Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, færði Sameyki stéttarfélagi textílverk eftir Ölfu Rós Pétursdóttur að gjöf á veglegri afmælishátíð sem félagið hélt í tilefni þess að 100 ár eru síðan Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar var stofnað. Hátíðin fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur laugardaginn 17. janúar.
Sonja sagði verkið, sem samanstendur af marglaga þráðum sem mynda eina heild, tákn um samstöðu launafólks; rauða þráðinn í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir réttlátara samfélagi frá upphafi.
Guðrún Gunnarsdóttir sá um veislustjórn og var dagskráin fjölbreytt. Saga Starfsmannafélags Reykjavíkur var í forgrunni; ljósmyndum úr sögu félagsins var varpað upp og tveir fyrrverandi formenn, þau Sjöfn Ingólfsdóttir og Garðar Hilmarsson, sögðu frá stórum atburðum baráttu og sigrum félagsins í þeirra formannstíð.
Sagnfræðingurinn Stefán Pálsson fór svo einnig yfir sögu félagsins frá stofnun þess fyrir 100 árum til dagsins í dag. Þá hélt Kári Sigurðsson formaður Sameykis tölu á þessum stóru tímamótum.

