Stytting vinnuvikunnar

Eitt af stærstu baráttumálum BSRB er að gera íslenskt samfélag fjölskylduvænna, eins og fram kemur í stefnu bandalagsins. Hluti af því viðamikla verkefni var að stytta vinnuvikuna, án þess að laun skerðist á móti. Íslendingar hafa í gegnum tíðina unnið mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og geta því ekki notið samveru með fjölskyldu og vinum eins mikið og til dæmis aðrar Norðurlandaþjóðir. Samið var um styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningum flestra aðildarfélaga BSRB vorið 2020.

Í dag eru störf almennt meira krefj­andi fyrir hug­ann en lík­amann og ofan á laun­uðu störfin bæt­ist við önnur og þriðja vaktin sem felst í ábyrgð á börnum og heimil­inu en ennþá er lengd vinnu­vik­unnar sú sama. Það er því úrelt fyrirkomulag að vinnan sé enn skipulögð út frá líkamlegum störfum.

Almennt er talið að um helm­ingur fólks á vinnu­mark­aði dags­ins í dag geti stjórnað hvaðan það vinn­ur, hvenær og hversu mik­ið. Flest spá því að til fram­tíðar muni sveigj­an­leiki í þessum störfum aukast og fólk ráði þessu alfarið sjálft, enda verði áherslan þá á verk­efnin í stað stimp­il­klukku. Eðlilega vakna upp spurningar um hvort launa­fólk sem ekki nýtur þessa sveigj­an­leika, hinn helm­ing­inn, vinna sömu gömlu vinnu­vik­una og var komið á þegar langa­far okkar voru að taka sín fyrstu skref á vinnu­mark­aði. Þetta á til dæmis við um störf þar sem kraf­ist er sam­skipta, umönn­un­ar, hjúkr­un­ar, lög­gæslu og ann­arrar þjón­ustu við fólk eða við­veru. Það mun óneit­an­lega hafa áhrif á starfs­val fólks til framtíðar.

Stytting vinnuvikunnar á Íslandi og reynslan af innleiðingu hennar hefur vakið heimsathygli. Fjöldi landa hefur verið að prófa sig áfram með styttri vinnuviku og vísa til Íslands til fyrirmyndar. Dæmi um það er í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Írlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. 

Stytting vinnuvikunnar

  • Styttingin í dagvinnu

    Stytting vinnuvikunnar í dagvinnu

    Í kjarasamningunum 2020 var samið um að vinnuvikan styttist um fjórar stundir að hámarki á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu. Í kjölfarið fóru af stað umbótasamtöl á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga. Þar var meðal annars rætt var hversu mikið ætti að stytta vinnuvikuna, hvernig ætti að útfæra styttinguna og hvernig væri hægt að ná sömu afköstum á styttri tíma með breyttu skipulagi vinnudagsins. Að þessu samtali loknu greiddi starfsfólk á hverjum vinnustað atkvæði um þær tillögur sem komu út úr umbótasamtalinu og tilkynntu formlega um breytingu á vinnutilhögun.

    Styttingin tók gildi þann 1. janúar 2021 hjá dagvinnufólki. Innleiðingin gekk almennt vel og hátt hlutfall vinnustaða bæði hjá ríki og sveitarfélögum fór í hámarks styttingu. Vinnuvikan hjá miklum fjölda opinberra starfsmanna fór þar með úr 40 stundum í 36. Eins og við var að búast þegar um stórar kerfisbreytingar er að ræða komu upp hnökrar í ferlinu á sumum vinnustöðum. Sérstakur innleiðingarhópur, sem í áttu sæti fulltrúar verkalýðsfélaga og launagreiðenda, tók á slíkum málum og aðstoðaði vinnustaði við að komast í gegnum innleiðingarferlið.

  • Styttingin í vaktavinnu

    Stytting vinnuvikunnar í vaktavinnu

    Innleiðing á styttingu vinnuvikunnar á vinnustöðum þar sem unnið er á vöktum þurfti lengri aðdraganda og því var samið um það í kjarasamningunum að hún myndi taka gildi þann 1. maí 2021. Hjá vaktavinnufólki var samið um að vinnuvikan styttist um 4 stundir að lágmarki en meira hjá þeim sem ganga þyngstu vaktirnar. Þannig styttist vinnuvikan um allt að 8 stundir, úr 40 stundum í 32, hjá fólki á erfiðustu vöktunum.

