Aðgengi að vatni eru sjálfsögð mannréttindi

Íslendingar hafa gott aðgengi að hreinu vatni en það er ekki staðan allsstaðar í heiminum.

BSRB hefur barist fyrir því, eins og heildarsamtök launafólks víða um heim, að óhindrað aðgengi almennings að hreinu drykkjarvatni verði flokkað sem sjálfsögð mannréttindi sem allir eigi að njóta. Íslendingar eiga því að venjast að geta skrúfað frá næsta krana til að fá hreint drykkjarvatn en staðan er talsvert önnur víða í heiminum.

Samfélagslegt eignarhald á vatni er eitt frumskilyrðanna fyrir því að aðgangur að drykkjarvatni geti fallið í sama flokk og hver önnur mannréttindi. Annað skilyrði er að nýting vatns sé sjálfbær til framtíðar. Sú óhugnarlega þróun er að verða víða erlendis að vatn sé flokkað sem hver önnur verslunarvara. Vinna verður gegn því með öllum tiltækum ráðum.

Hagsmunir almennings verða alltaf að vera í forgrunni við nýtingu á vatni og þess vegna verður að reka vatnsveitur á félagslegum grunni þar sem það er eitt af megin markmiðunum. Það verður alltaf að vera mikilvægasta verkefni vatnsveita að tryggja almenningi á þjónustusvæðinu nægt magn af hreinu vatn til drykkjar, matargerðar og hreinlætis á viðráðanlegu verði.

Fjallað er um mikilvægi þess að trygga aðgengi að hreinu vatni í stefnu BSRB í umhverfismálum. Þar er lögð sérstök áhersla á að tryggt verði að allt grunnvatn, auðlindin sjálf, sé í almannaeigu, ekki bara vatnsveiturnar sem nýta það.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?