Lífeyriskerfi Íslendinga stendur á sterkum grunni byggðum á þremur stoðum: Opinberu almannatryggingakerfi, atvinnutengdum lífeyrissjóðum með skylduaðild og frjálsum lífeyrissparnaði. Styrkur íslenska kerfisins felst að stórum hluta í sjóðsöfnun en með því er átt við að eignir eru lagðar fyrir jafnóðum og réttinda er aflað til greiðslu lífeyris síðar. BSRB leggur ríka áherslu á að við þessu fyrirkomulagi verði ekki hróflað.
BSRB leggst alfarið gegn því að tilgreind séreign verði lögfest. Fyrir því liggja margþætt rök en þau sem vega þyngst eru að breytingin felur í sér veikingu á samtryggingarþætti lífeyriskerfisins, veldur ósamræmi í kerfinu og dregur úr sjálfbærni þess og getur haft verulega neikvæð áhrif á lífeyrisréttindi tekjulægra fólks og kvenna og þeirra sem verða öryrkjar snemma á starfsævinni. Markmiðið með jöfnun lífeyrisréttinda á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins var að samræma lífeyrisréttindi og auka sjálfbærni kerfisins. Lögfesting tilgreindrar séreignar gengur þvert á þau markmið.
BSRB krefst þess að dregið verði verulega úr tekjutengingu almannatrygginga og lífeyrisgreiðslna. Mikilvægt er að launafólk sem greitt hefur í lífeyrissjóði alla starfsævina sjái þess stað í afkomu sinni þegar kemur að starfslokum vegna aldurs eða örorku.
BSRB krefst þess að þær stéttir sem þurfa að hætta að vinna fyrr, til dæmis vegna álags í starfi, fái rétt til snemmtöku lífeyris sem fjármagnaður verði sérstaklega með hærra mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð. Sömuleiðis þarf að tryggja að fólk geti unnið þrátt fyrir að 70 ára aldri sé náð og njóti þess í lífeyrisréttindum sínum.