    Samhliða styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki þurfti að gera breytingar á vaktafyrirkomulagi. Jafnframt voru gerðar breytingar á því hvernig launin voru reiknuð út, þó alltaf hafi verið skýrt hjá samningsaðilum að enginn ætti að lækka í launum við þessar breytingar.

    Þegar vinnuvikan styttist hjá vaktavinnufólki myndaðist ákveðið mönnunargat. Það var fyllt með tvennum hætti. Annars vegar var starfsfólki sem fyrir var ekki í fullu starfshlutfalli boðið að hækka starfshlutfallið samhliða styttingu vinnuvikunnar. Þannig gat það starfsfólk haldið óbreyttum tímafjölda en hækkað í launum, oft umtalsvert. Hins vegar þurfti að ráða fleira fólk til að vaktakerfin gengju upp þó vinnuvikan styttist. Það var því ljóst frá upphafi að það yrði ákveðinn kostnaður við styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu og var gert ráð fyrir þeim kostnaði í kostnaðargreiningu launagreiðenda áður en skrifað var undir kjarasamningana.

  • Aðdragandinn

    Aðdragandi styttingar vinnuvikunnar

    Stytting vinnuvikunnar sem samið var um í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB árið 2020 er stærsta breytingin á vinnutíma landsmanna frá því 40 stunda vinnuvikunni var komið á næstum hálfri öld áður. Slíkar breytingar verða ekki til úr engu heldur þurfti þrotlausa vinnu árum saman til að vinna hugmyndinni brautargengi. Líkt og aðrar kröfur kom kallið eftir styttingu vinnuvikunnar beint frá grasrótinni og færist sífellt ofar á forgangslista yfir kjarabætur félagsmanna.

    Til að vinna að framgöngu þessa baráttumáls beitti bandalagið meðal annars fyrir því að stofnað yrði til tilraunaverkefna svo hægt væri að meta árangurinn af slíkri styttingu hér á landi. Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar hófst árið 2015 og stóð fram til ársins 2019 en tilraunaverkefni BSRB og ríkisins hófst í byrjun apríl 2017 og stóð þar til styttingin tók gildi eftir undirritun kjarasamninga.

    Í kjarakönnun sem BSRB gerði kom skýrt fram að talsverður fjöldi vildi vinna minna en hann gerði og jafnframt að vinnan hafi neikvæð áhrif á samverustundir með fjölskyldu, fólk upplifði meiri þreytu í störfum sínum og talsvert meira álag. Áhrifin voru þau að veikindadagar urðu fleiri, langvarandi fjarvistir frá vinnu vegna álagstengdra veikinda höfðu aukist og of margir sáu sér ekki fært að snúa aftur til vinnu. Í því ljósi var afar mikilvægt að leita leiða til að stytta vinnudaginn til að auka lífsgæði launafólks.

  • Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar

    Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar

    Undirbúningur fyrir fyrsta tilraunaverkefnið sem sett var á fót hér á landi fór af stað árið 2015 hjá Reykjavíkurborg. Fyrsta árið náði tilraunaverkefnið til tveggja starfsstöðva borgarinnar og var útfærslan örlítið mismunandi milli þessara tveggja staða. Þannig lokaði Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts klukkustund fyrr á daginn á meðan Barnavernd Reykjavíkur lokaði á hádegi á föstudögum.

    Niðurstöður eftir fyrsta árið bentu til þess að árangurinn af verkefninu væri afar jákvæður. Mælingar sýndu marktækt betri líðan, aukna starfsánægju og minni veikindi. Á móti mátti ekki merkja að breyting hafi orðið á afköstum starfsmanna þó yfirvinna hjá Barnavernd hafi aukist vegna bakvakta á föstudögum.

    Í ljósi þess hve vel tókst til lagði stýrihópurinn til að verkefninu yrði haldið áfram á vinnustöðunum tveimur þar sem mikilvægt sé að mæla áhrifin til lengri tíma en eins árs. Jafnframt lagði stýrihópurinn til að fleiri vinnustöðum yrði bætt við í tilraunaverkefnið. Þá lagði hópurinn til að farið verði í samstarf við háskólasamfélagið um frekari rannsóknir á áhrifum á heimilishald og fjölskylduaðstæður.

    Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í kjölfarið að framlengja tilraunaverkefnið um eitt ár ásamt því að bæta við fleiri vinnustöðum. Fyrst bættust hverfa- og verkbækistöðvar umhverfis- og skipulagssviðs við. Í kjölfarið fylgdu Laugardalslaug, leikskólinn Hof og félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggð fyrir Breiðholt, Árbæ, Grafarvog og Grafarholt sem stýrt er frá þjónustumiðstöðinni í Árbæ. Á öðru árinu náði því tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar til sex vinnustaða með alls ellefu starfsstöðvar og um 300 starfsmanna.

    Allir vinnustaðir með

    Í nóvember 2017 samþykkti borgarráð að framlengja verkefnið og víkka það út með því að gefa öllum starfsstöðvum borgarinnar tækifæri til að sækja um að taka þátt í tilraunaverkefninu. Annar fasi verkefnisins hófst í febrúar 2018. Mikill fjöldi vinnustaða borgarinnar sótti um að taka þátt. Sett voru skilyrði um að styttingin yrði útfærð á hverjum vinnustað. Í kjölfarið var samþykkt að stytta vinnuvikuna hjá um 2.200 starfsmönnum, um fjórðungi af þeim 8.500 sem vinna hjá borginni.

    Á málþingi sem haldið var 7. febrúar 2018 kynnti formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar helstu niðurstöður úr fyrsta fasa tilraunaverkefnisins. Þar kom fram að starfsánægja hafi aukist og skammtímaveikindi dregist saman, þó auðvitað hafi verið sveiflur þar, eins og við mátti búast. Þá kom fram að framleiðni hafi haldist óbreytt þrátt fyrir styttri vinnutíma.

    Lokaskýrsla fyrsta fasa tilraunaverkefnisins kom svo út í apríl 2018. Þar kemur fram að árangurinn af tilraunaverkefninu sé almennt jákvæður. Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna bendi til jákvæðra áhrifa þó þau birtist með ólíkum hætti eftir starfsstöðvum. Mælingar sýndu að dregið hafði úr andlegum og líkamlegum einkennum álags auk þess sem starfsánægja jókst á öllum starfsstöðum utan við einn. Áhrif styttingarinnar voru jákvæðari en væntingar stóðu til í upphafi verkefnisins.

    Niðurstöður úttektar á tilraunaverkefninu sýndu einnig að ekki dró úr hreyfingum í málaskrám hjá vinnustöðum. Afköstin héldust því óbreytt þó vinnutíminn styttist. Verulega dró úr skammtímaveikindum á öllum vinnustöðunum í upphafi en á tveimur þeirra jukust þær aftur síðar á tímabilinu.

    Niðurstöður teknar saman

    Lokaskýrsla um tilraunaverkefnið kom út í júní 2019. Þar voru teknar saman niðurstöður rannsókna sem gerðar voru til að meta árangur tilraunaverkefnisins auk þess sem áhrifin voru metin út frá árlegri viðhorfskönnun starfsmanna Reykjavíkurborgar. Allar rannsóknirnar sýndu fram á jákvæð áhrif af styttingu vinnuvikunnar.

    Rannsóknirnar sýndu meðal annars fram á að stytting vinnuvikunnar auðveldaði barnafjölskyldum að samræma vinnu og einkalíf og minnkaði álagið bæði á vinnustað og á heimilum starfsmanna. Þá fjölgaði jafnframt samverustundum fjölskyldna. Einnig fundu starfsmenn fyrir bættri andlegri og líkamlegri heilsu og höfðu meiri orku í félagslíf eða til að stunda heilsurækt. Þá virtust karlar taka meiri þátt í húsverkum og hversdagslegum verkefnum barna sinna.

    Almennt jókst starfsánægja á þeim vinnustöðum sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefninu sem að sögn starfsmannanna leiddi af sér betri þjónustu fyrir borgarbúa. Þá sýnir úttekt borgarinnar úr vinnutímakerfi að yfirvinna hefur dregist saman hjá borginni á meðan tilraunaverkefnið hefur staðið yfir.

