Um stéttarfélög og hlutverk þeirra

Stéttarfélög hafa margvíslegum hlutverkum að gegna sem nánar er fjallað um hér að neðan.

Um stéttarfélög og hlutverk þeirra

 • Stéttarfélög og hlutverk þeirra

  Stéttarfélög hafa margvíslegu hlutverki að gegna gagnvart sínum félagsmönnum. Þar stendur hæst hagsmunagæsla og gerð kjarasamninga, en einnig hafa flestir stórir sigrar sem tengjast samfélagi okkar komið vegna baráttu stéttarfélaga og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Í þessu sambandi má nefna lífeyrissjóðskerfið, fæðingarorlof og reglur um aðbúnað á vinnustöðum.

  Stéttarfélög eru frjáls félagasamtök og njóta verndar með stjórnarskrá, lögum og alþjóðasamþykktum sem Ísland á aðild að. Þau koma fram fyrir hönd sinna félagsmanna gagnvart atvinnurekendum og samtökum þeirra, gera kjarasamninga fyrir sína félagsmenn og hafa heimild til þess að efna til verkfalla.

  Þessu til viðbótar starfrækja stéttarfélög hina ýmsu sjóði þar sem félagsmenn geta leitað eftir stuðningi, en í því sambandi má nefna sjúkra- og styrktarsjóði en einnig orlofssjóði þar sem félagsmönnum gefst t.d. tækifæri á að leigja sumarbústað til tímabundinnar orlofsdvalar.

 • Kjarasamningar og stofnanasamningar

  Samningsréttur einstakra aðildarfélaga BSRB er í höndum félaganna sjálfra. Einstaka kjarasamninga og stofnanasamninga má því finna á vef viðkomandi aðildarfélaga.

 • Réttarheimildir

  Þau lög og reglur sem skipta opinbera starfsmenn mestu máli eru eftirfarandi:

  • Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna - Lögin gilda fyrir alla opinbera starfsmenn, en einnig þá sem vinna hjá sjálfseignastofnunum sem starfa í almannaþágu. Lögin fjalla um framkvæmd kjarasamninga, vinnudeilur, félagsdóm og trúnaðarmenn.
  • Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins - Lögin fjalla eingöngu um réttindi og skyldur þeirra sem starfa hjá ríkinu. Umfjöllun þeirra skiptist í tvennt. Ólíkar reglur gilda að mestu leyti um annars vegar embættismenn og hins vegar almenna starfsmenn ríkisins og ber að hafa það í huga við lesturinn. Það má greina í sundur ólík réttindi með því að lesa yfirskrift hvers kafla til að sjá hvort hann gildi fyrir embættismenn eða almenna starfsmenn. Embættismenn eru tæmandi taldir í lögunum (22. gr.) og af félagsmönnum aðildarfélaga BSRB eru það t.d. lögreglumenn, tollverðir og fangaverðir. Almennir starfsmenn ríkisins eru þeir sem ekki eru embættismenn.
  • Lög um orlof - Lögin fela í sér lágmarksreglur um orlof og orlofslaun fyrir allt starfsfólk á vinnumarkaði. Algengt er að kjarasamningar kveði á um betri réttindi og í sumum tilfellum ráðningarsamningar.
  • Reglur um auglýsingar á lausum störfum - Skylt er að auglýsa öll laus störf hjá ríkinu samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglur þessar fela í sér nánari útlistun á því hvernig beri að auglýsa og hvað eigi að koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er fjallað um undanþágur frá auglýsingaskyldunni.
  • Sveitarstjórnarlög - Lögin fjalla um stjórnun og starfsemi sveitarfélaga. Þau ákvæði laganna sem snerta réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga, að framkvæmdastjóra frátöldum er að finna í 56. og 57. gr. laganna. Þar segir m.a. að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ákvæðum ráðningarsamninga. Einnig er kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna sveitarfélaga.
  • Stjórnsýslulög - Lögin gilda þegar ríki og sveitarfélög taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna; s.s. við ráðningu til starfa, áminningu og uppsögn. Um málsmeðferðarreglur er að ræða sem felur í sér að þau fjalla um atriði sem stjórnvöld þurfa að gæta að við töku ákvörðunar. Dæmi þar um er leiðbeiningaskylda, andmælaréttur, rannsókn máls áður en ákvörðun er tekin og jafnræði þeirra sem ákvörðunin beinist að.
  • Jafnréttislög – Lögin eiga að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna og jafna þannig stöðu allra á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Lögin eru yfirgripsmikil og fjalla meðal annars um óbeina mismunun, beina mismunun, kynbundna áreitni og ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og fleira. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með lögunum og kærunefnd jafnréttismála starfar á grundvelli laganna, en hún tekur afstöðu í málum sem kærð eru til hennar vegna brota á lögunum.
  • Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði – Lögin gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu þegar kemur að aðgengi að störfum, ráðningum, framgangi í starfi, ákvörðunum í tengslum við launakjör og margt fleira. Lögin koma í veg fyrir mismunun og tryggja t.d. fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu viðeigandi aðlögun og aðgengi að starfi. Þannig skal atvinnurekandi gera viðeigandi ráðstafanir til að aðstoða einstaklinga í þeirri stöðu að njóta framgangs í starfi, enda séu ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekanda.
  • Lög um tímabundna ráðningu starfsmanna – Lögin gilda um starfsmenn með tímabundna ráðningu, þó með undantekningum. Markmið laganna er að bæta tímabundnar ráðningar og tryggja að þeim sem ráðnir eru tímabundið sé ekki mismunað miðað við þá sem eru ráðnir ótímabundið. Þar sem tímabundin ráðning er í raun undantekning frá meginreglunni um ótímabundnar ráðningar er óheimilt að framlengja eða endurnýja ráðningu þannig að hún vari samfellt lengur en í tvö ár. Þá segja lögin jafnframt að hafi ráðning verið endurnýjuð eða framlengd innan sex vikna frá því fyrri ráðning rann út þá teljist hún taka við af fyrri ráðningu.
  • Lög um starfsmenn í hlutastörfum – Lögin eiga að koma í veg fyrir mismunun þeirra sem starfa í hlutastörfum miðað við þá sem sinna fullu starfshlutfalli. Starfsmenn í hlutastörfum eiga ekki að njóta hlutfallslega lakari kjara eða sæta lakari meðferð en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi, nema slíkt sé réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.

  Að miklu leyti gilda sambærilegar reglur fyrir starfsfólk hjá ríkinu og starfsfólk sveitarfélaga. Það er hins vegar munur á því á hvaða stoð þessar reglur byggja. Hjá starfsfólki ríkisins byggja þær að mestu leyti á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningum. Hjá starfsmönnum sveitarfélaga byggja reglurnar hins vegar að mestu leyti á kjarasamningum.

  Þegar horft er til réttinda launafólks á almenna vinnumarkaðinum skipta eftirtalin lög mestu máli:

 • Aðrir tenglar

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?