Heildarsamtök launafólks standa með öryrkjum

Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar og formaður Öryrkjabandalags Íslands skrifuðu undir yfirlýsinguna í húsakynnum Öryrkjabandalagsins í dag.

Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar og formaður Öryrkjabandalags Íslands skrifuðu í dag undir yfirlýsingu þar sem þess er krafist að hagur öryrkja verði bættur. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, skrifaði undir fyrir hönd bandalagsins.

Í yfirlýsingunni segir að heildarsamtök launafólks og Öryrkjabandalag Íslands standi saman að því að krefjast þess að hagur öryrkja verði bættur, öllum til hagsbóta. Þar eru settar fram þrjár lykilkröfur sem beint er til stjórnvalda. Í fyrsta lagi að lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé gert kleift að lifa mannsæmandi lífi. Í öðru lagi að skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna. Þriðja krafan er sú að störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

„Fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar. Við getum ekki kallað samfélagið okkar velferðarsamfélag nema allir njóti mannsæmandi lífs og enginn sé skilinn eftir í fátækt,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

„Það á ekki síst við á tímum endurreisnar sem nú fara í hönd að loknum COVID-19-faraldrinum. Það er hagur allra að bæta kjör öryrkja og sjá til þess að enginn sé dæmdur til fátæktar þótt starfsgeta láti undan. Að festast í fátæktargildru hefur áhrif á starfsgetu til framtíðar. Það er dýru verði keypt, ekki bara fyrir einstaklinga heldur fyrir samfélagið allt að svipta fólk virðingu og getu til athafna,“ segir þar ennfremur.

Í yfirlýsingunni kemur fram að lítið svigrúm sé fyrir fatlað og langveikt fólk á vinnumarkaði og til að sem flestir geti notið sín þar þurfi þröskuldurinn að vera lægri. „Öryrkjum má ekki hefnast fyrir það fjárhagslega að reyna getu sína í starfi þannig að þeir verði jafnvel verr settir eftir.“

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?