    Borgin mældi einnig afköst starfsmanna sem tóku þátt í tilraunaverkefninu. Í þjónustuveri borgarinnar var svarhlutfallið svipað en hjá bókhaldsdeild borgarinnar jukust afköstin eftir að tilraunaverkefnið hófst. Afköstin stóðu í stað hjá upplýsingatæknideild hjá Barnavernd.

    Verkefninu hætt

    Tilraunaverkefnið hjá Reykjavíkurborg stóð fram á haustið 2019 þegar því var formlega hætt og vinnutími starfsmanna sem höfðu tekið þátt í verkefninu færður til þess sem áður var. Kjarasamningsviðræður höfðu staðið yfir frá því snemma árs 2019 og vonir stóðu til þess að samningar þar sem kveðið væri á um styttingu tækjust fljótlega. Viðræðurnar tóku þó lengri tíma en við var búist og stóðu fram í mars 2020 svo tímabilið frá því tilraunaverkefninu lauk þar til styttingin hjá öllu tók gildi varð lengri en reiknað var með þegar ákveðið var að hætta tilraunaverkefninu.

  • Tilraunaverkefni BSRB og ríkisins

    Tilraunaverkefni BSRB og ríkisins

    Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, afhenti Elínu Björgu Jónsdóttur, þáverandi formanni BSRB, viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma á þingi bandalagsins haustið 2015. Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði starfshóp um tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma til að halda utan um tilraunaverkefnið í lok apríl 2016.

    Markmið verkefnisins var að kanna áhrif þess að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 með gagnkvæmum ávinningi fyrir starfsmenn og þær stofnana sem tóku þátt í verkefninu. Sérstaklega var skoðað hvernig útfæra mætti styttinguna hjá ólíkum tegundum stofnana, þar með talið á vinnustöðum þar sem unnin var vaktavinna.

    Fjórir vinnustaðir voru valdir til að taka þátt í tilraunaverkefninu í mars 2017. Fjölmargir vinnustaðir sóttu um að taka þátt og þurfti að velja úr. Niðurstaðan varð sú að þeir vinnustaðir sem hófu tilraunina þann 1. apríl 2017 voru Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkisskattstjóri, Útlendingastofnun og Þjóðskrá.

    Tilraunaverkefnið átti að standa í eitt ár, frá 1. apríl 2017. Vinnustundum starfsmanna var fækkað úr 40 á viku niður í 36 stundir án þess að til launaskerðingar kæmi. Rannsakað var hver áhrif styttingar vinnutímans voru á gæði og hagkvæmni þjónustu sem vinnustaðirnir veittu, auk áhrifa á vellíðan starfsmanna og starfsanda. Sambærilegar mælingar voru gerðar á vinnustöðum þar sem vinnuvikan var höfð óbreytt til að fá samanburð.

    Af þeim fjórum stofnunum sem hófu þátttöku í verkefninu í apríl 2017 var einn vaktavinnustaður. Í framhaldinu var ákveðið að vinna á því að bæta öðrum vaktavinnustað inn í verkefnið til að niðurstöður þess endurspegluðu fjölbreytni starfa hjá ríkinu.

    Mælanlegur árangur

    Fjallað var um fyrstu niðurstöður úr tilraunaverkefninu í grein félags- og jafnréttismálaráðherra í Fréttablaðinu í febrúar 2018. Þar kom fram að niðurstöður tveggja kannanna og rýnihópa bentu til þess að tilraunaverkefnið væri að skila mælanlegum árangri. Starfsánægja hafði aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara var fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf. Ákveðið var í mars 2018 að framlengja verkefnið í eitt ár hjá þeim stöðum sem þegar höfðu verið valdir.

    Í byrjun júlí 2018 var tilkynnt að fimmta vinnustaðnum, Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, hefði verið bætt í tilraunaverkefni BSRB og ríkisins. Ástæðan fyrir því að bætt var við vinnustað var einkum til að fá betri mælingu á áhrifum styttingar vinnuvikuna á vaktavinnuhópa.

    Fyrir var einn vaktavinnustaður, Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, en þar sem mikill fjöldi opinberra starfsmanna vinnur vaktavinnu innan heilbrigðisþjónustunnar var talið mikilvægt fyrir tilraunaverkefnið að fá góða mælingu á áhrifum styttingar vinnuvikunnar á þann hóp.

