er í helstu embætti þess.

  Formannaráð bandalagsins gegnir því hlutverki að móta stefnu og megináherslur í málum sem kunna að koma upp á milli þinga ásamt því að vera samráðsvettvangur aðildarfélaga bandalagsins. Það fylgir jafnframt eftir framkvæmd samþykkta þingsins og annarra mála sem vísað er til þess af þingi BSRB.

  Stjórn BSRB hefur svo það hlutverk að stýra starfsemi bandalagsins í samræmi við samþykktir BSRB ásamt stefnumörkun formannaráðs, þings og aðalfundar BSRB. Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum BSRB milli þinga og aðalfunda.

  Skrifstofa BSRB er til húsa í Félagamiðstöðinni að Grettisgötu 89 í Reykjavík og hefur svo verið frá 1978. Þar eru innt af hendi ýmis störf fyrir samtökin og aðildarfélög þess.

  Skrifstofan hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnu bandalagins og vera í forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsmanna í almannaþjónustu. BSRB heldur utan um réttindi starfsfólks á opinberum og almennum vinnumarkaði og stendur vörð um réttindi og skyldur félagsmanna.

  Bandalagið veitir aðildarfélögunum þjónustu á ýmsum sviðum, svo sem varðandi lög- og hagfræðileg efni. Bandalagið sinnir auk þess fræðslu og upplýsingagjöf og sér um samskipti, bæði við önnur heildarsamtök og erlenda aðila. Þá sér skrifstofan um skil iðgjalda til aðildarfélaga bandalagsins.

  Þá annast skrifstofa BSRB umsjón útleigu Birkihlíðar sem er eina sumarhús bandalagsins. Félagsmönnum bandalagsins stendur til boða að leigja húsið og fer það fram í gegnum skrifstofuna.

 • Útgáfumál

  Blaðaútgáfa BSRB hefur verið með ýmsum hætti. Á árunum 1944 til 1952 var Starfsmanna-blaðið gefið út. Þá var gert hlé á blaðaútgáfu til ársins 1955 að Ásgarður leit dagsins ljós. Ásgarður kom samfellt út í 30 ár, en síðasta tölublað hans kom út haustið 1985. BSRB-blaðið tók við af Ásgarði. Enn var breytt um nafn á blaði bandalagsins og árið 1987-1988 nefndist það BSRB-fréttir.

  BSRB-tíðindi voru fyrst gefin út í verkfalli opinberra starfsmanna árið 1984. Útgáfan var svo endurvakin undir því nafni árið 1989 og komu BSRB-tíðindi út til ársins 2014. Árið 2016 hófst útgáfa á rafrænu fréttabréfi BSRB, sem kemur út mánaðarlega í lok hvers mánaðar.

 • Myndband í tilefni af 50 ára afmæli BSRB.

  BSRB lét vinna myndband á 50 ára afmæli bandalagsins, árið 1992. Hægt er að horfa á myndbandið, sem er textað, hér að neðan.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?