Húsnæðismál

Öruggt húsaskjól, hvort sem um er að ræða leiguhúsnæði eða séreign, er einn af hornsteinum almennrar velferðar og því verður að bregðast við breyttum þörfum á húsnæðismarkaðnum sem allra fyrst til að tryggja öllum viðunandi húsnæði á viðunandi kjörum til framtíðar.

Stefna stjórnvalda í húsnæðismálum verður að taka mið af nýjum aðstæðum sem skapast hafa á Íslandi. Koma verður til móts við hina miklu eftirspurn eftir leiguhúsnæði.

BSRB vill að almennu leigukerfi að norrænni fyrirmynd verði komið á hér á landi til að tryggja öllum húsnæði á viðunandi kjörum. Þannig mætti líka tryggja búsetuöryggi leigjenda til lengri tíma. Húsnæðiskostnaður verði ekki meiri en 30% af ráðstöfunartekjum. Auka verður lánveitingar til bygginga á leiguhúsnæði til muna svo að þetta geti orðið að veruleika.

Reisa verður húsnæði sem miða sérstaklega að þörfum leigjenda. Sérstaklega vantar smærra húsnæði af ódýrari gerðinni víða um land. Hentugt leiguhúsnæði myndi leggja sitt af mörkum við að gera leigumarkaðinn ódýrari valkost en áður hefur verið og þannig stuðla að því að gera leiguformið að raunverulegum valkosti í búsetumálum á Íslandi.

Stuðning hins opinbera við ólík búsetuform verður að jafna. Samræmdar húsnæðisbætur í stað vaxta- og leigubóta og afnám verðtryggingar munu jafna húsnæðisstuðning milli þeirra sem eiga húsnæði og þeirra sem leigja. Slíkt kerfi verður að koma til framkvæmda enda myndi slíkt húsnæðisbótakerfi stuðla að frekari jöfnuði fólks.

Íbúðalánasjóður hefur um langt árabil verið mikilvæg stoð við einstaklinga við íbúðakaup. Með lánveitingum stuðlar sjóðurinn að því að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, óháð búsetu. Mikilvægt er að tryggja grundvöll sjóðsins og að hann verði áfram í eigu ríkisins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?