Veikindaréttur

Veikindaréttur er mismunandi eftir því hvort einstaklingar starfa á opinbera- eða almenna vinnumarkaðinum þar sem aukin réttindi hafa verið tryggð öllum flestum starfsmönnum umfram það sem lög kveða á um með kjarasamningum. Sérstakar reglur gilda um tímavinnustarfsfólk og er veikindaréttur þeirra t.a.m. styttri, sbr. umfjöllun hér fyrir neðan um veikindarétt tímavinnustarfsfólks.

Lágmarksréttur vegna veikinda

Lög  nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrest frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla kveða á um lágmarksréttindi starfsmanna til greiðslu launa er þeir forfallast frá störfum vegna veikinda eða slysa. Í flestum kjarasamningum er kveðið á um meiri réttindi en lögin gera ráð fyrir en hér verður tæpt á því helsta er lögin fela í sér varðandi veikindarétt starfsmanna.

Í 5. gr. og 6. gr. laganna er kveðið á um veikindarétt fastráðinna starfsmanna:

Á fyrsta starfsári: Starfsmenn sem eru á fyrsta starfsári hjá atvinnurekanda skal ekki missa neins af launum sínum í tvo daga fyrir hvern unninn mánuð í veikinda- og slysatilfellum. Aukin réttindi bætast svo við þennan rétt ef forföllin eru vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóma.

Eftir eitt ár í starfi: Starfsmenn sem hafa unnið hjá atvinnurekanda í eitt ár samfellt halda launum í einn mánuð ef þeir forfallast frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa.

Eftir þrjú ár í starfi: Hafi starfsmenn verið ráðnir hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfellt skal það halda launum í einn mánuð og halda daglaunum sínum annan mánuð.

Eftir fimm ár í starfi: Hafi starfsmaður verið í samfelldri ráðningu til fimm ára hjá sama atvinnurekanda ávinnur hann sér rétt til greiðslu hefðbundinna launa í einn mánuð en daglauna í tvo mánuði þar að auki.

Aukin réttindi vegna vinnuslyss eða sjúkdóms: Ef forföllin stafa af vinnuslysi eða sjúkdómi á fastráðið verkafólk framangreindan rétt en þar að auki rétt til að halda dagvinnulaunum í allt að þrjá mánuði.

 

Veikindaréttur starfsmanna ríkis og sveitarfélaga

Réttur starfsmanna ríkis og sveitarfélaga til launa í veikindum fer eftir starfsaldri þeirra og ráðningarformi. Starfsmenn sem ráðnir eru ótímabundið eiga rétt á að halda fullun launum í veikindum í ákveðinn tíma sem tekur mið af starfsaldri.

Almennt er fjallað um veikindarétt í 12. kafla kjarasamninga aðildarfélaga BSRB við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga (í sumum tilfellum 6. kafla). Þar segir að starfsmaður haldi launum svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á 12 mánuðum en eftirfarandi:

0-3 mánuði í starfi: 14 dagar
Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar

 

Veikindaréttur á almenna vinnumarkaðnum

Veikindaréttur á almenna vinnumarkaðinum er talsvert frábrugðinn því sem gerist hjá opinberum starfsmönnum.

Líkt og á opinbera vinnumarkaðnum hafa mörg hver stéttarfélög samið um betri veikindarétt en felst í lágmarksrétti allra fastráðinna starfsmanna sem kveðið er á um í lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla.

Póstmannafélag Íslands hefur samið um talsvert meiri réttindi fyrir sitt fólk. Hjá þeim er veikindarétturinn tveir mánuðir á dagvinnulaunum auk vaktaálags eftir eitt ár, fjórir mánuðir eftir fimm ár og sex mánuðir eftir tíu ár.

Algengast er að veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sé eftirfarandi á hverjum tólf mánuðum.

Eftir 1 mánuð í starfi: 2 dagar staðgengilslaun
Eftir 3 mánuði í starfi: 6 dagar staðgengilslaun
Eftir  6 mánuði í starfi: 12 dagar staðgengilslaun
Eftir 1-2 ár í starfi: 1 mánuð sl. + 1 mánuð dagvinnulaun
Eftir 3 ár í starfi: 2 mánuðir sl. + 1 mánuður dagvinnulaun
Eftir 5-12 ár í starfi: 1 mánuður á fullu dagvinnukaupi +2 sl+1 dl
Eftir  18 ár í starfi: 2 mánuðir á fullu dagvinnukaupi + 2 mánuðir á dagvinnulaunum
Veikindaréttur við uppsögn

Starfsmenn njóta sömu kjara á uppsagnarfresti eins og og áður s.s. veikindarétt. Ef veikindi standa lengur en uppsagnarfresti nemur skiptir máli hvort veikindin hafi hafist fyrir eða eftir uppsögn.

Ef veikindi hefjast fyrir uppsögn ber starfsmanni réttur til greiðslu samkvæmt áunnum veikindarétti þó svo að veikindi standi lengur en uppsagnarfrestur eða biðlaunaréttur.

Ef veikindi hefjast eftir uppsögn lýkur veikindarétti um leið og ráðningarsambandinu lýkur formlega við starfslok og þá stendur bara eftir starfslokauppgjör vegna áunninna réttinda.

Styrktar- og sjúkrasjóðir

Langflest aðildarfélög BSRB hafa sameinast um einn styrktarsjóð, Styrktarsjóð BSRB. Þau félög sem eru með eigin sjúkrasjóði eru Póstmannafélags Íslands, SFR- stéttarfélag í almannaþjónustu og Landssamband lögreglumanna. Sjóðirnir veita styrki vegna t.d. sjúkraþjálfunar, krabbameinsleitar, líkamsræktar, ættleiðingar, gleraugnakaupa, tannlæknakostnaðar og fæðingarstyrk. Frekari upplýsingar um styrki má finna á heimasíðu Styrktarsjóðs BSRB og vefsíðum nefndra aðilarfélaga.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?