BSRB kom sjónarmiðum launafólks að við mótun jafnréttisstefnu ESB 2026–2030

Sendinefndin ásamt þremur starfsmönnum Evrópuskrifstofu Friedrich Ebert Stiftung

Í stuttu máli

  • Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur BSRB, tók þátt í samráði um nýja jafnréttisstefnu Evrópusambandsins (ESB) 17.–19. nóvember 2025. Í sendinefndinni voru fulltrúar launafólks víðs vegar að úr Evrópu.
  • Markmiðið var að koma sjónarmiðum launafólks að áður en áherslur og aðgerðir fyrir árin 2026–2030 eru mótaðar.
  • Stefnan skiptir Ísland máli þar sem reglur um jafnrétti á vinnumarkaði geta fallið undir EES-samninginn og haft áhrif á íslenska löggjöf og framkvæmd.

 

Af hverju skiptir þetta máli fyrir Ísland?

Ísland er aðili að EES-samningnum og aðgerðir og reglur sem varða kynjajafnrétti á vinnumarkaði falla undir hann. Það þýðir að breytingar í regluverki ESB á þessu sviði hafa bein áhrif á íslenskt regluverk og réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

 

Hverja hitti sendinefndin?

Tilgangur ferðarinnar var að hitta stofnanir ESB og lykilhagsmunaaðila, til að fá mynd af því hvaða áherslur verði settar í nýju stefnuna og koma sjónarmiðum launafólks á framfæri. Sendinefndin fundaði meðal annars með:

  • fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins
  • fulltrúum Evrópuþingsins, þar á meðal formanni kvennanefndar og starfsfólki þingsins
  • Evrópska verkalýðssambandinu (ETUC)
  • European Women’s Lobby
  • samtökum jafnaðarflokka í Evrópu

 

Hvað er í undirbúningi?

Þetta er í annað skipti sem ESB mótar heildstæða stefnu um kynjajafnrétti. Í fyrri stefnu voru meðal annars settar fram aðgerðir um launagagnsæi, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og kynjasamþættingu.

Nýja stefnan og áherslur hennar liggur ekki endanlega fyrir, en hún mun að miklu leyti byggja á stefnumarkandi rammi sem hefur verið kallaður „Roadmap for Women’s Rights“ eða leiðarvísir fyrir jafnrétti, sem framkvæmdastjórn ESB samþykkti 7. mars 2025. Þar eru nefnd viðfangsefni á borð við kynbundið ofbeldi, heilsu kvenna, launajafnrétti og betri samþættingu vinnu og einkalífs.