Áskoranir kalla á samstarf og betra velferðarkerfi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, tók þátt í pallborðsumræðum um jafnréttismál á ráðstefnunni.
Myndir: Félagsmálaráðuneytið/BIG

Auka þarf samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að undirbúa þær breytingar sem verða munu á störfum á vinnumarkaði framtíðarinnar og takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Samhliða þarf að halda áfram uppbyggingu velferðarkerfisins.

Þetta var meðal þess sem rætt var á ráðstefnunni Framtíð vinnunnar sem Norræna ráðherranefndin og Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) héldu í Hörpu dagana 4. og 5. apríl í tilefni af 100 ára afmæli ILO.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, tók þátt í pallborðsumræðum um jafnréttismál. Þar lagði hún áherslu á að aðgerðir fylgdu orðum til þess að tryggja raunverulegt jafnrétti á vinnumarkaði og eyða kynbundnum launamun.

Á ráðstefnunni var meðal annars fjallað um niðurstöður alþjóðlegrar nefndar um framtíð vinnunnar sem framkvæmdastjóri ILO skipaði árið 2017. Verkefni nefndarinnar var að vinna ítarlega rannsókn á framtíðinni á vinnumarkaði og hvernig best megi stuðla að félagslegu réttlæti á 21. öldinni. Skýrsla nefndarinnar var birt í janúar og er öllum aðgengileg á vefnum.

ILO telur að Norðurlöndin geti verið fyrirmynd fyrir önnur lönd og veitt þeim innblástur, sagði Guy Rider, forstjóri ILO, á fundi með atvinnumálaráðherrum Norðurlandanna og fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Þannig hefur vinnumarkaðslíkan Norðurlandanna þann kost að vera lausnamiðað og geta lagað sig að breyttum aðstæðum. Á sama tíma stendur það vörð um samstarfið milli aðila vinnumarkaðarins sem líkanið grundvallast á.

Í skýrslu nefndar ILO eru settar fram tíu tillögur að nauðsynlegum aðgerðum. Ein af þeim er að þjóðir heims innleiði umbætur sem tryggja raunverulegt kynjajafnrétti á vinnumarkaði. Þar er bent á mikilvægi þess að fjárfesta í fæðingarorlofi og umönnunarúrræðum fyrir börn og aldraða.

Neikvæð áhrif áreitis

Norræna ráðherranefndin hefur einnig fjármagnað rannsókn á breytingum á vinnumarkaðinum á öllum Norðurlöndunum. Niðurstöður rannsóknarinnar í heild eru ekki komnar en hægt að fræðast um ýmsa þætti sem búið er að taka saman. Þar er metið hvernig norræna módelið er undir það búið að taka á hugsanlegum breytingum á næstu árum og áratugum. Á ráðstefnunni var til dæmis fjallað um áhrif þess að starfsmenn fái tölvupósta og símtöl utan vinnutíma og neikvæð áhrif þess á andlega líðan.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?