Mikilvægi félagslegs stöðugleika

Félagslegur stöðugleikiStöðugleiki á vinnumarkaði kemur bæði launafólki og launagreiðendum til góða. Ein af forsendunum fyrir stöðugleika á vinnumarkaði er styrk stjórn í landsmálunum þar sem áherslan er á félagslegan stöðugleika ekki síður en hinn efnahagslega, enda verður annað ekki til án hins.

Búa þarf launafólki félagslegt öryggi svo það geti mætt afleiðingunum af slysum og veikindum eða atvinnumissi, eignast börn og komið þaki yfir höfuðið. Þá þarf að tryggja öldruðum og öryrkjum lífeyri sem gerir þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi. Grundvöllurinn að slíku kerfi er réttlátt skattkerfi sem rekið er með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum. Almannaþjónustuna verður að reka á samfélagslegum grunni þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag.

 

Fjölskyldan

Auka þarf verulega stuðning við barnafjölskyldur og vinna áfram að því að gera samfélagið fjölskylduvænna. Stytta þarf vinnuvikuna og auðvelda foreldrum að samræma atvinnuþáttöku og fjölskyldulíf. Skoða þarf samspil atvinnulífsins, skóla og heimilanna með það að leiðarljósi að draga úr árekstrum og álagi á fjölskyldufólk. Endurskoða þarf fyrirkomulag barnabóta og hækka greiðslur til barnafólks. Fæðingarorlofskerfið þarfnast verulegra úrbóta með hærri greiðslum fyrir þá sem hafa lægstar tekjur, hærra þaki og lengingu á orlofinu svo að sem flestir sér fært að taka fæðingarorlof. Einnig þarf að festa í lög kröfur um að sveitarfélög bjóði upp á dagvistunarúrræði fyrir öll börn um leið og fæðingarorlofi foreldra lýkur.

 

Heilbrigðiskerfið

Heilbrigðiskerfið þarf að reka á félagslegum forsendum af hinu opinbera. Til að auka á félagslegan stöðugleika þarf að lækka verulega kostnað þeirra sem þurfa að leita sér lækninga og helst afnema með öllu. Þá þurfa sjúklingar að geta fengið lyf án íþyngjandi kostnaðar. Tryggja verður jafnt aðgengi fyrir alla að heilbrigðiskerfinu. Þar á hvorki efnahagur, búseta eða annað að skipta máli.

 

Jafnrétti

Jafna þarf hlut kynjanna á vinnumarkaði, uppræta kynbundið náms- og starfsval, og eyða algerlega kynbundnum launamuni. Tryggja verður jafnrétti og jöfn tækifæri karla og kvenna á öllum sviðum samfélagsins.

 

Húsnæði

Til að auka félagslegan stöðugleika verður að tryggja að fólk geti fengið öruggt húsaskjól, hvort sem er á leigumarkaði eða með því að kaupa fasteign við hæfi. Það er einn af hornsteinum almennrar velferðar að almenningur geti fengið húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta á ekki síður við um aldraða og öryrkja, sem í sumum tilvikum þurfa á sérhæfðu húsnæði að halda. Byggja verður upp búsetuúrræði fyrir þessa hópa.

 

Atvinna

Halda verður uppi öflugu atvinnulífi með háu atvinnustigi og litlu atvinnuleysi, enda er það forsendan fyrir því að hægt sé að halda uppi öflugu velferðarkerfi. Hækka verður lágmarkslaun svo þau séu nægilega há til að lifa mannsæmandi lífi. Þá verður að hlúa að þeim sem detta út af vinnumarkaði og tryggja að atvinnuleysisbætur fylgi launaþróun. Þá verður að leggja áherslu á að sporna við því að fólk sé án atvinnu í langan tíma.

 

Almannatryggingar

Úrbætur á almannatryggingakerfinu eru afar mikilvægur þáttur í því að auka félagslegan stöðugleika. Tryggja þarf bæði öldruðum og öryrkjum lífeyri sem gerir þeim kleift að lifa mannsæmandi lífi og gæta að því að lífeyririnn fylgi launaþróun í landinu. Gera þarf breytingar á örorkukerfinu þannig að litið sé til starfsgetu einstaklinga en ekki örorku þeirra. Þá þarf að hverfa frá hvers konar tekjutengingu bóta og lífeyrisgreiðslna og auka sveigjanleika til lífeyristöku.

 

Menntamál

Menntun er mikilvæg undirstaða félagslegs stöðugleika og er leið til jafnari tækifæra, framfara og hærra atvinnustigs. Bjóða verður upp á fjölbreytt nám sem mætir hæfileikum og þörfum hvers og eins á jafnréttisgrundvelli, óháð aldri, efnahagslegum aðstæðum og fyrri menntun. Fjölga þarf tækifærum fólks sem ekki hefur lokið framhaldsmenntun til að afla sér menntunar sem hentar svo eiginleikar hvers og eins nýtist sem best. Þá þarf að meta hæfni og þekkingu að verðleikum óháð því hvort hennar er aflað í menntastofnun eða á vinnumarkaði.

 

Öryggi

Eitt mikilvægasta hlutverk hins opinbera er að tryggja öryggi þjóðarinnar. Það er hluti af því að viðhalda félagslegum stöðugleika að íbúar hafi trú á því að sanngirni gæti í samfélaginu. Viðbragðsaðilar verða að vera í stakk búnir til að sinna sínu hlutverki og bregðast hratt við fari eitthvað úrskeiðis.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?