Lífeyrismál

Ríkissjóður verður að standa við skuldbindingar sínar við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Ekki má hrófla við þegar áunnum réttindum opinberra starfsmanna og allar breytingar á lífeyrismálum verða að vera unnar í fullu samráði við samtök þeirra. Núverandi vandi A- og B-deilda LSR verður að vera leystur á þann veg að inngreiðslur vegna skuldbindinga ríkisins í B-deild verði að veruleika og iðgjald í A-deild verði hækkað eins og lög mæla fyrir um.

BSRB hafnar því að núverandi vandi A-deildar verði leystur með réttindaskerðingum af einhverjum toga eða með því að möguleg ný deild með breyttum forsendum verði nýtt til að rétta af hallann.

Nýskipan í lífeyrismálum kallar á heildarendurskoðun launa opinberra starfsmanna. Launakannanir hafa sýnt fram á að munurinn á launum starfsmanna á almenna og opinbera vinnumarkaðnum er um 17%. Komi til samræmingar á lífeyrisréttindum milli hins almenna og opinbera vinnumarkaðar verður að bæta opinberum starfsmönnum það upp með leiðréttingu launa.

Lífeyriskerfi Íslendinga stendur á sterkum grunni byggðum á þremur stoðum: Opinberu almannatryggingakerfi, atvinnutengdum lífeyrissjóðum með skylduaðild og frjálsum lífeyrissparnaði. Styrkur íslenska kerfisins felst að stórum hluta í sjóðsöfnun en með því er átt við að eignir eru lagðar fyrir jafnóðum og réttinda er aflað til greiðslu lífeyris síðar. BSRB leggur ríka áherslu á að þessu fyrirkomulagi verði ekki hróflað.

Draga verður úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna og almannatrygginga. Mikilvægt er að þeir sem greitt hafa í lífeyrissjóði alla starfsævina sjái þess stað í afkomu sinni þegar kemur að starfslokum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?