Húsnæðisöryggi, hvort sem um er að ræða búsetu í leiguhúsnæði eða séreign, eru mannréttindi. Hið opinbera á að tryggja öllum húsnæðisöryggi með framboði af húsnæði á viðráðanlegu verði, húsnæðisstuðningi og efnahagsaðgerðum sem draga úr óeðlilegri hækkun húsnæðisverðs.
Skynsamlegasta leiðin til að auka húsnæðisöryggi landsmanna er að greiða niður húsnæði fyrir tekjulægri hópa og þá sem eru með mikla framfærslubyrði. Reynslan sýnir að áherslan á auknar lánveitingar hefur áhrif til hækkunar húsnæðisverðs og gerir öflun húsnæðis enn torveldari fyrir þá sem minnst eiga af fjármagni. Slíkar aðgerðir hafa bein áhrif á efnahagskerfið með aukinni verðbólgu og óstöðugleika.
Almenna íbúðakerfið hefur sannað sig og íbúðum í kerfinu fjölgar ár frá ári. Bjarg, leigufélag BSRB og ASÍ er burðarásinn í því kerfi og stuðlar að húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjuhópum. BSRB leggur ríka áherslu á að árleg stofnframlög frá ríki og sveitarfélögum verði aukin til að flýta fyrir uppbyggingu kerfisins og mæta brýnni þörf launafólks fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði.
BSRB leggur áherslu á að ríki og sveitarfélög greiði götu leigufélagsins Blævar, sem er leigufélag í eigu BSRB og ASÍ. Mikilvægt er að auka valkosti launafólks á húsnæðismarkaði sem er yfir tekjuviðmiðum í almenna íbúðakerfinu og stuðla þannig að húsnæðisöryggi fyrir alla.
Beinn húsnæðisstuðningur ríkisins hefur tekið eðlisbreytingum með heilmild til að nýta skattfrjálsan séreignasparnað til að greiða niður húsnæðislán. Greiningar sýna að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst tekjuhæstu hópunum. Á sama tíma hefur húsnæðisstuðningur við leigjendur rýrnað að raungildi og fjárframlög til vaxtabóta eru hverfandi. BSRB krefst þess að húsnæðisstuðningskerfinu verði breytt þannig að stuðningurinn beinist að tekjulægri heimilum.