Almenn ánægja með baráttufund á kvennafrídegi

Gríðarlegur fjöldi kvenna gekk út af vinnustöðum og fjölmennti á baráttu- og samstöðufundi víða um land þann 24. október 2018.

Almenn ánægja var með baráttufund á Arnarhóli á kvennafrídaginn 24. október síðastliðinn. Í nýlegri skýrslu um undirbúning og framkvæmd kvennafrísins kemur fram að baráttu- og samstöðufundir hafi farið fram á að minnsta kosti sextán stöðum á landinu.

Konur lögðu niður vinnu klukkan 14:55 þann 24. október 2018 síðastliðinn, en það var í sjötta skiptið sem konur á Íslandi mótmæla mismuni á kjörum kynjanna með þessum hætti. Tímasetningin var reiknuð út frá tölum frá Hagstofu Íslands um tekjumun kynjanna, eins og fram kemur í skýrslu undirbúningshópsins.

Baráttufundir voru haldnir á Akureyri, Bifröst í Norðurárdal, Borgarnesi, Dalvík, Grundarfirði, Ísafirði, Mývatnssveit, Neskaupsstað, Ólafsvík, Patreksfirði, Reykjavík, Reyðarfirði, Selfossi, Skaftárhreppi, Skagaströnd og Varmahlíð.

BSRB og fjöldi annarra samtaka launafólks kom að undirbúningi kvennafrísins, rétt eins og mikill fjöldi samtaka kvenna á Íslandi, eins og getið er um í skýrslunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?