Fjórðungur styttir vinnuvikuna hjá borginni

Málþing um styttingu vinnuvikunnar var vel sótt, en auk þess horfðu rúmlega 500 á beina útsendingu frá málþinginu.

Um 2.200 af 8.500 starfsmönnum Reykjavíkurborgar, eða rúmlega fjórðungur, munu vinna 1-3 klukkustundum styttri vinnuviku án launaskerðingar nú þegar annar áfangi tilraunaverkefnis BSRB og borgarinnar er kominn af stað.

Niðurstöður eftir fyrsta áfanga tilraunaverkefnisins, sem hófst í mars 2015, eru jákvæðar, sagði Magnús Már Guðmundsson, formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar, í erindi sínu á málþingi sem BSRB og Reykjavíkurborg stóðu fyrir í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.

Magnús sagði að á flestum stöðum þar sem vinnuvikan hafi verið stytt hafi framleiðni haldist óbreytt en skammtímaveikindi dregist saman. Þá hafi starfsánægja aukist á þeim vinnustöðum þar sem vinnutími hafi verið styttur.

Alls hafa á þriðja hundrað starfsmanna borgarinnar tekið þátt í verkefninu hingað til en nú mun þeim fjölga verulega eftir að ákveðið var að gefa öllum vinnustöðum borgarinnar kost á að sækja um að taka þátt í tilraunaverkefninu. Hver vinnustaður sem tekur þátt styttir vinnutíma um eina til þrjár klukkustundir í mánuði.

Gróa Sigurðardóttir, leikskólakennari á leikskólanum Hofi, sem tekið hefur þátt í tilraunaverkefninu, sagði frá sinni upplifun af styttingunni á málþinginu í gær. Hún sagði styttinguna hafa heppnast mjög vel og bæði starfsmenn og foreldrar séu ánægðir. Starfsmenn noti tímann til að vera með fjölskyldu og sinna erindum sem annars hefði verið erfitt að koma við.

Gróa benti á að á leikskólanum Hofi hafi veikindadögum fækkað um 40 prósent auk þess sem mannekla sem gert hefur öðrum leikskólum erfitt fyrir að manna stöður hafi ekki haft áhrif á Hof.

Áfram verður fjallað um það sem fram kom á málþinginu á vef BSRB á næstunni. Hægt er að horfa á upptöku af málþinginu á vef Reykjavíkurborgar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?