Starfsmenn á opinberum vinnumarkaði

Eins og kom fram í inngangi vinnuréttarvefs BSRB gilda ólíkar reglur um opinbera starfsmenn annars vegar og starfsmenn á almennum vinnumarkaði hins vegar. Opinber vinnumarkaður telst vera þau fyrirtæki og stofnanir sem eru í eigu ríkis og sveitarfélaga, auk félaga og stofnana sem veita opinbera þjónustu. Almennt heyra málefni sem snúa að ríkinu undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, en innan ráðuneytisins er Kjara- og mannauðssýsla ríkisins. Sveitarfélög eru sjálfstæð samkvæmt lögum en Samband íslenskra sveitarfélaga sinnir hagsmunagæslu fyrir þau og gerir kjarasamninga fyrir þeirra hönd.

Til einföldunar má því segja að á hinum opinbera vinnumarkaði séu starfsmenn ríkisins, sveitarfélaga og ýmissa sjálfseignarstofnana sem kostaðar eru að meirihluta til af almannafé. Þeir sem starfa hjá einkafyrirtækjum tilheyra þannig hinum almenna vinnumarkaði. Þó er þetta ekki alveg svona einfalt, enda hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja leitt til þess að starfsmenn sem áður tilheyrðu hinum opinbera vinnumarkaði eru nú starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði. Það má til dæmis nefna Ríkisútvarpið og Isavia sem dæmi um slík félög, sem áður voru ríkisstofnanir en eru nú rekin sem opinber hlutafélög. Almenna reglan er hins vegar sú að þeir starfsmenn sem voru starfandi þegar einkavæðing átti sér stað haldi sínum réttindum, en þeir sem hefja störf eftir einkavæðingu hafa að vissu leyti önnur réttindi.

Starfsmenn á opinberum vinnumarkaði

  • Starfsmenn sveitarfélaga

    Um starfsmenn sveitarfélaga gilda að vissu leyti sömu reglur og gilda um ríkisstarfsmenn. Munurinn er hins vegar sá að reglurnar um starfsmenn sveitarfélaga eru almennt í kjarasamningum en ekki í lögum. Í kjarasamningum starfsmanna sveitarfélaga eru þannig áþekkar reglur um breytingar á störfum, áminningarferli og starfslok þeirra en einnig eru þar reglur um laun, orlofsrétt og önnur mikilvæg atriði.

  • Starfsmenn ríkisins

    Um starfsmenn ríkisins gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þau taka til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar, enda verði starfið hans talið aðalstarf. Sérstakar reglur gilda um embættismenn, eins og nánar er fjallað um hér.

    Í lögunum er fjallað ítarlega um réttindi starfsmanna og skyldur þeirra. Þar eru sérstök ákvæði um breytingar á störfum, áminningarferli og starfslok. Um öll þessi atriði er fjallað nánar hér á vinnuréttarvefnum. Þessu til viðbótar hafa kjarasamningar ríkisstarfsmanna að geyma ýmsar reglur um réttindi þeirra og skyldur, sem koma þá til viðbótar. Í kjarasamningum er t.d. fjallað um laun, orlof og fleira sem felur í sér betri réttindi til handa ríkisstarfsmönnum en samkvæmt lögum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?