Almannarétt verður að verja

Verja þarf viðkvæma náttúru með uppbyggingu á aðstöðu til að taka við ferðamönnum.

Nú yfir hásumarið eru eflaust margir á ferð og flugi. Sumarið er frábær tími til að ferðast um Ísland, heilsa upp á ættingja og vini í öðrum landshlutum og skoða náttúruna. Í lögum um náttúruvernd er öllum tryggður réttur til að fara um landið sé engu spillt og vel gengið um. Þessi réttur er ekki sjálfsagður, eins og reynsla annarra þjóða sýnir, og um hann þarf að standa vörð.

BSRB leggur áherslu á að standa vörð um þennan rétt almennings til að ferðast um landið. Þó verður að gera það á ábyrgan hátt, ganga vel um og spilla ekki náttúrunni. Ferðalangar eru því hvattir til að hafa í huga þumalputtareglu ábyrgra ferðamanna, sem gildir að sjálfsögðu hvar sem er í heiminum: „Tökum bara ljósmyndir, skiljum aðeins fótsporin eftir og drepum ekkert annað en tímann.“

Þetta þurfum við líka að minnast á við þá erlendu ferðamenn sem sækja landið okkar heim. Mikill fjöldi ferðamanna getur haft slæm áhrif á viðkvæma náttúru. Til að draga úr álagi sem ferðamenn, innlendir og erlendir, valda þarf að byggja upp aðstöðu til að taka á móti fólkinu.

Í stefnu BSRB, sem mótuð var á síðasta þingi bandalagsins haustið 2015, er hvatt til þess að tryggt verði fjármagn til uppbyggingar ferðamannastaða. Slíka uppbyggingu geti stjórnvöld þurft að fjármagna að einhverju leyti á kostnað ferðamanna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?