    Jákvæð upplifun og áhrif

    Í apríl 2019 gaf félagsmálaráðuneytið út skýrslu með hagrænum mælingum eftir að tilraunaverkefnið hafði verið í gangi í tólf mánuði. Niðurstöður viðhorfskannana leiddu í ljós jákvæða upplifun þátttakenda og jákvæð áhrif á líðan þeirra í vinnu og daglegu lífi. Niðurstöður hagrænna mælinga sem snéru að veikindafjarvistum, yfirvinnustundum, skilvirkni og árangri sýndu að styttri vinnuvika hafði ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur.

    Kannað var hvernig þátttakendum gekk að samræma vinnu og einkalíf og spurt um væntingar og reynslu af styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöður sýndu að það hafði dregið úr upplifun af kulnun sem og andlegum og líkamlegum streitueinkennum. Hvað varðar viðhorf til vinnustaðar og starfs, vinnustaðarbrags og stjórnunar mældist upplifun af álagi í starfi almennt minni. Starfsandi mældist betri, viðhorf til starfs jákvæðari og sjálfstæði í starfi almennt meira. Þá fannst þátttakendum almennt skýrara til hvers er ætlast af þeim í starfi og fannst minna um misrétti.

    Starfsmenn upplifðu einnig réttlátari stjórnun og aukna hvatningu frá stjórnendum. Niðurstöður bentu til aukins jafnvægis milli vinnu og einkalífs og minni árekstra þar á milli. Almennt voru þessi viðhorf jákvæðari á vinnustöðum sem styttu vinnutíma borið saman við viðmiðunarvinnustaðina sem voru með óbreytta vinnuviku en þar voru viðhorf að mestu óbreytt milli mælinga sem framkvæmdar voru eftir sex og tólf mánuði.

    Ekki neikvæð áhrif á skilvirkni eða árangur

    Þær hagrænu mælingar sem horft var til voru veikindafjarvistir, yfirvinnustundir, skilvirkni og árangur. Niðurstöðurnar sýndu að yfirvinnustundum fækkaði á tveimur vinnustöðum en fjölgaði á tveimur. Það dró úr veikindafjarvistum á tveimur vinnustöðum en þeim fjölgaði á tveimur. Mælikvarðar á skilvirkni og árangri voru ólíkir milli vinnustaðanna og endurspegla ólíka starfsemi þeirra. Niðurstöður þeirra mælinga sem stuðst er við sýndu að styttri vinnuvika hafði ekki neikvæð áhrif á skilvirkni og árangur stofnana.

    Í júní 2019 gaf félagsmálaráðuneytið út skýrslu með niðurstöðum rýnihópa og viðtölum við starfsmenn á vinnustöðum sem tóku þátt í tilraunaverkefninu og maka þeirra. Helstu niðurstöður eru þær að þátttakendur upplifðu meiri lífsgæði og leið betur bæði í vinnunni og heima fyrir eftir tólf mánuði af styttingu vinnuvikunnar borið saman við líðanina áður en tilraunaverkefnið hófst.

    Að mati stjórnenda vann starfsfólk hraðar, lagði meira af mörkum, tók styttri pásur og var upplifun þeirra að meira væri um samstarf og samhjálp. Heildarvinnutími styttist samkvæmt tímaskýrslum en þó vann starfsfólk áfram yfirvinnu í afmörkuðum einingum vegna álagstoppa og undirmönnunar.

    Tíminn eftir vinnu nýttist betur

    Starfsfólk talaði um að tíminn eftir vinnu nýttist betur í að sinna fjölskyldu, vinum og tómstundum. Mikil ánægja var með styttingu vinnutíma á föstudögum, sérstaklega hjá þeim sem hættu klukkan tvö á föstudögum en almennt fannst viðmælendum helgarnar lengjast.

    Vaktavinnustarfsfólk upplifði meiri fjölskyldusamveru en áður. Starfsfólk í dagvinnu taldi sig þó oftar en áður fara frá hálfloknum verkefnum í lok dags og halda áfram daginn eftir.

    Viðtöl við maka starfsmanna leiddu í ljós að stytting vinnutímans hafði létt álagi af fjölskyldum þeirra, sérstaklega þar sem ung börn væru á heimili. Þá var upplifunin almennt sú að dregið hefði úr streitu á morgnana og seinnipartinn og að maki væri ekki eins þreyttur eftir vinnudaginn.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?