Umhverfismál

Loftslagsmálin eru stærsta áskorunin sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir. Tíminn til að bregðast við svo að hlýnun jarða fari ekki umfram 1,5 gráðu er að renna út og samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og binding kolefnis eiga því að vera efst á verkefnislista stjórnvalda. Afleiðinga hlýnunar er þegar farið að gæta um allan heim og hér á landi verður þeirra helst vart með bráðnun jökla, breytingum í veðurfari, aukinni úrkomuákefð, skriðuföllum, hækkun sjávarborðs, súrnun sjávar og víðtækum áhrifum á vistkerfið. Losun á hvern íbúa Íslands er ein sú mesta meðal þjóða heimsins. BSRB styður loftslagsmarkmið stjórnvalda en krefst þess að meiri þungi verði settur í aðgerðirnar því hlýnun jarðar ógnar öryggi og lífsgæðum mannkyns. Efnahagslegar afleiðingar hlýnunar eru gríðarlegar og miklu meiri en kostnaður við aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu.

BSRB krefst þess að réttlát umskipti verði leiðarljós í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og aðlögun að þeim breytingum sem óhjákvæmilegar eru. Markmið réttlátra umskipta eru að fjárfestingar skapi græn störf og að tekjulægri hópar taki ekki á sig hlutfallslega meiri byrðar, og hafi þannig möguleika á að vera þátttakendur í umskiptunum. Græn störf eru þau störf sem stuðla að því að lofslagsmarkmið stjórnvalda náist, störf sem vernda eða endurheimta umhverfi, draga úr sóun og byggja upp innviði til orkuskipta. BSRB telur nauðsynlegt að aðilar vinnumarkaðarins myndi samstarfsvettvang um réttlát umskipti svo að réttindi og kjör launafólks séu tryggð, ekki síður en atvinnulífsins. Aðilar verða að koma sér saman um þær leiðir sem fara á til þess að ná settum markmiðum.

BSRB vill vera loftslags- og umhverfisvænt bandalag bæði í orði og á borði og hvetur aðildarfélög sín til að fylgja Grænum skrefum í starfsemi sinni og hvetja þá opinberu atvinnurekendur sem félögin semja við til að innleiða Græn skref ef þau hafa ekki þegar gert það. BSRB leggur jafnframt áherslu á umhverfis- og loftslagsfræðslu félaga í aðildarfélögum sínum.

BSRB gerir þær kröfur að atvinnurekendur sjái til þess að vinnuaðstæður starfsfólks séu heilnæmar og að atvinnurekendur geri starfsfólki kleift að nota vistvænan samgöngumáta á leið í og úr vinnu og í vinnutíma, til dæmis með því að bjóða starfsfólki samgöngustyrki og aðgang að vistvænum farartækjum.
BSRB styður að nýting og vernd landsins verði í góðri sátt til hagsbóta fyrir samtímann og komandi kynslóðir.

BSRB krefst þess að auðlindir landsins verði í almannaeigu og aðgangur allra að hreinu drykkjarvatni sé tryggður. Tryggja þarf fæðuöryggi. Nýting náttúruauðlinda þarf að vera sjálfbær og víðtæk samfélagsleg sátt þarf að ríkja um nýtingu þeirra. BSRB leggur áherslu á að skoða verði hvers konar starfsemi fer fram í gagnaverum, því að orkunýting þarf að vera í samræmi við stefnu stjórnvalda um réttlát umskipti.

BSRB mun beina áherslum sínum til stjórnvalda, atvinnurekenda og síðast en ekki síst aðildarfélaganna með samstarfi og öflugu fræðslustarfi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?